Útflutningur á lambakjöti hefur aukist verulega

Útflutningur á lambakjöti hefur aukist verulega og annar t.d. Kaupfélag Skagfirðinga vart eftirspurn eftir íslensku lambakjöti og þarf að takmarka sölu til viðskiptavina sinna erlendis. Að sögn Guðmundar Gíslasonar, sölustjóra hjá KS, á aukinn útflutningur ekki að valda skorti á lambakjöti á innanlandsmarkaði.
Ástæða aukinnar eftirspurnar er skortur á lambakjöti um heim allan eftir að framboð frá nokkrum helstu framleiðslulöndunum; Nýja Sjálandi, Ástralíu og Spáni, djóst saman um þriðjung. Aukning hefur helst verið í Suður-Ameríku en hún er óveruleg.
Jafnan hafa verið til nokkrar birgðir í byrjun september á hverju ári en í haust stefnir í að þær klárist. Söluaukningunni hefur fyrst og fremst verið mætt með því að nota birgðir sem ganga af eftir að innanlandsmarkaður hefur verið mettaður.
Guðmundur segir að útflutningur til Bandaríkjanna þrefaldist vísast með haustinu og verði þá yfir 200 tonn. Aukin eftirspurn verður til þess að söluverð hækkar umtalsvert, og bændur fá þá meira fyrir sinn snúð.
Kaupfélag Skagfirðinga og Sláturfélag Suðurlands greiddu bændum nokkra uppbót á verð síðasta hausts en nú þykja vera forsendur til umtalsverðra hækkana til þeirra. Á næstu vikum kemur í ljós hverjar þær verða.


back to top