Merkingar ungkálfa við slátrun

Við slátrun ungkálfa sem ekki ná 30 daga aldri þarf að vera að rekja viðkomandi kálfa til mæðra þeirra þannig að ekki er nægjanlegt t.d. að gefa upp númer mæðra á blaði ef ekki er hægt að rekja viðkomandi númer þeirra til tiltekinna kálfa. Séu kálfarnir hins vegar aðgreindir t.d. með því að hengja spjald um háls þeirra með númeri móður telst það fullnægjandi. Einnig er það fullnægjandi að merkja kálfinn með númeri t.d. með spjaldi og að á blaði fylgi að t.d. kálfur nr. 1 sé undan kú nr. 100. Ekki er þörf á eða þess krafist að kálfar séu merktir forprentuðu einstaklingsmerki.
Við mælum því með við umráðamenn búfjár að viðhafa eftirfarandi verklag við slátrun ungkálfa:



  • Merkja kálfinn (kálfana) með númeruðu spjaldi, annað hvort raðnúmeri eða númeri móður.
  • Með kálfinum (kálfunum) fylgi blað með númeri, númeri móður og lit kálfsins ef spjaldið skyldi nú detta af eða skemmast.

Með þessu verklagi ætti vera tryggt að ákvæði reglugerðarinnar séu uppfyllt og kálfar verði raktir til viðkomandi móður.
Tekið skal fram að hér er verið að tala um kálfa sem fargað er innan við 30 daga aldur en allir gripir sem ná meira en 30 daga aldri skulu merktir forprentuðu einstaklingsmerki. Sama á við um alla gripi sem seldir eru milli búa, þeir skulu skilyrðislaust merktir fyrir flutning frá fæðingarbúi.

back to top