Aðalfundur BSSL 2008

100. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008

Formaður BSSL, Þorfinnur Þórarinsson,  bauð fundarmenn og gesti velkomna. Minntist látinna félaga, Ingibjargar Sæunnar Jóhannesdóttur á Blesastöðum og Páls Lýðssonar í Litlu-Sandvík. Þorfinnur rakti æviferil þeirra í stórum dráttum og bað fundarmenn loks að rísa úr sætum til minningar um þessa félaga.

Þorfinnur tilnefndi Óttar B. Þráinsson sem fundarstjóra og Pétur Halldórsson sem fundarritara. Samþykkt án andmæla/mótframboða. Óttar kom í pontu og kallaði til Svein Sigurmundsson vegna skipunar kjörbréfanefndar sem svo var mönnuð og samþykkt með handauppréttingu:

Ólafur Einarsson, Hurðarbaki / Árnessýsla.
Ágúst Rúnarsson, V-Fíflholti / Rangárvallasýsla
Ólafur Þ. Gunnarsson, Giljum / V-Skaftafellssýsla.

Skýrsla stjórnar – Þorfinnur Þórarinsson formaður BSSL.
Þorfinnur
gat um framkomnar óskir um að flýta aðalfundi ár hvert. Sagði það ekki hafa verið framkvæmanlegt að þessu sinni en tillagan væri ekki gleymd.
Þorfinnur sagði m.a. 7 stjórnarfundi hafa verið haldna á árinu, allar fundargerðir komi fljótlega inn á heimasíðu BSSL, og af þessum 7 fundum einn haldinn utan Selfoss (á Hvolsvelli). Þorfinnur gat um formannafund sem að þessu sinni var með breyttu sniði á 100 ára afmælisári BSSL. Afmælisárið og atburðir því tengdu hafa verið mikið á dagskrá stjórnar (landbúnaðarsýning á Hellu) svo og húsnæðismál og hugsanlegar breytingar á þeim hafa einnig verið til skoðunar.

Þorfinnur kom inn á afdrif tillagna frá síðasta aðalfundi, þ.e. þær sem voru á borði stjórnar. Tæknilega virðist hægt að uppfæra sunnlenskar byggðir en kostnaðurinn óljósari.
Tillaga um afnám kjarnfóðurtolla – mun koma til framkvæmdar innan tíðar.
Tillaga um eflingu bændabókhaldsdeildar til skoðunar.
Tillaga um að fjölga greindum þáttum í heysýnum og hraðari niðurstöður. Svar frá LBHÍ á þá leið að allt sé þetta framkvæmanlegt en geri greiningarnar dýrari.

Þorfinnur fór létt yfir svið meginstarfsemi BSSL, þ.e. þjónustu við nautgriparækt, sauðfjárrækt og hrossarækt – undirliggjandi jarðrækt greinanna allra. Þorfinnur ræddi um möguleg ný verkefni í tengslum við Sunnu, s.s. mögulegt jarðræktarskýrsluhald og mat á kostnaði við gróffóðuröflun á sunnlenskum búum.
Rakti stuttlega rekstur BSSL á Stóra-Ármóti og framkvæmdir á liðnu ári; útistæða sem til stóð að gera en horfið frá sökum mikils kostnaðar, málun útihúsa, aukning framleiðslu á Stóra-Ármóti og frekari nýting auðra bása í fjósi, hugsanlega með kaupum á greiðslumarki. Þorfinnur gerði grein fyrir tilraunaverkefni um nýjar gerðir hesthúsa og tilraunabyggingu sem hætt var við, ekki síst sökum slælegs áhuga mögulegra samstarfs-aðila. Þorfinnur nefndi að íbúðarhús á Stóra-Ármóti þarfnaðist orðið viðhaldsaðgerða.

Þorfinnur rakti í nokkrum liðum rekstrarárangur á Kynbótastöð Suðurlands og athygliverðar tölur m.a. lítinn aksturskostnað. Klaufskurðarbás sem keyptur var á árinu er talsvert notaður og almenn ánægja með það verkefni.
Þá ræddi hann árangur bókhaldsdeildar BSSL sem hefur mætt nokkrum áföllum á liðnu ári, mest vegna áreitis annarra verkefna, tíðra mannaskipta o.fl.

Þorfinnur kom inn á útgáfumál ýmis, s.s. heimasíðu og fréttabréfsútgáfu, ársrit, gat um mikla vinnu við útgáfumál öll. Sagði ýmsar skoðanir uppi um gildi þessa en þó ljóst að þessa sögu yrði einhver að skrá.
Þorfinnur ræddi áætlaða og liðna viðburði á afmælisárinu 2008; formannafund, land-búnaðarsýningu, utanlandsferðir (sem ekki voru farnar sökum þátttökuleysis, bæði hugsanleg nautgriparæktarferð, sauðfjárræktarferð eða hrossaræktarferð). Stærsta málið væntanleg landbúnaðarsýning. Nefndi hugmyndir um ráðstefnuhald í október með áætlaðri yfirskrift: Verndun ræktunarlands.

Í lokaorðum sínum kom Þorfinnur inn á þá umbrotatíma sem nú líða, s.s. miklar hækkanir á aðföngum bænda og fjármagnskostnaði. Tækifæri þessu fylgjandi fyrir menn að taka sinn rekstur til ítarlegrar skoðunar, t.d. innan Sunnu. Á tímum breytinga gildir að leita sóknarfæra með logandi ljósi. Spurði hvort lífræn ræktun væri þar hugsanlegt svar. Þorfinnur þakkaði samstarf við starfsmenn og stjórn á liðnum árum en hann kvaðst nú hafa afráðið að láta af formennsku fyrir sambandið.

Skýrsla framkvæmdastjóra – Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn flutti yfirlit um rekstur BSSL og undirfélaga ásamt skýringum við ýmsa liði (bls. 152-164 í ársriti). Lækkun heildartekna um ca. 6 milljónir. Heildarniðurstaða tap upp á um 186 þúsund krónur eftir að afkoma dótturfélags hefur verið tekin inn í dæmið. Reikningarnir teknir til umræðu og samþykktar síðar á fundinum.
Að loknum löngum talnalestri fór Sveinn yfir í nánari greiningu einstakra þátta í rekstrinum með glærusýningu. Fyrst tiplað á sjálfu BSSL. Lækkun í seldri þjónustu/veltu fyrst og fremst um að kenna heldur minnkandi DNA-sýnatöku hrossabænda. Sjóðagjöld heldur minni. Rakti skiptingu tekna Búnaðarsambandsins: búnaðargjöld, frá ríki (af búnaðarlagasamningi), seld þjónusta, búfjárrækt, búnaðarfélög, rekstrarráðgjöf, aðrar tekjur, húsaleiga. Búnaðargjald stendur alls undir um 30% tekna, beint frá ríki um 22% og seld þjónusta alls um 22%. Aðrir liðir mun minni.
Hvað búnaðargjaldið sjálft varðar standa kúabændur undir 71% allra búnaðargjaldsgreiðslna til BSSL, sauðfjárbændur 14%, hrossabændur 4%.

Sveinn kom inn á ýmsa selda þjónustu s.s. kynbótasýningar, sauðfjárdóma og skýrði nánar þróun í þessum liðum. Sveinn rakti lauslega gildandi reglur um gjaldtöku og veitta afslætti til greiðenda búnaðargjalds.

Sveinn greindi frá rekstrarniðurstöðu Sauðfjársæðingastöðvar á síðasta ári en nokkur samdráttur varð í tekjum sökum heldur minni sæðissölu. Þó er rekstrarhagnaður upp´á rúm 900 þús. Gat um að árangur við sæðingar með djúpfrystu sæði hefði ekki verið nógu góður en haldið verður áfram við að bæta þessa tækni. Útflutningur til Bandaríkjanna er jafn og stöðugur en ýmsar rannsóknir því tengdar lækka nokkuð tekjur af þessari sæðisssölu. Sauðfjársæðingastöðin mun verða 40 ára í haust.

Kynbótastöðin er nú með lægstu sæðingagjöld á landinu samkvæmt ákvörðun stjórnar, við þetta myndast nokkuð tap en því til móts er gengið á sjóði. Fyrir liggur fjárhagsáætlun um óbreytt sæðingagjöld sem þýða mun eitthvert tap en á móti njóta menn sjóða sinna í verki. Ljóst að rekstrarkostnaður bifreiða stöðvarinnar mun snaraukast eins og hjá öðrum rekstraraðilum bifreiða. Sveinn sagðist ekki með nokkru móta skilja hversu hár svo kallaður ríkistaxti er ef miðað er við tölur stöðvarinnar.

Gat um kaup á klaufskurðarbás og nokkur atriði því tengdu. Sveinn taldi hér um að ræða mikið þarfaverk og farsælt í framkvæmd. Taldi málið hafa bætt heilsufar kúa og stuðlað að hærri afurðum. Básinn er nú í A-Skaftafellssýslu. Verkgjöld munu standa undir kaupkostnaði.

Stóra-Ármót kemur út með eilítið lakari rekstrarútkomu 2007 en árið þar á undan en þó vel ásættanlega, ekki síst vegna uppfærslu á stofnsjóði. Í Stóra-Ármóti eru bundnir verulegir fjármunir, það má öllum ljóst vera. Sveinn kvaðst tiltölulega ánægður með Stóra-Ármót almennt en hugsanlega þyrfti að vera heldur virkari fréttaflutningur út til bænda um hvað fer fram á tilraunabúinu. Sveinn lýsti nokkuð því tilraunastarfi sem nú er í gangi á Stóra-Ármóti og því sem væntanlegt er á næstu misserum.

Sveinn sagði bændabókhaldið ekki hafa gengið sem skyldi og nefndi mikið ytra áreiti og ónóg afköst af þeim sökum. Tíð mannaskipti og seinleg þjálfun á nýju fólki. Gerð eru skattframtöl fyrir alls um 180 bændur. Kvað hér allt heldur horfa til betri vegar og myndi verða í betra horfi.

Þessu næst kom Sveinn inn á afmælissjóð BSSL og LÍ, úr honum var m.a. tekið fjármagn til kaupa á hlut í fyrirtækinu Orf lífækni. Þau hlutabréf hafa hækkað í verði og fyrirtækið á góðum skriði.

Nýtt í ráðgjafaþjónustunni mun verða að ráðast í verkefni tengd fóðuröflunarkostnaði og sækja nokkuð fjármagn til þess í sjóði BÍ. Sveinn ræddi verkefnin framundan, m.a. kúaskoðanir, vorsýningar hrossa o.fl.

Væntanleg er saga BSSL til útgáfu fljótlega, en Páll Lýðsson féll sviplega frá er hann var kominn vel á veg með verkið. Áætlað að verkið nái útgáfu á árinu.

Sveinn ræddi væntanlega landbúnaðarsýningu og aðkomu starfsmanna BSSL að því máli. Kvað talsverða orku starfsmanna hafa farið í undirbúning og svo yrði áfram allt fram að sýningunni í ágúst. Sveinn þakkaði gott og ánægjulegt samstarf við bændur á liðnu ári og þakkaði fyrir sig.

Umræður um skýrslur.
Guðmundur Stefánsson í Hraungerði kvaðst hafa komið til 35 aðalfunda og nú tekinn að reskjast og eldast. Þakkaði samstarfsmönnum og samferðamönnum fyrir góð samskipti í gegnum tíðina og kvaðst ekki myndi taka endurkjöri.

Hrafnkell Karlsson á Hrauni taldi mönnum skylt að blanda sér í umræður um svo fjölþættan rekstur, að flestu leyti góðan, sem BSSL stendur fyrir. Hrafnkell taldi nauðsynlegt fyrir bókhaldsdeildina að bretta upp ermar – ekki mætti missa móðinn. Hrafnkell taldi bókhaldsdeildina afar mikilvægan þátt í starfinu sem mætti ekki hverfa. Hrafnkell tók þar með undir fram komnar hugmyndir Sveins. Hrafnkatli leist vel á fram komnar hugmyndir um alvöru athugun á fóðuröflunarkostnaði sunnlenskra búa.
Taldi að landbúnaðarsýningin væri mikilvægur gluggi fyrir bændur að sýna hvaða störf og verkefni þeir hefðu með höndum og nauðsynlegt að vel og traustlega yrði haldið á þessu máli.
Hrafnkell taldi ekki afráðið með að hrossabændur myndu hafna afmælisársferð – þó annað hefði komið fram í erindi formanns.
Hrafnkell minntist á að skráning landamerkja á starfssvæði BSSL væri kjörið og sjálfsagt verkefni fyrir sambandið, líkt og gert hefur verið t.d. í Borgarfirði. Taldi brýnt að BSSL færi í þetta mál og réði til þess sérstakan starfsmann. Taldi þetta ekki síst mikilvægt til að eyða óvissu milli aðila og taldi að staðkunnugleiki og þekking manna á örnefnum sem vísað er til í jarðabréfum sé víða orðin bágborin. Hrafnkell undraði sig á því að í lögum væru ekki ákvæði nú (voru í Jónsbók) um þá sjálfssögðu kvöð að seljendur lands legðu fram plögg um skýr jarðamörk hins selda lands. Hrafnkell hvatti stjórn BSSL mjög til að ganga í þetta mál.
Hrafnkell þakkaði fráfarandi formanni traust og farsæl störf hans á umliðnum árum – kvaðst vona að sambandið bæri gæfu til að finna hæfan eftirmann hans.

– Fundi frestað v. matarhlés klukkan 12:30. -13:10.

Ávarp Sigurgeirs Þorgeirssonar ráðuneytisstjóra.

Sigurgeir óskaði fundarmönnum til hamingju með 100 ára starf sambandsins og gat sérstaklega um hinn stóra þátt Hjalta Gestssonar, fyrrum framkvæmdastjóra. Sigurgeir hvatti menn til frekarri stórra og góðra verka landbúnaðinum til hagsbóta – hvernig svo sem aðstæður horfa við og vindar blása í framleiðsluumhverfinu. Sigurgeir kom inn á hinar stórkostlegu aðfangahækkanir og hækkanir fjármagnskostnaðar sem á hafa dunið undangengin misseri. Sagði að við yrðum að treysta því að bændur kæmust í gegnum þessa skafla.

Sigurgeir tíundaði markaðshorfur almennt og væntanlegar niðurstöður alþjóðasamninga. Hann ræddi breytingar á matvælalöggjöf og taldi umræðuna hafa þróast á verri veg en efni standa til. Sigurgeir rakti í kjölfarið aðdraganda þessa máls, þá undanþágu sem íslenskur landbúnaður hefur notið – en nú mun niður falla. Breytingar á regluverki Evrópusambandsin munu nú koma til framkvæmda hér heima og okkur mun ekki lengur gert kleift að standa á undanþágum fyrir landbúnaðarvörur. Grundvallarbreytingin er að bann við innflutningi á hráu kjöti mun falla niður. Þetta ætti ekki að fela í sér aukna hættu á innflutningi nýrra búfjársjúkdóma. Af öðrum toga er mögulegur innflutningur á salmonellusmiti sem þegar er hér barist við með afar góðum árangri en slíkt smit yrði m.ö.o. ekki alveg nýtt af nálinni. Meginhættan sem menn horfa fram á er aukning á samkeppni. Sigurgeir beindi athygli manna að tollverndinni sem væri stóra málið, þ.e. hvort breytingar yrðu á tollvernd íslensks landbúnaðar. Sigurgeir gat um fleiri breytingar í frumvarpinu svo sem um breytingar á skipulagi dýralæknisþjónustu; aðskilnað eftirlits- og þjónustuþáttar úti í héruðum. Það er skiljanlegt að menn hafi áhyggjur en Sigurgeir bað menn að halda stillingu. Taldi það hreinlega ekki valkost að sitja hjá með óbreytt ástand og setja okkur þar með útaf hinum innra markaði Evrópusambandsins. Sigurgeir þakkaði að lokum fyrir sig og færði BSSL heillaóskir með von um önnur 100 ár af jafn frjóu starfi og verið hefði.

Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ kvaddi sér hljóðs og þakkaði boð á fundinn. Bar kveðju Haraldar Benediktssonar, formanns BÍ, til fundarmanna sem ekki átti heiman-gengt í dag. Ræddi erindi Samkeppniseftirlitsins þess efnis að BÍ hefði gengið fulllangt í hagsmunagæslu sinni fyrir bændur. Eftirlitið teldi brotið gegn 12. grein samkeppnislaga sem kveður á um bann við hvatningu til verðhækkana. Eiríkur sagði að þetta hefði komið samtökum bænda verulega á óvart að vera sett undir hatt fyrirtækja í þessu efni. Flestir hefðu talið að fulltrúar bænda hefðu einvörðungu greint opinberlega frá alþekktum sannindum og horfum í íslenskum landbúnaði í kjölfarið. Eiríkur bað menn að fara varlega í kjaraumræðu og sleppa beinni hvatningu til verðhækkana þó málin séu rædd.
Frumvarp til breytinga á matvælalöggjöf liggur hjá BÍ til umsagnar nú um stundir. Eiríkur hvatti menn til að kynna sér frumvarpið vel og koma öllum athugasemdum til skila sem fyrst. Eiríkur taldi þörf á meiri tíma til að yfirfara frumvarpið til athugasemda. Eiríkur taldi t.a.m. að betri skýringar þyrfti vegna þeirrar auknu gjaldheimtu sem boðuð er í frumvarpinu. Hvað lendir beint á bændum o.s.frv. Eiríkur taldi frumvarpið fremur skýrt á sinn hátt en kröfur EB væru mjög margþættar og flóknar. BÍ leggur ríka áherslu á að fá betri tíma til að yfirfara öll tengd mál. Eiríkur endurtók að lokum árnaðaróskir sínar til BSSL.

Sveinn Ingvarsson í Reykjahlíð, varaformaður BÍ, tók til máls og ræddi væntanlegar breytingar á matvælalöggjöf. Taldi mestu hættuna liggja í minni tollavernd og almennri vernd íslenskrar búvöruframleiðslu. Sveinn gat um þá skoðun sem fram hefur komið að tiltölulega auðvelt ætti að vera að komast hjá aðskilnaði þjónustu og eftirlits hjá dýralæknum. Sveinn ræddi því næst þróun búnaðarlagasamnings og mögulegar breytingar. Kom inn á mögulega meiri styrki til lífrænnar framleiðslu, sagði að nú yrði látið reyna fyrir alvöru á áhuga bænda fyrir þess konar framleiðsluferli. Sveinn nefndi nýleg kaup á klaufskurðarbás og minnti á aðkomu Framleiðnisjóðs landbúnaðar að kaupunum. Taldi árangurinn ótvíræðan í bættu heilbrigði og líðan gripa.
Sveinn endurtók árnaðaróskir til BSSL og gat um þá ábyrgð sem fylgir því að reka samtök á borð við BSSL, ábyrgð stjórnenda, bænda og starfsmanna. Nefndi sérstaklega þá skyldu að gera starfsmönnum kleift að fylgjast með þeirri öru þróun sem orðið hefur í hinum fjölþættu greinum landbúnaðarins. Sveinn afhenti Þorfinni Þórarinssyni að lokum afmælisgjöf BÍ til BSSL sem Þorfinnur þakkaði með virktum.

Umræður.
Egill Sigurðsson á Berustöðum bar fram spurningar um innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar. Hvaða vinna væri farin í gang og hvaða vinna væntanleg til að skýra betur hvaða áhrif þessar breytingar munu mögulega hafa í för með sér. Nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því fyrirfram hvaða áhrif þetta hefur á starfsskilyrði bænda. Egill gat um ýmsar og misvísandi yfirlýsingar stjórnvalda og ráðamanna á undangengnum misserum; kallaði eftir skoðunum á þessum ummælum – ekki síst skoðunum sem komið hafa fram um innlenda framleiðslu á hvítu kjöti á þá leið að þessi framleiðsla mætti missa sín án teljandi stórra áhrifa. Egill kallaði eftir viðbrögðum til varnar innlendri búvöruframleiðslu.

Sigríður Jónsdóttir í Arnarholti spurði hvort stefnt væri að því að færa Matvælastofnun (fyrr Landbúnaðarstofnun) enn frekar völd og ábyrgð en orðið væri? Sagði sínar farir ekki sléttar í samskiptum sínum við stofnunina og gagnrýndi slæleg vinnubrögð.

Guðrún Stefánsdóttir í Hlíðarendakoti ræddi ískyggilegar aðgerðir sem miðuðu að því að skerða kjör íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Guðrún lýsti áhyggjum sínum af matvælaöryggi þjóðarinnar almennt við þá þróun sem orðið hefur í heiminum almennt.

Sigurgeir Þorgeirsson varð til andsvara. Kvað ráðuneyti sjávarútvegs/landbúnaðar þegar hafa framkvæmt talsverða vinnu við að meta möguleg áhrif en frekari aðgerða þörf. Hvar er hættan mest, þ.e. hvaða greinar eru í mestri hættu? Sigurgeir taldi væntanlegar breytingar strax veita aukið verðaðhald í sölu kjúklingakjöts. Framhaldið mun ráðast af pólitískri stefnumótun í tollamálun. Alþjóðaskuldbindingar muna knýja okkur til áframhaldandi tollalækkana en stærðargráða þeirra er að stórum hluta komin undir pólitískum vilja. Taldi það ótvíræðan vilja núverandi ráðherra að stefna samkeppnistöðu íslenskra vara ekki í óþarfa hættu. Minntist á það að hér væri líka um það að ræða að gefa og taka og minni útflutningshöft á okkar afurðir verði líka að meta; nefndi auknar útflutningstekjur MS sérstaklega í því sambandi.
Lög í dag eiga að tryggja að öll gjaldtaka sé í samræmi við kostnað og á það mun reyna við breytingar á allri eftirlitsskyldu. Andinn í lagasetningunni er að haga gjaldtöku samkvæmt kostnaði. Ábyrgð ráðuneytisins verður hér mikil að fylgja þessu eftir og halda vöku sinni. Reynt verður að tryggja að allur eftirlitskostnaður aukist sem minnst.
Ljóst er að ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt mun það leiða til aukinnar gjaldtöku fyrir dýralæknaþjónustu á ýmsum svæðum. Ríkið mun þó bera talsvert aukinn kostnað vegna aðskilnaðar þjónustu- og eftirlitsdýralækna. Sigurgeir taldi þó ekki útséð með að hægt væri að milda þessar breytingar með túlkun laganna.
Sigurgeir taldi að Matvælastofnun yrði efld áfram en bæta þyrfti stjórnsýslu hennar og fleiri atriði – ekki síst í kjölfar nýlegs álits umboðsmanns alþingis (vísaði til spurningar Sigríðar Jónsdóttur).

Ágúst Rúnarsson í V-Fíflholti lýsti störfum kjörbréfanefndar og framkvæmdi nafnakall til samræmis við innsend kjörbréf.

Vantar: Elvar Eyvindsson fulltrúa úr Landeyjum.
Veronika Narfadóttir í Túni varamaður Ketils Ágústssonar
Gunnar Þórisson varamaður fyrir Bún.fél. Þingvallahr.
Ásmundur Lárusson varamaður fyrir Hrossaræktarsamtök Suðurlands,
Þuríði Einarsdóttur og Bjarna Þorkelsson vantar fyrir Hrossaræktarsamtökin.

Fundurinn samþykkir störf kjörbréfanefndar.

Landbúnaðarsýning á Hellu
Kjartan Ólafsson alþingismaður óskaði fundarmönnum öllum til hamingju með afmæli samtakanna. Kom í aðfararorðum inn á væntanlegar breytingar matvælalöggjafar, líkti breytingunum við þær sem garðyrkjan gekk í gegnum á tíunda áratugnum.
Kjartan rakti í nokkrum orðum sögu stærri landbúnaðarsýninga á síðustu öld, nýbreytni og aðsókn en Kjartan kom m.a. mjög að sýningunni 1978. Lýsti aðkomu sinni að málinu nú. Jóhannes Símonarson ráðunautur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri landbúnaðarsýningar 2008. Allt í senn sögusýning, sýnishornasýning, afurðasýning, tæknisýning – fjölþætt sýn á starfsemi íslensks landbúnaðar. Markmiðið er að kynna íslenskan land-búnað á sem fjölþættastan hátt. Sýningin mun koma mjög vel inn´í þá pólitísku umræðu sem fer fram um landbúnaðarmál einmitt á þessum misserum. Mikil þörf og nauðsyn að þessi sýning heppnist sem allra best – einkum gagnvart hinum almenna borgara sem of oft veit harla lítið um íslenskan landbúnað.

Jóhannes Hr. Símonarson kynnti væntanlega sýningu, framkvæmd og undirbúning með glærusýningu. Sýningin verður fjölskyldusýning fyrir alla aldurshópa og það sem eftir á að sitja er: gæðaframleiðsla framleidd á tæknivæddum búum. Jóhannes lýsti skipulagi sýningarsvæðisins sem er Gaddstaðaflatir við Hellu. Sýningin teygir sig vítt um flatirnar og einnig verður vel skipulagt sýningarrými inni í hinni rísandi reiðhöll. Vélasalar munu verða með mjög umfangsmiklar kynningar á sínum tækjum. Búfénaður verður til sýnis af fjölbreyttasta tagi svo og vinna við búfénað og afurðavinnslu. Garðyrkjugeirinn mun koma með ýmsu móti að sýningunni. LBHÍ mun kynna niðurstöður rannsókna o.fl. Sýnd verða eldri landbúnaðartæki. Allar stofnanir landbúnaðarins, þjónustuaðilar og afurða-sölufyrirtæki munu koma að málum með einum og öðrum hætti. Samband sunnlenskra kvenna mun koma að málum með handverkssýningu. Síðast en ekki síst er um að ræða mikla skemmtun þar sem margir dagskrárliðir verða í boði samtímis. Töðugjöld sem er árleg hátíð Rangæinga verða haldin samhliða á sýningarsvæðinu og auka skemmtanagildið. Leiksvæði fyrir börn og afþreying þeirra verður mikill sómi sýndur. Við viljum sýna stoltan landbúnað, með gæðavörur og glaða bændur.

Viðurkenning fyrir besta nautið úr árgangi 2001 – Magnús B. Jónsson, landsráðunautur BÍ í nautgriparækt.
Magnús hóf ræðu sína á árnaðaróskum til BSSL. Kom inn á störf sín sem ráðunautur hjá BSSL fyrir nokkrum áratugum. Að þessu sinni falla verðlaunin í skaut Brúnastaðabúsins fyrir Spotta 01028. Spotti er í móðurætt mjög sunnlenskt naut. Kvað Spotta afar sterkt kynbótanaut og verðugt um langflesta kynbótaþætti – ef frá er skilin frumutala. Tvisvar áður hefur efsta naut árgangs komið frá Brúnastöðum (Bróðir/Rauður). Magnús lýsti framættum og einkennum Brúnastaðanauta. Magnús lagði áherslu á það að ræktunarstarf er ekkert skammtímaverkefni heldur síkvikt og vakandi langtímastarf. Ketill Ágústsson og Þórunn Pétursdóttir á Brúnastöðum tóku við verðlaunum sínum úr hendi Magnúsar.

Viðurkenningar fyrir afurðahæstu kýr og bú á árinu 2007 – Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur BSSL.
Þrjár afurðahæstu kýr síðasta árs eru verðlaunaðar. Þriðja í röð afurðakúa 2007 Brynja 594 frá Selalæk (9.199 kg mjólkur, 823 kg verðefna). Þórir Jónsson á Selalæk tók við verðlaunum úr hendi Þorfinns Þórarinssonar. Önnur stóð Pífa 997 frá Nýjabæ (11.067 kg mjólkur, 875 kg verðefna), Ólafur Björnsson tók við verðlaunum. Efst stendur Dóra 550 frá Selalæk (9.617 kg mjólkur, 900 kg verðefna), Þórir Jónsson tók við verðlaunum.

Afurðahæstu bú samkvæmt verðefnum. Í 5. sæti Vorsabær hjá Björgvini Guðmundssyni og Kristjönu M. Óskarsdóttur (7.105 kg / 517 kg verðefna / 39,9 árskýr). Í 4. sæti Núpstún hjá Margréti Larsen og Páli Jóhannssyni með 25,4 árskýr, 6.990 kg og 523 kg verðefna. Í 3. sæti Hrepphólar hjá Ólafi Stefánssyni og Ástu Oddleifsdóttur (51,2 árskýr / 6.961 kg / 530 kg verðefna). Í 2. sæti Kirkjulækur hjá Eggerti Pálssyni, Jónu K. Guðmundsdóttur og Páli Eggertssyni ( 36,7 ársk. / 7.567 kg / 585 kg verðefna). Í 1. sæti 2007 er Akbraut hjá Daníel Magnússyni (17,6 árskýr / 7.731 kg mjólkur / 594 kg verðefna).

Guðbjörg Jónsdóttir, Læk, bað um orðið. Hóf ræðu sína á því að þakka stjórn BSSL vel unnin störf og skýrar skýrslur til aðalfundar. Taldi það stöðugt nauðsynlegra að hafa öflugt og sterkt búnaðarsamband á tímum örra breytinga. Taldi helstu ógnina vera minni skilning stjórnmálamanna á stöðu og mikilvægi landbúnaðar; en öllum breytingum fylgdu tækifæri. Taldi sambandið búa yfir góðum mannafla en efla þyrfti samstarf við önnur sambönd og auka sérhæfingu. Guðbjörg fór vítt yfir sviðið og væntanlega þróun, t.d. fjölgun svo kallaðra frístundabænda. Guðbjörg lýsti að lokum framboði sínu til stjórnar BSSL.

Orðið gefið laust en enginn kvaddi sér hljóðs.

Sveinn Sigurmundsson kynnti tillögu um skipan í nefndir fundarins: allsherjarnefnd, fjárhagsnefnd og fagmálanefnd.

Sigurður Loftsson í Steinsholti kvaddi sér hljóðs. Mælti fyrir áliti nefndar um störf BSSL. Sigurður lýsti tilnefndum fulltrúum nefndarinnar og starfi hennar. Sigurður sagði umræður innan nefndar hafa verið miklar og málefnalegar. Sagði allmargt í tillögum nefndarinnar snúa að fleiri aðilum en BSSL, s.s. BÍ og öðrum búnaðarsamböndum. Sigurður las upp niðurstöður og tillögur nefndarinnar fyrir fundinn.

Nefndastörf hefjast.

Kaffihlé

Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi, tilkynnti um að hann gæfi kost á sér til stjórnarsetu fyrir Árnesinga.

Kosningar
Kosningar um tvo aðalmenn Árnesinga í stjórn BSSL. Leynileg og skrifleg kosning / starfsmenn fundar ganga til talningar.

Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum kynnir tillögu að Arnór Eggertsson verði löggiltur endurskoðandi BSSL áfram. Samþykkt með lófaklappi.

Niðurstöður kosningar til stjórnar: Gunnar Kr. Eiríksson 39 / Guðbjörg Jónsdóttir 38 / Jón Vilmundarson 1 / Helgi Eggertsson 3 / María Hauksdóttir 2 / Auðir seðlar 3. Varamenn samþykktir með lófataki: Helgi Eggertsson og María Hauksdóttir.

Reikningar samþykktir samhljóða.

Tillögur frá nefndum
Framsögumaður allsherjarnefndar: Sigurður Loftsson.
Framsögumaður fagmálanefndar: Hrafnkell Karlsson.
Framsögumaður fjármálanefndar: Jón Vilmundarson.

Tillögur og afgreiðsla aðalfundar.
Tillaga 1 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu 18. apríl 2008, beinir því til stjórnar að auka upplýsingastreymi um starfsemi Stóra- Ármótsbúsins og þær rannsóknir sem þar fara fram. Eins verði tryggð gagnvirk samskipti rannsóknaaðila við bændur á svæðinu.

Greinargerð.
Tilraunastöðin að Stóra-Ármóti hefur frá upphafi borið þungann af því rannsóknastarfi sem unnið er í nautgriparækt hérlendis. Eins hefur stöðin þá sérstöðu að vera að fullu í eigu heimamanna og staðsett í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins. Mikilvægur grunnur öflugs tilraunastarfs er gott og gagnvirkt upplýsingaflæði milli rannsóknaaðila og bænda. Staðsetning tilraunastjóra Stóra-Ármóts á svæðinu og tengsl hans við kúabændur hér hafa skipt miklu máli í þessu tilliti og hafa oftast verið með ágætum.
Með sameiningu alls tilraunastarfs í nautgriparækt undir Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hefur dregið úr beinni aðkomu bænda á svæðinu við starfsemina á Stóra-Ármóti. Fundurinn leggur áherslu á að breytt fyrirkomulag þessara mála verði ekki til að draga úr tengslum tilraunastarfsins við kúabændur á svæðinu.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 2 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna fyrirhugaðrar upptöku matvælalöggjafar ESB, að eftirfarandi verði gert:
• Að áhrif þess á starfsskilyrði landbúnaðarins verði skoðuð í samstarfi við hagsmunaaðila.
• Að stefna stjórnvalda í tollamálum á hverjum tíma sé ljós og fyrirsjáanleg.
• Að við allar breytingar á starfsskilyrðum verði þess gætt að landbúnaðurinn fái eðlilegan aðlögunartíma.
• Að tryggt verði að umræddar lagabreytingar skapi ekki aukna hættu varðandi lýðheilsu og dýraheilbrigði.
• Að matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt til framtíðar með framleiðslu íslenskra búvara.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 3 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 samþykkir að fela stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að leita leiða til að koma á einföldu en skilvirku rafmagnseftirliti í sveitum.

Greinargerð.
Þau miklu tjón sem orðið hafa í eldsvoðum að undanförnu kalla á aðgerðir. Eftirlit með raflögnum og búnaði í útihúsum er líklega áhrifamesta aðgerðin sem um er að ræða. Því er hvatt til að Búnaðarsamband Suðurlands hafi forgöngu um að koma á einhverskonar eftirliti sem hjálpi bændum að hafa hlutina í lagi. Ef til vill mætti ná samstarfi við tryggingafélög um framkvæmdina.

(Samþykkt með 8 atkv. gegn 5).

Tillaga 4 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 lýsir þungum áhyggjum af afkomu kjötframleiðslugreina í landinu, leggi stjórnvöld niður útflutningsskyldu á dilkakjöti eða lækki tolla á innfluttar kjötvörur. Við þær aðstæður yrði vonlaust að sækja þær miklu verðhækkanir, sem orðið hafa á aðföngum, í hærra afurðaverði. Fundurinn skorar á stjórn BSSL að beita sér fyrir hönd bænda, til að ekki komi til uppnáms á kjötmarkaði og algers hruns í afkomu bænda.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 5 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 skorar á fjármálaráðherra að lækka gjöld og skattaálögur á díselolíu.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 6 /  Komst ekki til nefnda en samþykkt svo af fundinum öllum eftir framsögu Guðrúnar Stefánsdóttur, Hlíðarendakoti.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, skorar á umhverfisráðherra og Framkvæmdanefnd búvörusamninga að auka framlög til Landbótasjóðs.

Greinargerð:
Í Landbótasjóði eru nú 20 milljónir en til að geta staðið við þær áætlanir sem þegar er verið að vinna eftir þarf sjóðurinn að vera 40 milljónir og æskilegt er að geta hafið ný verkefni.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 7 / Fagnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, beinir því til Matvælastofnunar að auka fræðslu um þá hættu sem fylgir heyflutningum og flutningi á tækjum, tengdum heyskap og jarðvinnslu, milli varnarhólfa.

(Samþykkt – með einu mótatkvæði eftir samþykkta breytingu á lokaorðum).

Tillaga 8 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, samþykkir fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2008.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 9 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2008 verði sæðingagjöld óbreytt, kr 500,- á kú.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 10 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr 1.000,- á félagsmann.

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 11 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna. Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr 6.000,-) x 2. (þ.e. nú 12.000,-).

(Samþykkt samhljóða).

Tillaga 12 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr 10.000,- á hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknist með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr 150.000,- miðað við árið 2003 sem fram-reiknast með launavísitölu.

(Samþykkt samhljóða).

Fundur stjórnar Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu, haldinn á Hvolsvelli 7. apríl 2008, lýsir furðu á framfylgni Matvælastofnunar á reglugerð um merkingu búfjár no. 289/2005. Fundurinn skorar á Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðherra að gerðar verði breytingar á reglugerðinni þar um að lágmarksfrávik þurfi svo að til afskipta komi. Stjórnin skorar á stjórn BSSL að beita sér fyrir því að ekki sé farið offari gegn bændum.

Greinargerð:
Fjöldi ábendinga hafa borist frá bændum um bréf frá Matvælastofnun, þar sem bændum hefur verið hótað meðferð hjá sýslumanni ef vantað hafa eyrnamerki í lamb í sláturhúsi. Teljum við að hér fari Matvælastofnun offari þar sem það er þekkt að gripir hafi glatað merki á sláturbíl eða í sláturrétt. Lágmarksfrávik (t.d. 2-3% af heildarfjölda fjár af bæ) frá reglugerð gæti komið í veg fyrir óþægindi og óþarfa rannsókn á eðlilegum afföllum merkja.

(Vísað til stjórnar BSSL úr Allsherjarnefnd).

Niðurstöður nefndar um endurskoðun á starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands.
Aðdragandi:
Í kjölfar ályktunar síðasta aðalfundar Búnaðarsambands Suðurlands, skipaði stjórn þess eftirtalda í nefnd til að endurskoða starfsemi sambandsins: Guðbjörgu Jónsdóttur tilnefnda af stjórn Búnaðarsambands Suðurlands, Sigurð Loftsson tilnefndan af Félagi kúabænda á Suðurlandi, Sigríði Jónsdóttur tilnefnda af félögum sauðfjárbænda á Suður-landi og Berg Pálsson tilnefndan af Hrossaræktarsamtökum Suðurlands. Auk þess naut nefndin aðstoðar Runólfs Sigursveinssonar, ráðunautar.

Ályktun aðalfundarins var svohljóðandi.
“Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Heimalandi 20. apríl 2007 beinir því til stjórnar, að skipa starfsnefnd til að endurskoða starfsemi Búnaðarsambandsins. Nefndin skal m.a. vinna, í samráði við búgreinafélögin á svæðinu, tillögur um eftirfarandi og skila fyrir næsta aðalfund:

1. Hvaða verkefni skuli kostuð af búnaðarlagasamningi.
2. Hvert sé eðlilegt grunngjald hverrar búgreinar af búnaðargjaldi.
3. Hvað skuli teljast grunnþjónusta hverrar búgreinar og hvaða þjónusta skuli seld.”

Niðurstaða:
Nefndin leggur til að unnið verði áfram að endurskipulagningu leiðbeiningastarfs Búnaðarsambandsins. Lögð er áhersla á að starfseminni sé gert fært að þróast í takt við þarfir notendanna og sérhæfing verði aukin. Skilgreina þarf til hvaða verkefna sameiginlegum fjármunum skuli varið. Unnið verði að bættri nýtingu þekkingar og fjármuna með því að draga úr hólfaskiptingu milli búnaðarsambanda og láta frekar einstök verkefni og sérhæfingu starfsmanna ráða um aðgengi notenda að þjónustu en núverandi skiptingu í starfsvæði.

Nefndin leggur áherslu á eftirfarandi atriði í þessu sambandi:
• Eðlilegt er að þeir liðir sem tengjast eftirlitsþáttum séu að fullu kostaðir af búnaðarlagasamningi.
• Tryggt verði að fjármunir sem ætlaðir eru af búnaðarlagasamningi til kynbótaskýrsluhalds séu fullnægjandi fyrir það verkefni.
• Eðlilegt er að það hlutfall búnaðargjalds sem ætlað er að standa straum af þeirri grunnþjónustu sem krafist er verði jafnt hjá öllum búgreinum. Þetta gjald er nú 0.1% hjá öllum greinum nema nautgripa-, sauðfjár-, hrossa- og loðdýrarækt.
• Grunnþjónusta verði bundin við ábendingar varðandi leit að upplýsingum og ráðgjöf svo og hvar aðstoðar er að leita varðandi réttarstöðu viðkomandi.
• Öll fagleg ráðgjöf, sem ekki nýtur stuðnings annarstaðar frá, skal seld á kostnaðarverði. Sé hinsvegar um að ræða verulega innkomu af búnaðargjaldi einstakra greina, skulu bændur innan hennar njóta þess með afsláttum.
• Samkvæmt þessu verði unnin gjaldskrá sem endurspegli raunverulegan kostnað við þjónustuna. Hún skal vera opinber og aðgengileg öllum, ásamt þeim afsláttarkjörum sem gilda hverju sinni.
• Gjaldskrárkerfið verði nýtt til að efla fagmennsku og sérhæfingu með samstarfi við önnur búnaðarsambönd. Þannig fengist aukin nýting þekkingar, mannauðs og fjármuna.
• Leitast verði við að bjóða hlutlausa ráðgjöf í viðskiptum bænda við sölu- og þjónustuaðila.
Ljóst er að ekki eru öll þessi atriði á valdi Búnaðarsambands Suðurlands. Því er lagt til að leitað verði samstarfs við önnur búnaðarsambönd sem og Bændasamtök Íslands um leiðir að þessum markmiðum.

(Vísað til stjórnar BSSL til frekari úrvinnslu – frá Allsherjarnefnd).

Litlar umræður urðu um tillögur almennt (eftir nefndastörf). Þó tók Arneiður D. Einarsdóttir til máls varðandi tillögu um rafmagnseftirlit. Sagðist telja ódýrara að búnaðarfélög stæðu sameiginlega að því að fá rafvirkja fremur en komið væri á opinberu eftirliti og dýru. Sigurður Loftsson varð til andsvara og taldi anda tillögunnar ekki þessa eðlis heldur væri verið að leggja til leiðbeinandi fræðslu og ráðleggingar fremur en opinbert eftirlit.

Önnur mál:
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum, lýsti ánægju með uppfærslu Sunnlenskra byggða. Fagnaði samþykktri tillögu sem miðar að bættu upplýsingaflæði frá Stóra-Ármóti. Vildi gjarnan sjá BSSL gera tilraunir t.d. með útistæðu – en ekki láta bændur alltaf sjálfa gera tilraunirnar. Sagði nauðsynlegt að skýra betur hvaða þjónusta ætti að rúmast innan búnaðargjaldsgreiðslna bænda. Hrósaði heimasíðunni sérstaklega og taldi hana gott dæmi um eitthvað sem ætti heima undir grunnþjónustu. Vildi fá svör við því hvað landbúnaðarsýningin kæmi til með að kosta.

Ragnar Lárusson, Stóra-Dal, óskaði nýjum stjórnarmönnum til hamingju og fundarmönnum öllum til lukku með afmælisárið.

Egill Sigurðsson, Berustöðum, kvaddi sér hljóðs. Þakkaði Þorfinni Þórarinssyni og Guðmundi Stefánssyni farsælt samstarf til margra ára. Hrósaði Þorfinni fyrir góð störf og taldi hann mann sátta og einingar.

Þórir Jónsson, Selalæk. Ræddi hugmyndir ýmsar um verndun ræktunarlands og þá umræðu sem þegar hefur farið fram. Þórir taldi vanta inn í þá umræðu, þátt bóndans sjálfs sem eiganda þess jarðnæðis sem vélað er um og fjárhagslega hagsmuni hans. Þórir undirstrikaði sérstaklega að þessir þættir, fjárhagslegir, mættu ekki gleymast ekki síst m.t.t. umræddrar ráðstefnu um sama – á komandi hausti.

María Hauksdóttir, Geirakoti, þakkaði stjórn BSSL og fráfarandi stjórnarmönnum fyrir farsæl störf í þágu bænda. Óskaði fundarmönnum öllum til hamingju með að hafa í fyrsta sinn kjörið konu í stjórn samtakanna, loks eftir 100 ár. Taldi þetta mikinn og jákvæðan viðburð.

Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri svaraði nokkrum þeirra punkta sem fram komu í máli Arnheiðar Einarsdóttur. Lýsti á nýjan leik þeim möguleikum sem við blöstu við endurnýjun bókaflokksins Sunnlenskar byggðir. Taldi öfluga bókhaldsdeild vera afar mikilvæga sambandinu og algera forsendu fyrir öflugum rekstrarleiðbeiningum. Sveinn vék að kostnaði við landbúnaðarsýningu, veltan talin geta orðið á bilinu 35-40 milljónir. Stofnað verður sér fyrirtæki og kt. fyrir sýninguna. Stærstu tekjupóstar væntanlega aðstöðugreiðslur vélasala og söluaðila í básum. Utan við sýninguna er annar kostnaður vegna afmælisársviðburða talinn um 3,5 milljónir króna. Sveinn þakkaði Þorfinni Þórarinssyni afar farsæl og óeigingjörn störf og taldi hann öðru fremur mann aðalatriða. Sveinn þakkaði ennfremur Guðmundi Stefánssyni fyrir hans langa og góða starf innan stjórnar BSSL.

Þorfinnur Þórarinsson, Spóastöðum, dró niðurstöður fundarins saman. Kvað sérstöðu BSSL m.a. liggja í stærðinni, rekstri tilraunabús og því hvað hin dreifðu héruð hefðu staðið fast saman sem sterk heild. Taldi BSSL líka hafa notið þeirrar gæfu að hafa mjög hæfa framkvæmdastjóra. Taldi vinnuanda á BSSL afar jákvæðan og góðan. Þorfinnur taldi BSSL hafa mikla getu til að takast á við stór og viðamikil verkefni framtíðar. Hann hvatti fundarmenn sérstaklega til að bjóða vinum og kunningjum til heimsóknar á Suðurland á landbúnaðarsýningu 2008.

Þorfinnur óskaði nýjum stjórnarmönnum velfarnaðar í störfum sínum sem og fyrrum samstarfsmönnum og starfsmönnum fundarins.

Óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sleit fundi.

Pétur Halldórsson,
fundarritari

back to top