Niðurstöður skýrsluhaldsins




Nautgriparæktarstarf Búnaðarsambands Suðurlands stendur á gömlum og traustum grunni þar sem skýrsluhald nautgriparæktarfélaganna er þungamiðjan. Á árinu 2011 voru 214 bú í skýrsluhaldi af 247 kúabúum á Suðurlandi, eða 87% mjólkurframleiðenda. Fjöldi árskúa hefur síðustu tvö ár verið meiri  8.000 og er reyndar farinn að nálgast 9.000 að öllum líkindum vegna mikillar eftirspurnar eftir mjólk. Samfara fækkun skýrslubúa hafa þau stækkað og voru að meðaltali 41,4 árskýr/bú árið 2011.





Þátttaka í skýrsluhaldi hefur aukist mjög undanfarinn áratug og er nú 91,5% miðað við mjólkurmagn. Fyrir um 10 árum var þátttakan um 65%. Búum í skýrsluhaldi hefur fjölgað hlutfallslega auk þess sem þau hafa stækkað mun örar en þau sem utan þessa starfs standa. Meðalinnlegg á skýrslubúum var 216.518 kg á árinu 2011.





Undanfarna áratugi hefur kúabúum á Suðurlandi fækkað mjög. Árið 1976 var heildarfjöldi kúabúa á Suðurlandi 693. Um áramótin 2011/2012 hafði þeim fækkað niður í 247 eða um rúm 64%. Á þessum 36 árum hefur því kúabúum á Suðurlandi fækkað um 1,03 á mánuði til jafnaðar yfir tímabilið.
Á sama tíma hefur meðalbúið stækkað úr 53.400 lítrum upp í um 197 þús. lítra.
Ef svo fer sem horfir munu mjólkurframleiðendur á Suðurlandi verða innan við 200 árið 2020.






Afurðir eftir hverja kú hafa vaxið jöfnum höndum síðustu ár. Árið 2011 voru 5.506 kg mjólkur eftir hverja árskú en mestar hafa þær orðið 5.579 kg/árskú árið 2007. Afurðaaukning síðustu ára hefur verið örari en dæmi eru um áður. Þar til 1999 minnkaði hlutfallslegt efnainnihald mjólkur en þá snerist sú þróun við og fer efnainnihald vaxandi, sérstaklega hvað fituinnihald varðar. Afurðir í kg fitu og próteins hafa því aukist verulega en þó minna en í kg mjólkur.


back to top