Aðalfundur BSSL 2003

95. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn 26. apríl 2003 á Heimalandi, Rangárþingi eystra.

1.Fundarsetning, Þorfinnur Þórarinsson formaður.
Þorfinnur setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann kynnti tillögu að starfsmönnum fundarins. Lagt var til að Bergur Pálsson yrði fundarstjóri, Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir og Pétur Halldórsson fundarritarar. Tillagan var samþykkt.

2.Skipan kjörbréfanefndar
Tillaga að skipan kjörbréfanefndar: Jón Jónsson Prestbakka, Ingimundur Vilhjálmsson Ytri-Skógum og Kristmundur Sigurðsson Haga. Tillagan var samþykkt.

3.Skýrsla stjórnar, Þorfinnur Þórarinsson, formaður.
Þorfinnur rakti starfsemi Bssl. Átta stjórnarfundir voru á árinu þar af tveir með nýju sniði, í nóvember var haldinn fundur með varamönnum og í janúar var haldinn stjórnarfundur á Höfðabrekku með sveitarstjórn Skaftár- og Mýrdalshrepps. Farið var yfir rekstur og starfið á hverjum stjórnarfundi. Formannafundur var haldinn í desember, þar var meðal annars sagt frá Danmerkurferð, þjóðlendumálum og framtíðarhorfum í alþjóðaviðskiptum. Þorfinnur ræddi um að laganefnd mun skila áliti á aðalfundinum. Þorfinnur fjallaði um opnun Búnaðarmiðstöðvar Suðurlands fyrsta nóvember s.l. en níu aðilar eru þar með skrifstofuaðstöðu.
Þorfinnur sagði að starfssemi Búnaðarsambandsins fælist aðallega í ráðgjafastarfi og taldi leiðbeiningastarfið vera í stöðugri þróun og nefndi þar búrekstrarverkefnin Sunnu og Sóma. Fjármagn til búrekstraráætlana 2003 var 21 milljón í heildina en það er ekki nema helmingurinn sem hefur nýst. Telur að fagmennska í hrossarækt sé vaxandi, 720 hross voru dæmd á Gaddstaðaflötum 2002. Þorfinnur telur þörf á auknum leiðbeiningum í jarðrækt í kjölfar breyttra áherslna í fóðuröflun. Þorfinnur kom inná gæðastýringu í sauðfjárrækt, telur hana mikið tækifæri til að efla sauðfjárræktina. Fjallaði um að samstarfsaðilar eru í ýmsum verkefnum; BÍ, RALA, LBH, MBF, Lánasjóður landbúnaðarins og Samband garðyrkjubænda. Þorfinnur ræddi um kúasýninguna í Ölfushöll 2002 og að ákveðið er að halda hana annað hvert ár. Þorfinnur fjallaði um hugmynd um að hafa opið hús á Stóra Ármóti, skemmtilega kvöldstund í júní. Þorfinnur nefndi áhugaverða tilraun sem er í gangi á Stóra Ármóti um áhrif fóðrunar um burð.
Þorfinnur fór yfir rekstur Búnaðarsambandsins: Heildarvelta Bssl. 170 milljónir. Laun og verktakagreiðslur 86 milljónir, Bændabókhald 7 milljóna velta, Kynbótastöð 48 milljóna velta, Sauðfjársæðingar 5,4 milljóna velta, Stóra-Ármót ehf 26,6 milljóna velta.
Þorfinnur telur framtíðina óvissa og nefndi þar alþjóðasamninga um landbúnaðarvörur, samninga um mjólkurframleiðslu, afnám heildsöluverðs á mjólk, breytingar í smásöluverslunum, áherslur hjá nýrri ríkisstjórn? Telur þetta ekki ógn en einhverjar breytingar. Þorfinnur telur tækifæri vera þó nokkur; erfðabreytt korn, línrækt, raforkuframleiðsla, fiskeldi, gæðastýrt lambakjöt, skógrækt, þjónusta við þéttbýlisbúa, veiði og fleira. Þorfinnur telur að undirbúningur undir framtíðina felist í aukinni þekkingu, fagmennsku og færni. Þorfinnur ræddi um framtíð Búnaðarsambandsins og telur að verið sé að undirbúa framtíðina með því að aðskilja og greina reksturinn. Þorfinnur telur fjárhagslega stöðu Búnaðarsambandsins sterka, telur það faglega sterkt og enn fremur að það þurfi að aðlagast hratt nýjum og síbreytilegum verkefnum. Telur að sterk staða Bssl. sé sóknarfæri fyrir bændur. Þorfinnur þakkaði samstarfið á starfsárinu.

4.Reikningar Búnaðarsambands Suðurlands og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir ársreikninga Búnaðarsambandsins og skýrslu framkvæmdarstjóra. Rakti tekjur og gjöld, fjárfestingar, afskriftir og aðrar lykiltölur rekstrar á liðnu rekstrarári, hjá Búnaðarsambandinu og tengdri starfssemi.
Ræddi um rekstur sauðfjársæðingarstöðvarinnar. Hagnaður upp á 98 þúsund, tekjur af útfluttu sæði voru 564 þúsund. Metþátttaka var í sæðingum síðastliðið haust, sæddar 13.845 ær þar af 7.186 ær utan Suðurlands. Fjallaði um garnaveikina sem kom upp á stöðinni síðastliðið haust, einnig fjallaði hann um nýjan blöndunarvökva sem notaður var við sauðfjársæðingar en því miður var árangurinn slakur og sauðfjárbændur hlutu verulegan skaða af þessum tilraunum. Sveinn taldi að finna þyrfi leið til að koma til móts við sauðfjárbændur og bæta þeim skaðann að einhverju leiti.
Sveinn fjallaði um rekstur Kynbótastöðvar. Hagnaður upp á 1.050 þúsund. Búum hefur fækkað um 16 en kúm um 369 síðastliðið ár. Aukning var í kvígusæðingum en þær eru fríar. Sæðingagjöldin verða óbreytt sem þýðir raunlækkun.
Sveinn fór yfir rekstur Stóra Ármóts en það er rekið sem ehf. Búrekstur gekk sæmilega, 55% framlegð. Samkomulag er við RALA og LBH. Hlunnindi á Stóra-Ármóti eru; jarðhiti, laxveiði og gæsaveiði.
Fjallaði um að bændabókhaldið er aðskilið öðrum rekstri og var að velta um 7 milljónum. Alls eru 160 bændur í bókhaldi og um 100 í virðisaukauppgjöri. Telur að aðskilja þurfi ráðgjafastörf og bændabókhald og að þjónustan sé sjálfbær og telur að styðja þurfi við bókhaldsstörf hjá bændum og standa að fræðslu í dk-Búbót.
Sveinn fór yfir rekstur Búnaðarsambandsins. Velta var rúmar 82 milljónir, hagnaður upp á 6.257 þúsund. Aðildarfélög 42 og félagar eru 1.505. Ræddi um að húsnæði Bssl. fékk nýtt nafn s.l. haust, Búnaðarmiðstöð Suðurlands, en þar eru auk Búnaðarsambandsins; Veiðimálastofnun, Héraðsdýralæknisembættið, Suðurlandsskógar, Skógrækt ríkisins og Lögmenn Árborgar. Fjallaði um að nýtt símkerfi var tekið í notkun á Búnaðarmiðstöðinni og er um að ræða sameiginlega símsvörun. Sveinn fór yfir starfsmannahald Bssl. Kristján Bjarndal og Runólfur Sigursveinsson eru báðir að fara í veikindafrí. Verið er að opna skrifsstofu á Hvolsvelli og Pétur Halldórsson mun vera þar. Ræddi um þróun ráðgjafaþjónustunnar, í búrekstrartengdri ráðgjöf eru um 90 bændur, SMS hópar voru stofnaðir tengdir Sunnu verkefninu. Telur að efla þurfi starf í jarðrækt. Fór yfir það sem framundan er; skoðun á kúm og kvígum og myndasýning næsta haust, sýningar kynbótahrossa í Gunnarsholti, gæðastýringarnámskeið í júní, tölvunámskeið, ný verkefni tengd forðagæslu. Sveinn taldi að við lifðum tíma örra breytinga þar sem sífellt færri hendur þyrfti til matvælaframleiðslu og nefndi þar kjötframleiðsluna. Telur að hefbundin landbúnaðarframleiðsla færist frá þéttbýlinu og nefndi þar að mjólkurframleiðslan færist sífellt frá þéttbýlinu. Sveinn telur vera óvissu framundan en ný tækifæri m.a. í jarðrækt.

5. Matarhlé.

6.Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, ávarp.
Guðni talaði um mikilvægi þess að hafa öflugt Búnaðarsamband og sveigjanlegar landbúnaðargreinar. Hann telur að huga þurfi að frekari stækkun landbúnaðarfyrirtækja á landsvísu. Ræddi um undirskrift reglugerðar um háskólahald að Reykjum í Ölfusi og telur stofnunina vera ört vaxandi og metnaðarfyllri vísinda-og skólastofnun. Kom inn á aukið hlutverk skógræktar í íslenskum landbúnaði, telur skógræktina vera sameiginlegt verkefni bænda, vísindamanna og ráðunauta. Nefndi glæsilegt og langt starf hjónanna á Hrafnkelsstöðum og sókn íslenskrar hrossaræktar. Guðni nefndi sjónvarpsþátt þar sem fjallað var um íslenskar landbúnaðarafurðir og í því sambandi aukna eftirspurn eftir íslenskum landbúnaðarafurðum í Bandaríkjunum. Guðni telur að margt hafi gerst á undanförnum fjórum árum, m.a. að aukin sátt ríki milli sveitar og þéttbýlis, sátt sem ekki var áður fyrir hendi. Fjallaði um öra uppbyggingu og fjárfestingar í landbúnaðinum og ræddi um þróunina í stækkun og fækkun búa sem sé sár en nauðsynleg. Telur frjálsa verðlagningu mjólkur á heildsölustigi rústa greinina. Mikilvægt að næsti samningur verði unninn á breiðum grunni með aðkomu sem flestra aðila. Farsælast að verðlagsnefnd ákveði áfram heildsöluverð. Kom inn á gæðastýringarsamning sauðfjárbænda sem í ýmsu tilliti var umdeildur. Telur sauðféð vera og hafa verið mikilvægt Sunnlendingum bæði sem aðal- og aukabúgrein. Telur samning sauðfjárbænda vera góðan þegar bændur vinna í sátt að markmiðum hans. Guðni ræddi um að hestamennska er í mikilli sókn, nefndi stuðning við þróunar og markaðsstarf, Hestamiðstöð Íslands, komandi sendiherra íslenska hestsins. Ræddi um langtíma landgræðsluáætlun til 10 ára og samstarf með bændum. Telur mikilvægt að styrkja embætti yfirdýralæknis í viðsjárverðum heimi, verndun hreinleikans. Nefndi árvissan ágreining á grænmetismarkaði en með tilkomu langtímasamnings og beingreiðslna hefur þetta breyst, jákvæð áhrif og lækkandi verð. Guðni sagðist bjartsýnn á komandi tíma. Mikil þekking og tækni til staðar í íslenskum sveitum og landinu öllu. Mörg aðsteðjandi tækifæri svo sem erfðabreytt korn, lífmassaframleiðsla og fleira. Taldi góða sátt milli sveitar og þéttbýlis gríðarlega mikilvæga, gagnkvæmur skilningur og virðing. Landbúnaðurinn er ein heild og greinarnar verða að standa saman af sanngirni.

7.Félagsleg staða bænda í kjötframleiðslunni og samnýting ráðgjafaþjónustu. Ari Teitsson, Formaður BÍ.
Þakkaði þann heiður að fá að fylgjast með störfum fundarins. Vandamál til umræðu. Blanda af frjálsræði og höftum, erfitt í framkvæmd. Ræddi um mjög lækkandi verð á kjöti, verð á lambakjöti nú mjög svipað og í ársbyrjun 2000, svínakjötið um 70% af því sem það var þá. Hvað hefði verið hægt að gera? Beita Lánasjóði landbúnaðarins af meiri hörku? Ráðum við ekki við þetta frelsi? Hefði verið hægt að beita félagskerfinu? Geta afurðastöðvarnar bundist samtökum um að halda verði uppi t.d. á svínakjöti. Er mögulegt að tilgreina lágmarksverð og beita afurðarstöðvunum? Ekki hefur tekist að minnka framleiðslu á svínakjöti sem selt er langt undir framleiðsluverði sem þýðir óbreytta stöðu, sömu framleiðslu og óbreytta verðpressu. Er þetta frelsi þannig að ekkert er hægt að gera? Félagslegi grunnurinn verður að koma með lausn málsins. Reifaði stöðu Móabúsins, hugsanleg er niðurfelling skulda sem hann telur alvarlegt athugunarefni til fundarmanna. Aðkoma Sunnlendinga gegnum Mjólkurfélag Reykjavíkur sem er einhver stærsti lánardrottinn Móabúsins.
Ræddi um hvernig hægt er að breyta leiðbeiningaþjónustunni og telur skynsamlegt að færa saman rannsóknir og leiðbeiningar, þ.e. fleiri fræðasvið saman. Stærri einingar og færri leiðbeiningamiðstöðvar: Suðurland, Akureyri og Hvanneyri. Virkja samstarf stofnananna, færa starfið meira á landsvísu þ.e. lofa öllum að njóta. Þannig mætti ná betri miðlun til allra, hagkvæmari rekstri og minnka svæðisbundinn ríg.
Ari ræddi um mjókursamning. Telur að það sem skilaði síðasta mjólkursamningi fyrst og fremst á þurrt var einmitt það að verðlagning yrði gefin frjáls 2004.

8.Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Alls voru 50 fulltrúar voru mættir. Ekki bárust kjörbréf frá Búnaðarfélagi Þingvallahrepps, Búnaðarfélagi Grímsneshrepps, Búnaðarfélagi Grafningshrepps, Búnaðarfélagi Eyrabakka, Búnaðarfélagi Hvolhrepps og Búnaðarfélagi Djúpárhrepps.

9.Álit laganefndar, Sigurður Loftsson.
Sigurður sagði þetta þriðja aðalfund í röð sem lagðar eru fram tillögur frá laganefnd. Nefndin hóf störf á haustdögum. Tillögur sendar út til aðildarfélaga til kynningar. Aðdragandinn er sá að búnaðarfélög voru í upphafi einu aðildarfélög Búnaðarsambandsins. Búgreinafélög sóttu á um að verða aðilar að búnaðarsambandi og voru tekin inn 1987 en á jafnréttisgrunni 1996. Sigurður ræddi núverandi fyrirkomulag, málamiðlun milli sjónarmiða talsmanna búnaðar- og búgreinafélaga. Segir að kerfið þyki þungt og flókið í vöfum eins og það er í dag. Atkvæðavægið er ójafnt gagnvart aðalfundi, ekki hefur verið tekið tillit til umfangs búgreina. Telur mikilvægt að kerfið sé einfalt og skilvirkt. Í dag eru aðildarfélög með búnaðar og búgreinafélög.
Helstu leiðir:
Bein aðild/Kostir; fullkomin jöfnuður atkvæða, stutt boðleið. Gallar; hætt við einangrun, raddir búgreina óskýrari, stærð svæðisins.
Bein aðild, deildarskipting/Kostir; tryggir dreifingu fulltrúa, minnkar hættu á félagslegri einangrun. Gallar: raddir búgreina óskýrari, í eðli sýnu sama aðferð og búnaðarfélagsleiðin.
Búnaðarfélög/ Kostir; tryggir dreifingu og tengsl við svæðið. Gallar; raddir búgreina óskýrari, félögin misöflug, breytt sveitamörk.
Búgreinafélög/Kostir; sterkur félagslegur grunnur, sterkari hagsmunatengsl. Gallar; félögin eru mismunandi uppbyggð, misjafn félagslegur styrkur, gæta þarf tengingar um svæðið.
Sigurður fór yfir niðurstöður nefndarinnar. Breytt búseta og aukin sérhæfing í landbúnaði hefur leitt af sér ólíkari þarfir íbúa svæðisins. Búgreinafélög eða félög á þeim grunni líklegustu félagseiningarnar til framtíðar litið. Núverandi kerfi verði lagað að þeirri gagnrýni sem það hefur fengið og jafnframt gefinn kostur á að þróast.
Hver félagsmaður velur sér það aðildarfélag sem hann kýs að fari með aðild hans að Búnaðarsambandinu. Fjöldi aðalfundarfulltrúa hvers aðildarfélags ræðst af því hve margir hafa valið það sem sitt aðalfélag. Hver félagsmaður getur aðeins kosið aðalfundarfulltrúa í sínu aðalfélagi. Til viðbótar er kjörnir fulltrúar sem nemur 1/5 hluta þess fjölda sem kemur vegna félagaskrár og skiptist milli búgreinafélaga í hlutfalli af greiddu búnaðargjaldi hverrar búgreinar.

Tillögur laganefndar að lagabreytingum Búnaðarsambands Suðurlands ásamt greinargerðum (breytingar feitletraðar):

1.gr.
Búnaðarsamband Suðurlands er samband búnaðar- og búgreinafélaga sem starfa að einhverju eða öllu leyti í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu. Það er aðili að Bændasamtökum Íslands. Heimili og varnarþing þess er á Selfossi.
Nái starfssvæði aðildarfélags inn á starfssvæði annars búnaðarsambands skal leitað eftir samstarfssamningi við það.

Greinargerð v/1.gr.
Suðurlandskjördæmi er orðið Suðurkjördæmi og tekur nú til mun stærra svæðis.

2.gr.
Aðild að Búnaðarsambandinu geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar, sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í búnaðar- eða búgreinafélagi, sbr.1. gr
Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annara. Undir búrekstur fellur hverskonar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum:
Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla, úrvinnsla og þjónusta.
Einstaklingar sem félagar eru í fleiri en einu aðildarfélagi skulu tilnefna eitt þeirra sem sitt höfuðfélag, sem þar með ber ábyrgð á þátttöku þeirra. Samkvæmt því skal Búnaðarsambandið halda skrá yfir aðildarfélög sín og samræmda félagaskrá yfir alla félagsmenn þeirra. Sú félagaskrá er jafnframt félagaskrá Búnaðarsambandsins.

Greinargerð v/2.gr.
Aðilar að Bssl geta verið í fleiru en einu félagi búnaðarfélagi eða búgreinafélagi, en verða að nefna eitt félag sem sitt höfuðfélag til þess að hafa kosningarétt á aðlafund Bssl.
Tillaga að vinnuaðferð við gerð félagaskrár:

  • Bssl. Sendir út kort til félagsmanna sinna með valkostum um hvaða búnaðar-eða búgreinafélag hver félagi velur sem sitt aðalfélag.
  • Í félagi þar sem félagsmaður er aðalfélagi velur hann sér fulltrúa á aðalfund Bssl.
  • Ef svar berst ekki til Bssl. um staðfestingu félagsmans í aðalfélag er heimilt að skrá félagsmann sem aðalfélaga í það félag þar sem hann greiðir félagsgjald til Bssl. nú.
  • Bssl. sendir aðildarfélögunum skrána úr þessari könnun og ber aðildarfélöglunum að halda utan um þá félagaskrá, innheimta og standa skil á félagsgjöldum Bssl.

5.gr.
Heimilt er Búnaðarsambandinu að innheimta árgjald af félögum. Skal þá hvert aðildarfélag standa skil á greiðslu þess í samræmi við fyrirliggjandi félagaskrá samkv. 2.gr. Árgjald Búnaðarsambandsins er ákveðið á aðalfundi sambandsins hverju sinni fyrir næsta ár. Gjöldum þessum skal skilað fyrir 1. desember ár hvert ásamt félagatali.
Reikningsár Búnaðarsambandsins er almanaksárið.

7.gr.
Aðalfundur Búnaðarsambandsins skal haldinn árlega, eigi síðar en í júní-mánuði. Skal boða til hans með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.
Á aðalfundi eiga sæti kjörnir fulltrúar félaga sem aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands hefur samþykkt sem aðildarfélög.
Hvert aðildarfélag á rétt á fulltrúum í samræmi við gildandi félagaskrá samkv. 2.gr. sem hér segir:
Þar sem félagatala er 4 eða færri engan fulltrúa.
Þar sem félagatala er 5 – 60, einn fulltrúa.
Þar sem félagatala er 61-120, tvo fulltrúa.
Þar sem félagatala er 121-180, þrjá fulltrúa.
Þar sem félagatala er 181-240, fjóra fulltrúa, o.s.frv.

Þessu til viðbótar skulu kjörnir fulltrúar sem samsvarar 1/5 hluta þeirrar fulltrúatölu sem að framan greinir og skiptast í hlutfalli greidds búnaðargjalds hverrar greinar milli viðkomandi búgreinafélaga. Tilkynna skal búgreinafélögunum fulltrúafjölda þeirra skv. búnaðargjaldi í upphafi hvers árs.

Aukafulltrúafund skal halda ef meirihluti stjórnar eða einn þriðji hluti kjörinna fulltrúa krefst þess. Auk kjörinna fulltrúa eiga stjórn sambandsins og ráðunautar þess málfrelsi og tillögurétt, svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar. Þó skal enginn fara með nema eitt atkvæði.
Aðalfundur er lögmætur ef helmingur kjörinna fulltrúa er mættur ásamt meirihluta stjórnar sambandsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi til þess að lagabreytingar hljóti löglega afgreiðslu, enda hafi tillaga að lagabreytingu verið send út með fundarboði.

Sigurður telur að samþykktir samtaka þurfa að vera í sífelldri endurskoðun í takt við breytta tíma. Þessar lagabreytingar munu að líkindum auka félagsvitund bænda og gefa kerfinu kost á að þróast í átt að meiri einföldun og skilvirkni.
Lagabreytingartillögu laganefndar vísað til félagsmálanefndar.

10.Tillögur lagðar fram og kynntar.
Þorfinnur Þórarinsson:
Tillaga frá stjórn Bssl; um vegamál. Vísað til allsherjarnefndar.

Sigurður Loftsson:
Tillaga frá Félagi kúabænda á Suðurlandi; um hversu hægt vinnu við undirbúning nýs búvörusamnings í mjólk miðar og þeirri óvissu sem greinin býr við um þessar mundir. Vísað til allsherjarnefndar.

Gunnar Eiríksson:
Áskorun á rannsóknaraðila landbúnaðarins að efla rannsóknir á tilbúnum áburði og búfjáráburði.Vísað til allsherjanefndar.

Daníel Magnússon:
Tillaga um breytingar á lögum Bssl þannig að heiðursfélagar aðildarfélags verði gjaldfríir til Bssl. Vísað til félagsmálanefndar.

Tillaga um skipun nefndar sem fer yfir og skoðar frumvarp ábúðarlaga og frumvarp að jarðalögum. Vísað til félagsmálanefndar.

Egill Sigurðsson:
Tillaga um höfnun á þeim hugmyndum sem fram hafa komið um útdeilingu á 7.500 ærgildum sauðfjárgreiðslumarks.Vísað til allsherjarnefndar.

11.Umræður.
Guðrún Stefánsdóttir Hlíðarendakoti: Ræddi um tillögu laganefndar, er ósátt með að taka búnaðargjaldið til hliðsjónar við fjölda fulltrúa á aðalfund.

Sveinn Sigurmundsson skipaði í nefndir: Allsherjarnefnd, formaður Birna Þorsteinsdóttir. Fjárhags-/launanefnd, formaður Guðgeir Sumarliðason. Félagsmálanefnd, formaður Þórir Jónsson.

12.Nefndir hefja störf.

13.Kaffihlé.

14.Verðlaun fyrir besta nautið í árgangi nauta fæddum 1996.
Ari Teitsson afhenti verðlaunin Guðmundi Ó. Helgasyni í Lambhaga, Rangárþingi Ytra. Nautið Hófur 96027 frá Lambhaga á Rangárvöllum hlaut þau. Hófur er undan Þræði 86013 frá Stóra-Ármóti og Skeifu 209 frá Þorvaldseyri. Hófur er með 115 í kynbótaeinkunn.

15.Kosningar.
Kosið er um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Rangárvallasýslu, auk löggilts endurskoðanda.
Kosning tveggja manna í aðalstjórn Búnaðarsambandsins
Réttkjörnir: Egill Sigurðsson 41 atkvæði og Eggert Pálsson 36 atkvæði. 

Kosning tveggja manna í varastjórn Búnaðarsambandsins
Ragnar Lárusson 35 atkvæði og Ólafur Eggertsson 32 atkvæði. 

Kosning löggilts endurskoðanda. Tillaga um Arnór Eggertsson, engar athugasemdir og var hann því réttkjörin.

16.Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningarnir samþykktir samhljóða

17.Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður, afgreiðsla.
Birna Þorsteinsdóttir mælti fyrir tillögum allsherjarnefndar: 

Tillaga 1 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, skorar á rannsóknaraðila landbúnaðarins að efla rannsóknir á tilbúnum áburði og búfjáráburði. Rannsóknirnar leitist við að svara eftirfarandi spurningum:  

  1. Hve miklu máli skiptir hár vatnsleysanleiki fosfóráburðar við íslenskar aðstæður? Er hár vatnsleysanleiki hið eina rétta eða er sítratleysanlegur áburður sambærilegur?
  2. Er einkorna áburður betri en fjölkorna áburður og ef svo er, hve mikið betri?
  3. Hvað má reikna með að nýtist af næringarefnum úr hverju tonni búfjáráburðar eftir tegundum búfjár?

Greinargerð:
Á allra síðustu árum hefur komið til samkeppni á áburðarsölumarkaði í kjölfar afnáms einkasöluleyfis Áburðarverksmiðjunnar. Samkeppnin hefur á stundum verið hörð og fullyrðingum varpað fram sem ekki eru studdar nægilega vísindalegum rökum út frá aðstæðum hér á landi. Bændur og ráðgjafar hafa því ekki nægar rannsóknir til að styðja sig við til að meta réttmæti fullyrðinga sölumanna áburðar.
Búfjáráburður er mikilvægur áburðargjafi og getur sparað bændum umtalsvert fé við áburðarkaup. Núverandi nýtingartölur eru orðnar mjög gamlar og byggja á rannsóknum sem gerðar voru á fyrri hluta síðustu aldar. Í ljósi mikilla breytinga á áburðargjöf, heyverkun og fóðrun búfjár er full ástæða til að endurnýja þessar tölur sem miða við núverandi aðstæður.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 2 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, telur tímabært að gerð sé áætlun um það stórverkefni í vegagerð að ljúka endurbyggingu vegakerfis sveitanna með bundnu slitlagi, þannig að fyrir tiltekinn tíma liggi nútímavegur að hverju byggðu býli á Suðurlandi.

Greinargerð:
Að undanförnu hefur verið efnt til ýmissa stórverkefna í vegagerð. Má þar nefna bæði nýja vegi og jarðgöng milli byggðarlaga. Hér er vakin athygli á því að líta verður á endurbyggingu vegakerfis dreifbýlisins sem eitt af stórverkefnum í vegagerð.
Um 30 ár eru síðan vegurinn yfir Hellisheiði var lagður bundnu slitlagi. Mikið hefur áunnist í vegamálum síðan. Innan næstu 15 ára ætti að vera lagður vegur með bundnu slitlagi heim í hlað á hverjum bæ á svæðinu.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 3 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, lýsir áhyggjum sínum yfir því hversu hægt miðar vinnu við undirbúning nýs búvörusamnings í mjólk og þeirri óvissu sem greinin býr þar af leiðandi við um þessar mundir. Jafnframt bendir fundurinn á mikilvægi þess að afnámi opinberrar verðlagningar mjólkur á heildsölustigi verði ekki hrint í framkvæmd nema réttarstaða mjólkuriðnaðarins í því efni verði skýrð. Fundurinn minnir í þessu sambandi á mikilvægi greinarinnar fyrir atvinnulíf svæðisins.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 4 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, skorar á stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að athuga hvort í gangi séu tilraunir með eldi á sláturlömbum með tilliti til fitusöfnunar og ef svo er ekki þá að beita sér fyrir slíkum tilraunum.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 5 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25.apríl 2003 að Heimalandi, skorar á landbúnaðarráðherra að hafna framkomnum tillögum Byggðastofnunar við útdeilingu á þeim 7.500 ærgildum samkvæmt samningi um sauðfjárframleiðslu. Fundurinn krefst þess að bændur njóti sömu réttinda hvar sem þeir búa á landinu.

Greinargerð:
Á starfssvæði Bssl. er aðeins austurhluti Vestur-Skaftafellssýslu skilgreindur sem jaðarsvæði atvinnulega séð. Fundurinn bendir á að mörg önnur svæði á starfssvæði Bssl. ætti að skilgreina á sama hátt og fella þar með undir skilyrði til úthlutunar.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 6 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, skorar á Vegagerðina og Samgönguráðuneytið að sjá til þess að ristarhliðum og gönguhliðum við þau sé vel við haldið svo og veggirðingum í sveitum. Þannig að umferð valdi síður hættu fyrir vegfarendur og búfé. Einnig skorar fundurinn á Vegagerðina að gera átak í gerð undirganga undir vegi.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 7 allsherjarnefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25.apríl 2003 að Heimalandi, lítur mjög alvarlegum augum á þróun kjötmarkaðar á Íslandi. Þar sem framleiðendur hafa ekki lagað sína framleiðslu að aðstæðum á markaði þó full þörf hafi verið á. Þetta hefur haft áhrif á kjötmarkaðinn allan. Fundurinn hvetur kröfueigendur og lánardrottna þeirra stórframleiðenda sem nú eru í nauðasamningum til að hvika hvergi frá sínum kröfum svo eðlilegt markaðsumhverfi geti komist sem fyrst á og að hlutaðeigandi beri sjálfir ábyrgð á sínum skuldbindingum.
Samþykkt samhljóða.

Guðgeir Sumarliðason mælti fyrir tillögum fjárhags-/launanefndar:

Tillaga 1 fjárhags-/launanefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, samþykkir óbreytt árgjald til Bssl. alls kr 1.000,- á félagsmann.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 2 fjárhags-/launanefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, samþykkir fjárhagsáætlun Kynbótastöðvar Suðurlands og þar með óbreytt sæðingagjöld á komandi starfsári.

Sveinn Sigurmundsson útskýrði fjárhagsáætlun.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga 3 fjárhags-/launanefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, leggur til að fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2003 verði samþykkt.
Sveinn Sigurmundsson útskýrði fjárhagsáætlunina.

Samþykkt samhljóða.

 

Tillaga 4 frá fjárhags-/launanefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi samþykkir að hækka laun stjórnar um 5% og tengja þau við launavísitölu. Uppreikningur verði miðaður við 1.apríl ár hvert.
Samþykkt samhljóða.

Þórir Jónsson mælti fyrir tillögu 1 og 2 í félagsmálanefnd, fyrir lagabreytingartillögu 1gr., 2.gr., 5.gr. að lagabreytingum Búnaðarsambands Suðurlands og fyrir tillögu minnihluta félagsmálanefndar 7.gr. að lagabreytingum Búnaðarsambands Suðurlands. Félagsmálanefnd klofnaði þegar rætt var um tillögu laganefndar á 7.gr og mælti Guðrún Stefánsdóttir fyrir breytingartillögu meirihluta félagsmálanefndar að 7.gr.

Tillaga 1 félagsmálanefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, samþykkir breytingar á lögum Bssl, þannig að heiðursfélagar aðildarfélaga verði gjaldfríir til Búnaðarsambandsins.

Tillagan var rædd, Guðgeir Sumarliðason taldi að gera þyrfti sér grein fyrir hver kosningaréttur heiðursfélaga er ef þeir borga ekki félagsgjald. Daníel Jónsson vill að kannaður verði réttur heiðursfélaga áður en lengra er haldið.

Tillögunni var vísað frá.

Tillaga 2 félagsmálanefnd:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn þann 25. apríl 2003 að Heimalandi, samþykkir skipun nefndar sem fer yfir og skoðar frumvarp til ábúðarlaga (Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002-2003) og frumvarp til jarðalaga (lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002-2003).

Tillagan var rædd. Eggert Pálsson segir að búið sé að skipa nefnd hjá BÍ til að fara yfir þessi mál.

Vísað til stjórnar.

Lagabreytingar Búnaðarsambands Suðurlands:

1.gr.
Búnaðarsamband Suðurlands er samband búnaðar- og búgreinafélaga sem starfa að einhverju eða öllu leyti í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu. Það er aðili að Bændasamtökum Íslands. Heimili og varnarþing þess er á Selfossi.
Nái starfssvæði aðildarfélags inn á starfssvæði annars búnaðarsambands skal leitað eftir samstarfssamningi við það.
Fyrsta grein samþykkt með 38 atkvæðum.

2.gr.
Aðild að Búnaðarsambandinu geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar, sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í búnaðar- eða búgreinafélagi, sbr.1. gr
Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hverskonar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum:
Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla, úrvinnsla og þjónusta.
Einstaklingar sem félagar eru í fleiri en einu aðildarfélagi skulu tilnefna eitt þeirra sem sitt aðalfélag, sem þar með ber ábyrgð á aðild þeirra. Samkvæmt því skal Búnaðarsambandið halda skrá yfir aðildarfélög sín og samræmda félagaskrá yfir alla félagsmenn þeirra. Sú félagaskrá er jafnframt félagaskrá Búnaðarsambandsins.
Önnur grein samþykkt með 40 atkvæðum.

5.gr.
Heimilt er Búnaðarsambandinu að innheimta árgjald af félögum. Skal þá hvert aðildarfélag standa skil á greiðslu þess í samræmi við fyrirliggjandi félagaskrá samkv. 2.gr.
Árgjald Búnaðarsambandsins er ákveðið á aðalfundi sambandsins hverju sinni fyrir næsta ár. Gjöldum þessum skal skilað fyrir 1. desember ár hvert ásamt félagatali.
Reikningssár Búnaðarsambandsins er almanaksárið.
Fimmta grein samþykkt með 41 atkvæði.

Þórir Jónsson bar upp álit minnihluta félagsmálanefndar um 7.gr. að lagabreytingum Búnaðarsamband Suðurlands:

7. gr.
Aðalfundur Búnaðarsambandsins skal haldinn árlega, eigi síðar en í júní-mánuði. Skal boða til hans með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.
Á aðalfundi eiga sæti kjörnir fulltrúar félaga sem aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands hefur samþykkt sem aðildarfélög.
Hvert aðildarfélag á rétt á fulltrúum í samræmi við gildandi félagaskrá samkv. 2.gr.
sem hér segir:
Þar sem félagatala er 4 eða færri engan fulltrúa.
Þar sem félagatala er 5-60, einn fulltrúa.
Þar sem félagatala er 61-120, tvo fulltrúa.
Þar sem félagatala er 121-180, þrjá fulltrúa.
Þar sem félagatala er 181-240, fjóra fulltrúa, o.s.frv.
Þessu til viðbótar skulu kjörnir fulltrúar sem samsvarar 1/5 hluta þeirrar fulltrúatölu sem að framan greinir og skiptast í hlutfalli greidds búnaðargjalds til Bssl. hverrar greinar milli viðkomandi búgreinafélaga. Tilkynna skal búgreinafélögunum fulltrúafjölda þeirra skv. búnaðargjaldi í upphafi hvers árs.

Aukafulltrúafund skal halda ef meirihluti stjórnar eða einn þriðji hluti kjörinna fulltrúa krefst þess. Auk kjörinna fulltrúa eiga stjórn sambandsins og ráðunautar þess málfrelsi og tillögurétt, svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar. Þó skal enginn fara með nema eitt atkvæði.
Aðalfundur er lögmætur ef helmingur kjörinna fulltrúa er mættur ásamt meirihluta stjórnar sambandsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi til þess að lagabreytingar hljóti löglega afgreiðslu, enda hafi tillaga að lagabreytingu verið send út með fundarboði.

Guðrún Stefánsdóttir bar upp breytingartillögu meirihluta félagsmálanefndar um 7.gr. að lagabreytingum Búnaðarsambands Suðurlands:

7. gr.
Aðalfundur Búnaðarsambandsins skal haldinn árlega, eigi síðar en í júnímánuði. Skal boða til hans með minnst hálfsmánaðar fyrirvara. Á aðalfundi eiga sæti kjörnir fulltrúar félaga sem aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands hefur samþykkt sem aðildarfélög. Hvert aðildarfélag á rétt á fulltrúum í samræmi við gildandi félagaskrá samkv. 2.gr.
sem hér segir:
Þar sem félagatala er 4 eða færri engan fulltrúa.
Þar sem félagatala er 5-60, einn fulltrúa.
Þar sem félagatala er 61-120, tvo fulltrúa.
Þar sem félagatala er 121-180, þrjá fulltrúa.
Þar sem félagatala er 181-240, fjóra fulltrúa, o.s.frv.

Aukafulltrúafund skal halda ef meirihluti stjórnar eða einn þriðji hluti kjörinna fulltrúa krefst þess. Auk kjörinna fulltrúa eiga stjórn sambandsins og ráðunautar þess málfrelsi og tillögurétt, svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar. Þó skal enginn fara með nema eitt atkvæði.
Aðalfundur er lögmætur ef helmingur kjörinna fulltrúa er mættur ásamt meirihluta stjórnar sambandsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi til þess að lagabreytingar hljóti löglega afgreiðslu, enda hafi tillaga að lagabreytingu verið send út með fundarboði.

Tillaga laganefndar og breytingartillaga meirihluta félagsmálanefndar voru ræddar:

Sigurður Loftsson: Útskýrði enn frekar tillögu laganefndar um breytingar á lögum Bssl.
Birna Þorsteinsdóttir: Kvartaði yfir vinnubrögðum á fundinum, að ekki væri nokkur leið fyrir fundarmenn að átta sig á lagabreytingartillögunum þar sem þeir hafi þær ekki á borðunum fyrir framan sig. Sagðist treysta Sigurði Loftssyni vel fyrir þessu máli. Guðmundur Lárusson: Ræddi um þessar lagabreytingatillögur og gerði jafnframt að umtalsefni hversu litlar umræður hafi verið á fundinum.
Ragnar Lárusson: Sagði að í sitjandi laganefnd væru allir kúabændur. Hann sagðist styðja breytingartillögu 7.gr.
Helgi Jóhannesson: Styður tillögu laganefndar og telur hann að ef félagasamtök og samtök bænda leyfi búgreinafélögum ekki að starfa geri það þeim erfitt fyrir.
Guðrún Stefánsdóttir: Vill meina að peningarnir og peningavaldið vilji stjórna Búnaðarsambandinu og að tillaga laganefndar sé eitt skref í þá átt.
Gunnar Eiríksson: Vonaðist til að þetta væri leið sem menn gætu sæst á. Styður tillögu laganefndar.
Eggert Pálsson: Telur að laganefnd hafi unnið mikið og gott starf og lagt mikla vinnu af hendi. Telur að það þurfi að skoða vel niðurlag 7. gr. Vonast í framtíðinni til að búnaðargjald muni lækka.
Jón Guðmundsson: Ræddi um tillögurnar og telur að menn þurfi að standa saman.
Þórir Jónsson: Taldi að verið væri að gera því skóna að kúabændur séu að reyna að ná sínum hagsmunum fram með tillögum laganefndar þar sem einungis voru kúabændur í laganefnd, en hann benti á það hvers vegna ekki var gerð krafa um það á síðasta aðalfundi að fá aðra inn í laganefnd. Þórir telur að ekki sé verið að hygla ákveðinni grein með þessum tillögum heldur miðla vægi félaganna inn á aðalfund.
Sveinn Sigurmundsson útskýrði hvernig fjöldi fulltrúa myndi breytast.

Breytingartillaga á 7.grein var felld með 23 atkvæðum gegn 17.

Tillaga laganefndar á 7.grein var felld, 25 atkvæði með en 18 á móti (58%)-þurfti aukinn meirihluta (2/3) til að fá brautargengi.

Því er 7.gr. í lögum Búnaðarsamband Suðurlands óbreytt.

Lög Búnaðarsambands Suðurlands voru borin upp í heild sinni með áorðnum breytingum á 1.gr., 2.gr., og 5.gr. og voru þau samþykkt með 26 atkvæðum en 12 voru á móti.

Lög Búnaðarsambands Suðurlands eftir afgreiðslu aðalfundar 2003
Breytingar eru feitletraðar:

1.gr.
Búnaðarsamband Suðurlands er samband búnaðar- og búgreinafélaga sem starfa að einhverju eða öllu leyti í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu. Það er aðili að Bændasamtökum Íslands. Heimili og varnarþing þess er á Selfossi.
Nái starfssvæði aðildarfélags inn á starfssvæði annars búnaðarsambands skal leitað eftir samstarfssamningi við það.

2.gr.
Aðild að Búnaðarsambandinu geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar, sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í búnaðar- eða búgreinafélagi, sbr.1. gr
Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hverskonar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum:
Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla, úrvinnsla og þjónusta.
Einstaklingar sem félagar eru í fleiri en einu aðildarfélagi skulu tilnefna eitt þeirra sem sitt aðalfélag, sem þar með ber ábyrgð á aðild þeirra. Samkvæmt því skal Búnaðarsambandið halda skrá yfir aðildarfélög sín og samræmda félagaskrá yfir alla félagsmenn þeirra. Sú félagaskrá er jafnframt félagaskrá Búnaðarsambandsins.

3. gr.
Tilgangur sambandsins er að efla hvers konar framfarir í landbúnaði, gæta hagsmuna og auka hagsæld þeirra sem landbúnað stunda.
Að framfylgja á hverjum tíma gildandi löggjöf um íslenskan landbúnað í samstarfi við þá aðila sem annast framkvæmd slíkra laga.

4. gr.
Búnaðarsambandið mun leitast við að ná tilgangi sínum með því að:
a) Hafa í þjónustu sambandsins sem best menntaða leiðbeinendur, sem veiti faglega aðstoð í sem flestum greinum landbúnaðarins.
b) Efla hverskonar félagsmálastarfsemi í héraðinu sem vinnur að framförum í landbúnaði.
c) Gefa út ársrit og annast aðra útgáfustarfsemi til fróðleiks og framfara eftir því sem aðstæður leyfa á hverjum tíma.
d) Búnaðarsambandinu ber að sjá um kosningu til Búnaðarþings samkvæmt samþykktum Bændasamtaka Íslands.

5.gr.
Heimilt er Búnaðarsambandinu að innheimta árgjald af félögum. Skal þá hvert aðildarfélag standa skil á greiðslu þess í samræmi við fyrirliggjandi félagaskrá samkv. 2.gr. Árgjald Búnaðarsambandsins er ákveðið á aðalfundi sambandsins hverju sinni fyrir næsta ár. Gjöldum þessum skal skilað fyrir 1. desember ár hvert ásamt félagatali.
Reikningssár Búnaðarsambandsins er almanaksárið.

6. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins skal skipuð fimm mönnum. Formaður, varaformaður, ritari og tveir meðstjórnendur. Kosnir skulu jafnmargir til vara. Stjórn og varastjórn skal þannig skipuð: Úr Vestur-Skaftafellssýslu einn stjórnarmaður, úr Rangárvallasýslu tveir og úr Árnessýslu tveir. Stjórnarmenn og varamenn þeirra skulu kosnir til þriggja ára, þannig að Árnesingar skulu kosnir eitt árið, Rangæingar annað árið og Vestur-Skaftfellingar hið þriðja.
Löggiltur endurskoðandi skal kosinn árlega. Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til tveggja ára í senn og tveir til vara. Skoðunarmaður reikninga skal eigi starfa lengur en sex ár í senn.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Hún ræður framkvæmdastjóra, er sér um daglegan rekstur sambandsins, reikningshald og ráðningu starfsfólks í samráði við stjórn sambandsins.

7.gr.
Aðalfundur Búnaðarsambandsins skal haldinn árlega, eigi síðar en í júní-mánuði. Skal boða til hans með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.
Á aðalfundi eiga sæti kjörnir fulltrúar félaga sem aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands hefur samþykkt sem aðildarfélög.
Hvert aðildarfélag á rétt á fulltrúum sem hér segir:
Þar sem félagatala er allt að 60, einn fulltrúa.
Þar sem félagatala er 61-120, tvo fulltrúa.
Þar sem félagatala er 121-180, þrjá fulltrúa.
Þar sem félagatala er 181-240, fjóra fulltrúa, o.s.frv.

Aukafulltrúafund skal halda ef meirihluti stjórnar eða einn þriðji hluti kjörinna fulltrúa krefst þess. Auk kjörinna fulltrúa eiga stjórn sambandsins og ráðunautar þess málfrelsi og tillögurétt, svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar. Þó skal enginn fara með nema eitt atkvæði.
Aðalfundur er lögmætur ef helmingur kjörinna fulltrúa er mættur ásamt meirihluta stjórnar sambandsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi til þess að lagabreytingar hljóti löglega afgreiðslu, enda hafi tillaga að lagabreytingu verið send út með fundarboði.

8. gr.
Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram til umræðu og afgreiðslu:
1. Endurskoðaða reikninga sambandsins fyrir undanfarið ár, ásamt félagaskrá skv. 2. gr.
2. Skýrslu um starfsemi sambandsins undanfarið ár.
3. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi reikningsár.
4. Kjósa trúnaðarmenn samkvæmt 6. grein.

9. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins er heimilt að kjósa heiðursfélaga. Hvorki aðalfundur né aðrir opnir fundir eru ályktunarfærir um kjör heiðursfélaga. Fjölda heiðursfélaga skal stilla mjög í hóf. Við kjör heiðursfélaga skal afhenda heiðursskjal undirritað af stjórnarmönnum sambandsins. Heiðursfélögum skal boðið að taka þátt í öllum hátíðarfundum sambandsins. Þeir skulu einnig boðaðir á aðalfund sambandsins og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

10. gr.
Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt af aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands, undirrituð af stjórn og staðfest af Bændasamtökum Íslands.

Samþykkt á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands að Heimalandi 25. apríl 2003.


18.Kynning á Búnaðarþingsfulltrúum. Þorfinnur Þórarinsson

Auglýst var eftir framboðum, fram kom einn listi. Bssl. á rétt á 7 fulltrúum og því eru 14 nöfn á listanum.
Listinn er þannig skipaður:
1. Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð
2. Egill Sigurðsson, Berustöðum
3. Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti
4. Guðni Einarsson, Þórisholti
5. Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
6. Helga Jónsdóttir, Þykkabæ í Skaftárhreppi
7. Jóhannes Sveinbjörnsson, Heiðarbæ
8. Ágúst Rúnarsson, Vestra Fíflholti
9. Helgi Eggertsson, Kjarri
10. Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri
11. Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti
12. Ólafur Eggertsson, Þorvaldseyri
13. Guðbjörg Jónsdóttir, Læk
14. Kristinn Guðnason, Árbæjarhjáleigu
Rétt kjörnir fulltrúar til Búnaðarþings.

19.Önnur mál.
Sigurlaug Leifsdóttir: Minnti á aðalfund Suðurlandsdeildar Mjólkurfélags Reykjavíkur, hvetur menn til að mæta.

20.Fundarslit.
Þorfinnur Þórarinsson, telur menn vera orðna þreytta á fundarsetunni. Ekki miklar umræður um starfsemina, stjórnarmenn sakna þess að ekki skuli vera umræður um starfið. Lítur ekki á það að mönnum sé sama heldur að menn séu sæmilega sáttir með starfsemina. Vill auka kraftinn í rekstrarleiðbeiningum og jarðræktarleiðbeiningum. Á síðasta ári var Páll Lýðsson ráðinn til að safna efni um sögu Bssl. í tilefni 100 ára afmælis sambandsins 2008. Þarf að skipa afmælisnefnd. Þorfinnur sagði Lagabreytingar jafnan hafa verið erfiðar og þegar væri búið að eyða miklum tíma í þær, þetta veikti starfið en hefði vonandi ekki truflandi áhrif til framtíðar. Þorfinnur sagði vafasamt að eyða stórum hluta aðalfundar í lagabreytingar ár eftir ár. Fundarstjóra þökkuð störf og fundi slitið.

Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir
Pétur Halldórsson,
fundarritarar

back to top