Tilgangur gæðastýringar í sauðfjárrækt

Tilgangur gæðastýringar í sauðfjárrækt


Tilgangur gæðastýringar í sauðfjárrækt, sem kveðið er á um í samningi bænda og ríkisvaldsins frá 5. mars 2000 og lýst er í grófum dráttum í fylgiskjali með samningnum, er í aðalatriðum tvíþættur:
* að bæta sauðfjárbúskap og treysta afkomu sauðfjárbænda
* að tryggja neytendum öruggari vörur .


Megininntakið í þeirri hugsun sem gæðastýring grundvallast á er; ,,að búa betur”. Til þess að búa betur og skerpa þá hugsun sem beita þarf, er skynsamlegt að búa sér til viðmið. Ein leið og sú sem oftast er farin er að skrá hjá sér mikilvægar upplýsingar um það sem gert er og meta á grundvelli þeirra hvernig til hefur tekist og setja sér þá ný, – endurskoðuð markmið að keppa að og ná þannig enn lengra.


Í rauninni getur gæðastýring leitt af sér fjölþættan ávinning fyrir þátttakendurna. Grunnur hennar er að byggja upp fyrirkomulag og starfshætti í búskapnum sem veita yfirsýn og auðvelda stjórnun. Með betri yfirsýn yfir mikilvæga þætti í búrekstrinum getur bóndinn skapað sér betri afkomu, hvetjandi starfsumhverfi og aukna ánægju í starfi.


Til viðbótar má með réttu halda því fram, að með þeirri breytingu sem sauðfjársamningurinn felur í sér, – að færa hluta af núverandi beingreiðslum yfir í greiðslur út á gæðastýrða framleiðslu, sé í raun verið að færa áherslur yfir á gæðastýrða, rekjanlega dilkakjötsframleiðslu. Með því móti er augljóslega verið að koma til móts við óskir neytenda og opna leið til að tryggja þeim betri og öruggari matvöru. Hið opinbera er með öðrum orðum að fjárfesta í auknum gæðum.


Gæðahandbókin er lykillinn að starfinu. Hún geymir alla helstu efnisþætti verkefnisins, – s.s. lýsingu á framkvæmd og fagefni. Í henni er efnisflokkunum sem gæðastýringin fjallar um raðað upp á skipulegan og aðgengilegan hátt.


Við mótun verkefnisins hefur verið reynt að fylgja þeirri meginreglu að þær upplýsingar sem bóndanum er gert að skrá hafi skýran tilgang í ljósi þeirra markmiða sem að er stefnt. Til viðbótar getur bóndinn einnig skráð ýmsar ýtarlegri upplýsingar um sinn rekstur ef hann sjálfur kýs.


Í þeirri útgáfu gæðahandbókarinnar sem er birt á vef BÍ er sama efni og í gæðahandbókinni sem notað voru á gæðastýringarnámskeiðunum. Skylduskráningarblöðin fylgja hverjum kafla. Þau eru á excel-formi og geta bændur prentað þau út ef þeir þurfa. Viðbótar efni mun svo bætast við smátt og smátt.

back to top