Hvernig losna skal við njóla

Njóli getur verið töluvert vandamál í ræktuðu landi þar sem hann getur breiðst tiltölulega hratt út og tekur pláss og næringarefni frá æskilegum nytjajurtum. Hann er einnig hvimleiður við bæjarhús og þykir lítil prýði af honum. Njóli er ákaflega lífseig jurt og reynist mörgum erfitt að losna við hann hafi hann einu sinni náð að breiðast út. Hér verða tínd til nokkur atriði sem e.t.v. geta hjálpað einhverjum í baráttunni við njólann.

Oftast nær njóli sér á strik í einstökum blettum og breiðist þaðan út. Taki menn eftir að njóli sé að hefja innreið sína ætti að bregðast við fyrr en seinna til að koma í veg fyrir stærra vandamál. Njóli fjölgar sér með fræjum og hver planta sem kemst upp ber gríðarlega mörg fræ. Höfuðáhersluna þarf því að leggja á að njólinn nái aldrei að bera fræ. Ef um fáar plöntur er að ræða má hugsa sér að reyna náttúruvæna leið og stinga upp ræturnar. Til að drepa njólann á þennan hátt þarf að skera á ræturnar nokkuð djúpt eða neðan við rótarhálsinn þar sem vaxtarbroddurinn er. Að slá njóla ítrekað áður en hann ber fræ eða reita hann upp með hluta róta er að vísu tímafrek aðferð en veikir smám saman rótarkerfið og drepur plöntuna að lokum. Þar sem njólinn hefur náð útbreiðslu kalla þessi ráð hins vegar á botnlausa vinnu sem varla er raunhæft að mæla með. Eitrun er því oft nauðsynleg. Sé ekki um þeim mun stærra svæði að ræða má notast við bakdælu en sum tilfelli kalla hugsanlega á stórvirkari úðunargræjur.

Við endurræktun túna sem njóli er í þarf að gæta að sér við jarðvinnsluna. Ef land er plægt síðari hluta sumars eða að hausti verður að fjarlægja/drepa njóla sem er í blóma. Að öðrum kosti getur jarðvinnslan orðið til þess að dreifa fræjunum. Sé plægt að vori þarf að plægja nokkuð djúpt til að farga þeim fræjum sem hugsanlega liggja á yfirborðinu og til að slíta rætur njólans neðan við rótarhálsinn.

Til að eyða útbreiddum njóla er nú mælt með efninu Harmony sem er sérhæft gegn njóla en verkar einnig á nokkrar aðrar tegundir tvíkímblaða illgresis s.s. á haug- og hjartaarfa, skriðsóley, baldursbrá og hlaðkollu. Við hagstæð skilyrði virkar það einnig á fleiri tegundir illgresis en áhrif á þistil, deplur og túnfífil eru takmörkuð. Harmony er kerfisvirkt eitur þ.e. það berst um sáldæðar plöntunnar og veldur ofvexti. Það hefur lítil jarðvegsáhrif. Illgresisplönturnar eru viðkvæmastar fyrir efninu þegar þær eru í örum vexti og hefur efnið mestu virknina þegar nægur raki er og hiti yfir 12°C. Rigni innan sex klst. frá úðun dregur verulega úr virkni efnisins og því er mælt með því að nota viðloðunarefni s.s. Agral í tankblöndun með Harmony. Einnig ætti að nota slíkt viðloðunarefni í öllum tilvikum þegar eyða á illgresi sem er tregvætanlegt, þ.e. með vaxkennt yfirborð.

Athygli er vakin á því að Harmony hefur engin áhrif á fræ njólans. Á þeim svæðum sem njóli hefur verið um nokkurn tíma og mikið magn af fræi í jörðinni má búast við að úða þurfi svæðið nokkrum sinnum áður en tekst að vinna sigur. Í öllum tilvikum eru það þá nýjar plöntur sem vaxa upp af fræi.

Harmony er svo kallað smáskammtaeitur og aðeins þarf um 10-20 grömm af efninu á hektara. Það fæst hjá Gróðurvörum í Reykjavík í 40 gramma pakkningum (duft) og kostar hver um sig um 10.000 krónur fyrir utan vsk. Á sama stað má kaupa viðloðunarefnið Agral eða sambærilegt efni. Harmony tilheyrir nú Hættuflokki B sem þýðir að allir fullorðnir geta keypt það en haft er eftirlit með sölu þess og því þurfa kaupendur að skrá nafn og kennitölu.

Ágætar leiðbeiningar varðandi umgengni við efnið og blöndunarhlutföll eru á umbúðum sem fylgja skal í hvívetna.

back to top