Brynning á beitinni

Brynning á beitinni
Oddný Steina Valsdóttir
Jóhannes Hr. Símonarson


Eins og allir vita er þörfin fyrir vatn ein af frumþörfum búpenings. Mjólkurkýr eru þurftafrekar á vatn og þá sérstaklega þær nytháu. Nauðsynlegt er að mjólkurkýr hafi stöðugan aðgang að vatni en ef brestur er á því kemur það fljótt fram í lækkaðri nyt, auk þess sem hættan á ýmsum efnaskiptasjúkdómum eykst.









































Tafla 1. Vatnsþörf kúa í lítrum talið, m.v. nythæð og umhverfishitastig.
Hitastig °C

-17 til 10


11 til 20


21 til 25

Kýr, 10 kg dagsnyt

78


86


105

Kýr, 20 kg dagsnyt

88


98


119

Kýr, 30 kg dagsnyt

99


110


133

Kýr, 40 kg dagsnyt

109


121


147



Í beitarhólfum er nauðsynlegt að tryggja óheft aðgengi að rennandi vatni. Þar sem gott aðgegni er ekki til staðar frá náttúrunnar hendi bjóðast ýmsir valkostir brynningarkerfa. Við val á slíkum kerfum þarf að gæta þess að kýrnar geti stungið grönunum um 3-4 cm ofan í vatnið. Einnig þarf kerfið að afkasta nóg eða um 10-12 l á mínútu, að lágmarki 5-8 l/mínútu. Ef rennsli er of lítið nenna kýrnar ekki að bíða eftir vatninu og drekka ekki nægju sína. Jafnframt kemur það niður á vatnsneyslunni ef vatnsbólið er of fjarri beitinni. Kýr ættu ekki að þurfa lengra en um 7-800 metra eftir vatni, því styttra því betra. Ef um lengri veg er að fara sækja þær sjaldnar í vatnið og drekka minna en ella.
Sá brynningarútbúnaður sem líklega er hvað mest notaður í beitarhólfum eru vatnsker með flotholti eða brynningarskálar með þrýsitventli eða flotholti. Flotholt sem þessi má fá hjá mörgum söluaðilum og kosta vel innan við 10.000 krónur. Einnig þekkist og er mjög sniðugt að bændur noti veltikör úti í haganum líkt og notuð eru í legubásafjósum. Í öllu falli þarf að gæta þess að auðvelt sé að þrífa þau vatnskör sem verða fyrir valinu.
Oftar en ekki eru lagðar langar slöngur út í hagann að vatnskerunum. Varanlegri og hagstæðari lausn til lengri tíma litið er að plægja niður vatnslögn í þau hólf sem venja er að beita kúnum á. Plaströr fyrir slíkar vatnslagnir kosta á bilinu 30-40 kr. meterinn, með utanmál á bilinu 20-25 mm. Kostnaður við að láta plægja niður eða grafa fyrir vatnslögninni er mismunandi og veltur m.a. á jarðvegsgerð og aðstæðum hverju sinni.


Allt í allt er kostnaður við lagnir og ker hverfandi miðað við ávinninginn sem hlýst af góðri brynningu úti í haganum.

back to top