Vantar fjármagn til að koma á fót mjólkurbúi

Ekki hefur náðst að fjármagna tilraunamjólkurbúið sem Grænlendingar ætluðu að koma á fót og hugsanlega verður hætt við verkefnið vegna þess.
Tilraunastöðin í Upernaviarsuk í Julianehåb á SV-Grænlandi stendur fyrir því að reyna að koma á fót fyrsta mjólkurbúinu á Grænlandi. Í dag verða Grænlendingar að gera sér G-mjólk að góðu þar sem verð á lítra af nýmjólk er 400-500 kr. en flutningskostnaður er mikill eigi að koma vörunni ferskri í búðarhillur. Með mjólkurbúi myndi opnast möguleiki á aðgengi Grænlendinga á nýmjólk á hóflegu verði allan ársins hring.
Hins vegar hefur ekki tekist að fá fjármagn í verkefnið og nú eru allar líkur á það verði gefið upp á bátinn. „Hugmyndin er til staðar, verkefnið er klárt en það vantar fjármagn. Við höfum fengið loforð um styrki frá ýmsum sjóðum ásamt grænlensku heimastjórninni en samt vantar 20 milljónir kr. Það er mjög kostnaðarsamt að koma á fót mjólkurbúi,“ segir Kenneth Høegh, ráðunautur í Julianehåb.

Ætla ekki að gefast upp
Mjólkurbúinu er ætlað að kanna grundvöll frekari mjólkurframleiðslu og sölu mjólkur á Grænlandi auk þess að auka matvælaöryggi. Framleiðslan ætti að öllu eðlilegu að vera hafin nú en það eina sem tilbúið er eru þær sjö kýr sem eru á tilraunastöðinni. Kenneth Høegh er eins og aðrir starfsmenn tilraunastöðvarinnar svekktur yfir ástandinnu en vonast eftir því að málið leysist. „Því miður er stuðningur við landbúnað ekki í tísku og þess í stað vilja menn fremur styðja við umhverfisverkefni. Ég er hins vegar bjartsýnn á að okkur takist að útvega það sem til þarf, við ætlum ekki að gefast upp“ segir Kenneth Høegh.


Verkefnið er norrænt samstarfsverkefni tilraunastöðvarinnar í Upernaviarsuk, landbúnaðarráðgjafarinnar á Grænlandi, Landbúnaðarháskóla Íslands, Royndarstödin í Færeyjum og Kaupmannahafnarháskóla.


back to top