Aðilaskipti að sauðfjárgreiðslumarki

Sauðfjárbændum er heimilt að flytja greiðslumark milli lögbýla. Aðilaskipti að greiðslumarki taka þó ekki gildi fyrr en staðfesting Bændasamtaka Íslands liggur fyrir.

Samkvæmt 2. grein reglugerðar nr. 19/2001 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum, beingreiðslur, uppkaupaálag og jöfnunargreiðslur 2001-2007 með síðari breytingum skal framsal greiðslumarks taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Nauðsynlegt er að tilkynna Bændasamtökunum aðilaskipti að greiðslumarkinu fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.

Tilkynna skal um aðilaskiptin á þar til gerðum eyðublöðum sem Bændasamtök Íslands láta í té. Hægt er að nálgast eyðublöðin hjá Bændasamtökunum, Búnaðarsamböndum eða á netinu með því að smella hér.

Með tilkynningunni til Bændasamtakanna þarf að fylgja veðbókarvottorð og þinglýst samþykki allra veðhafa fyrir sölunni. Einnig þarf að liggja fyrir eignarhald  seljanda á lögbýlinu en yfirleitt koma þær upplýsingar fram á veðbókarvottorðinu.

Fyrir seljandann þýðir þetta að hann þarf að fá veðbókarvottorð fyrir sína jörð og sækja síðan skriflega (með bréfi, faxi eða tölvupósti) um veðleyfi til allra þeirra sem hann skuldar með veði í jörðinni. Gott er að fylgja þessum skriflegu beiðnum eftir með símtali til að tryggt sé að beiðnin hafi verið móttekin.


Þegar veðleyfin hafa fengist send til baka þarf að fara með þau til sýslumanns, þinglýsa þeim og senda síðan þinglýst veðleyfin ásamt nýju veðbókarvottorði til Bændasamtakanna ásamt tilkynningunni. Athugið að þetta ferli tekur alltaf nokkra daga og því um að gera að hafa tímann fyrir sér og tryggja að ekkert veðleyfi vanti.

Auk þessa er ákaflega skynsamlegt að kaupandi og seljandi geri með sér skriflegan kaupsamning um verslun með greiðslumarkið. Hægt er að nálgast slíkan kaupsamning hjá Bændasamtökunum, Búnaðarsamböndunum eða hér á netinu. Kaupsamninginn skal gera a.m.k. í tvíriti þannig að kaupandi haldi einu eintaki og seljandi einu. Sé ætlunin að þinglýsa samningnum þarf að gera samninginn í fjórriti og eru þá tvö eintök færð sýslumanni til þinglýsingar, þar af skal annað eintakið vera gert á löggiltan skjalapappír.

Heimilt er að ljósrita áður gerðan kaupsamning yfir á löggiltan skjalapappír til þinglýsingar. Það er sér í lagi hagur kaupandans að samningnum sé þinglýst og því er það hans hlutverk sem og að borga fyrir þinglýsinguna. Þinglýsingarkostnaður er 1.350 kr. frá 1. janúar 2005.


Mælum við mjög með því að kaupendur þinglýsi þessum kaupsamningi sem fyrst eftir að viðskiptin hafa átt sér stað. Þinglýsing tryggir að samningurinn er geymdur á vísum stað og kemur í veg fyrir að vafaatriði geti komið upp síðar meir.

back to top