Lög BSSL

Lög Búnaðarsambands Suðurlands

1.gr.
Búnaðarsamband Suðurlands, skammstafað BSSL, er samband búnaðar- og búgreinafélaga sem starfa í Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Það er aðili að Bændasamtökum Íslands. Heimili og varnarþing þess er á Selfossi.

2.gr.
Aðild að Búnaðarsambandinu geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar, sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í aðildarfélagi, sbr.1. gr
Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hverskonar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á starfsvæðinu:
Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla, úrvinnsla og þjónusta.
Búnaðarsambandið skal halda skrá yfir aðildarfélög sín og samræmda félagaskrá yfir alla félagsmenn þeirra, svo og skrá yfir fullgilda félagsmenn Búnaðarsambandsins.

3. gr.
Tilgangur Búnaðarsambandsins er að vera heildarsamtök sunnlenskra bænda og vera í forsvari fyrir sunnlenskan landbúnað.
Efla hvers konar framfarir í landbúnaði, gæta hagsmuna og auka hagsæld þeirra sem landbúnað stunda
Að framfylgja á hverjum tíma gildandi löggjöf um íslenskan landbúnað í samstarfi við þá aðila sem annast framkvæmd slíkra laga.

4. gr.
Búnaðarsambandið hyggst ná tilgangi sínum með því að:

  1. Vera í forsvari fyrir sunnlenskan landbúnað, koma fram fyrir hans hönd og annast kynningu á honum og standa vörð um hagsmuni sunnlenskra bænda.
  2. Reka ýmis konar þjónustu fyrir bændur, eftir því sem þörf er fyrir á hverjum tíma.
  3. Styðja hvers konar félagslega starfsemi í héraðinu sem stuðlar að framförum í landbúnaði.
  4. Annast miðlun fróðleiks og kynningarefnis eftir því sem henta þykir á hverjum tíma.
  5. Vera tengiliður aðildarfélaganna og félagsmanna við Bændasamtök Íslands. Sjá um kosningu til Búnaðarþings og önnur þau hlutverk sem kveðið er á um í samþykktum Bændasamtaka Íslands.
  6. Annast ýmiss konar umsóknir, eftirlit, umsjón, úttektir og vottun eftir því sem lög og reglur kveða á um.
  7. Sjá um rekstur þeirra fyrirtækja sem eru í eigu Búnaðarsambandsins og annast eignir þær, sem eru innan vébanda þess.

5.gr.
Heimilt er Búnaðarsambandinu að innheimta árgjald af félagsmönnum og skal upphæð þess ákveðin á aðalfundi sambandsins fyrir yfir standandi ár. Gjaldið má innheimta beint af félagsmönnum eða gegnum aðildarfélögin. Gjaldi þessu skulu félagsmenn skila fyrir 1. desember ár hvert. Heimilt er að víkja félagsmanni úr Búnaðarsambandinu hafi hann ekki staðið skil á árgjaldi ári eftir álagningu.
Reikningssár Búnaðarsambandsins er almanaksárið.

6. gr.
Á aðalfundi skal kjósa tvo fulltrúa til setu á Búnaðarþingi og jafn marga til vara. Skal einn fulltrúi kosinn úr Skaftafellssýslum og einn úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Sami háttur skal hafður með kjör varamanna. Kjörgengi til Búnaðarþings hafa einungis þeir félagar Búnaðarsambandsins sem uppfylla aðild að Bændasamtökum Íslands, samkvæmt staflið a og b í 3.gr samþykkta Bændasamtaka Íslands. Falli atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða

7. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins skal skipuð sex mönnum. Formaður, varaformaður, ritari og þrír meðstjórnendur. Kosnir skulu jafnmargir til vara. Stjórn og varastjórn skal þannig skipuð: Úr Austur-Skaftafellsýslu einn stjórnarmaður, úr Vestur-Skaftafellssýslu einn, úr Rangárvallasýslu tveir og úr Árnessýslu tveir. Stjórnarmenn og varamenn þeirra skulu kosnir til þriggja ára, þannig að Árnesingar skulu kosnir eitt árið, Rangæingar annað árið og Skaftfellingar hið þriðja.

Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til tveggja ára í senn og tveir til vara.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Hún ræður framkvæmdastjóra, er sér um daglegan rekstur sambandsins, reikningshald og ráðningu starfsfólks í samráði við stjórn sambandsins. Falli atkvæði jöfn innan stjórnar við afgreiðslu mála, ræður atkvæði formanns niðurstöðu.

8.gr.
Æðsta vald Búnaðarsambandsins er aðalfundur, skal hann haldinn árlega og eigi síðar en þremur vikum fyrir Búnaðarþing. Skal boða til hans með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.
Á aðalfundi eiga sæti kjörnir fulltrúar félaga sem aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands hefur samþykkt sem aðildarfélög.

Hvert aðildarfélag á rétt á fulltrúum sem hér segir:

          • Þar sem félagatala er allt að 60, einn fulltrúa.
          • Þar sem félagatala er 61-120, tvo fulltrúa.
          • Þar sem félagatala er 121-180, þrjá fulltrúa.
          • Þar sem félagatala er 181-240, fjóra fulltrúa, o.s.frv.

Auk kjörinna fulltrúa eiga stjórn sambandsins og starfsmenn þess málfrelsi og tillögurétt, svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar. Þó skal enginn fara með nema eitt atkvæði.
Aðalfundur er lögmætur ef helmingur kjörinna fulltrúa er mættur ásamt meirihluta stjórnar sambandsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi til þess að lagabreytingar hljóti löglega afgreiðslu, enda hafi tillaga að lagabreytingu verið send út með fundarboði.
Auka fulltrúafund skal halda ef helmingur stjórnarmanna eða einn þriðji hluti kjörinna fulltrúa krefst þess.

9. gr.
Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram til umræðu og afgreiðslu:

      1. Reikninga sambandsins fyrir undanfarið ár, áritaða af skoðunarmönnum.
      2. Skýrslu um starfsemi sambandsins undanfarið ár.
      3. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi reikningsár.
      4. Kjósa trúnaðarmenn samkvæmt 7. grein.
      5. Kosið skal til Búnaðarþings samkvæmt 6. grein.

10. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins er heimilt að kjósa heiðursfélaga. Hvorki aðalfundur né aðrir opnir fundir eru ályktunarfærir um kjör heiðursfélaga. Fjölda heiðursfélaga skal stilla mjög í hóf. Við kjör heiðursfélaga skal afhenda heiðursskjal undirritað af stjórnarmönnum sambandsins. Heiðursfélögum skal boðið að taka þátt í öllum hátíðarfundum sambandsins. Þeir skulu einnig boðaðir á aðalfund sambandsins og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

11. gr.
Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt af aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands.

12. gr.
Ákvæði til bráðabirgða: Félagsmenn Búnaðarsambands Suðurlands úr Austur – Skaftafellssýslu skulu ganga formlega frá félagsuppbyggingu sinni til samræmis við lög Búnaðarsambands Suðurlands fyrir aðalfund 2023. Fram til þess tíma fer Búnaðarsamband Austur – Skaftfellinga með hlutverk aðildarfélags fyrir hönd félagsmanna í Austur – Skaftafellssýslu, í samræmi við lög Búnaðarsambands Suðurlands. Að þeim tíma liðnum fellur þetta ákvæði niður.

Samþykkt á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands að Hótel Dyrhólaey, 8.mars 2022

back to top