Vallarfoxgras

VALLARFOXGRAS (Phleum pratense)
Vallarfoxgras hefur verið aðalgrastegundin hérlendis við nýræktun í marga áratugi. Það finnst stundum villt hér á landi en þá nánast eingöngu sem slæðingur frá ræktarlandi. Erlendis vex vallarfoxgrasið villt um mikinn hluta Evrópu frá Miðjarðarhafi allt norður að 70. breiddarbaug. Frá Evrópu barst það til N.-Ameríku og þar er talið að ræktun þess hafi byrjað. Fræ af vallarfoxgrasi barst síðan til Evrópu og var tegundin þá kennd við helsta forkólf í þeirri sölu, Timothy Hansen og er hún enn kölluð timothy, timotei eða líkum nöfnum í flestum löndum.

Útlit:
Vallarfoxgras í geldvexti er stundum erfitt að greina frá háliðagrasi og língresi. Blöð þessarra tegunda eru lensulaga, en þó má styðjast við það einkenni að blöð vallarfoxgrassins snúa dálítið upp á sig en það gera blöð háliðagrass og língresis ekki.
Gervistrá vallarfoxgrassins er tiltölulega gilt, neðsti hlutinn er ljósleitur og gervistráið gildnar nokkuð niður. Vallarfoxgras í kynvexti er hávaxið, stráið er upprétt og 70–100 cm hátt. Eftir skrið er það auðþekkt á blómskipuninni sem er þéttur axpuntur. Hann er keflislaga og kallaður kólfur.
Helst væri hætta á að rugla vallarfoxgrasi saman við háliðagras, sem einnig er hávaxið og hefur áþekka blómskipun. Kólfur vallarfoxgrassins er sívlaur og allur nokkuð jafngildur og snarpur viðkomu vegna stuttra brodda. Á háliðagrasi er kólfurinn hins vegar nær því að vera keilulaga, mjókkar upp og er mjúkur viðkomu. Sé ax kólfsins skoðað gaumgæfilega má sjá að ax vallarfoxgrassins hefur tvo brodda (e.k. horn) en ax háliðagrassins hefur aðeins einn brodd. Yfirleitt nær vallarfoxgras ekki að setja fræ við íslenskar aðstæður, eiginleg blómgun verður yfirleitt ekki fyrr en seinni hluta ágúst.

Líffræði valarfoxgrass er í ýmsu frábrugðin líffræði annarra túngrasa. Hér skal vikið að þremur atriðum:

  1. Vallarfoxgras er strágras. Það þýðir að þegar ytri skilyrði eru til að kynvöxtur hefjist fara nánast allir sprotar í kynvöxt. Hjá öðrum tegundum gerist það hjá litlum hluta sprota, flestir halda áfram í geldvexti. Þetta þýðir að við slátt er nánast öll uppskera vallarfoxgrass kynsprotar; strá, blöð og blómskipan.
  2. Vallarfoxgras safnar forða til vetrarins í stöngulhnýði sem yfirleitt er kallaður laukur vegna þess að hnýðið er lauklaga. Forðanum er safnað í neðstu liði kynsprotanna (stráanna) sem tútna út við það. Stærð hnýðanna segir nokkuð um hve vel plantan hefur búið sig undir vetur. Stærst verða þau undir stráum sem ekki eru slegin eins og sjá má ofan í skurðum, við girðingar o.þ.h., allt að 5–7 cm í þvermál. Önnur túngrös safna forða í rótarhálsinn, nánast neðanjarðar.
  3. Vallarfoxgras þarf ekki að hafa lifað af kuldatímabil til að fara í kynvöxt. Það þurfa sprotar annarra túngrasa. Þetta þýðir að endurvöxtur vallarfoxgrass (há) getur farið í kynvöxt ef snemma er slegið. Af sömu ástæðu skríður vallarfoxgras oft af nýræktum, nokkuð sem aðrar tegundir gera ekki.

Jarðvegur:
Vallarfoxgras þrífst best á frjósömum, eilítið rökum moldarjarðvegi. Á framræstum mýrum og grýttum, rökum skriðujarðvegi getur það einnig gefið góða uppskeru. Blautur og súr jarðvegur hentar vallarfoxgrasi afar illa og við slíkar aðstæður endist það illa í túnum þó vel sé við það gert að öðru leyti. Vallarfoxgrasið endist yfirleitt nokkur ár í túnum hér á landi og í frjóum jarðvegi í góðviðrissveitum getur það enst lengi, jafnvel í áratugi.

Sláttur og beit:
Vallarfoxgrasið er talið þola beit illa og mikil beit flýtir fyrir dauða þess í túnum. Lítið beitarþol skýrist að nokkru leyti af því að flestir sprotar eru í kynvexti, beitardýr ná þá að bíta stöngulendann og lítið er af hliðarsprotum til að taka við. Þá er vaxtarlag þess þannig að það myndar gisnar þúfur sem dýr hafa greiðan aðgang að. Ekki bætir úr skák að tegundin er afar lostæt svo að flestar skepnur velja vallarfoxgras fremur öðrum tegundum. Ef gróður er blandaður eins og algengast er í túnum verður vallarfoxgrasið fyrir miklu meira álagi en aðrar tegundir og það minnkar samkeppnishæfni þess.

Stofnar:
Mikill fjöldi stofna er til af vallarfoxgrasi. Ekki hafa allir verið reyndir hér á landi enda flestir af suðrænum uppruna. Vallarfoxgras er bæði notað í hreinrækt og í blöndum með öðrum tegundum. Þúsund korna vigt er um 0,5 g. Sáðmagn er um 25 kg/ha í hreinrækt en algeng blanda fyrir kúabú er um 70% vallarfoxgras á móti 30% vallarsveifgras.
Þeir stofnar sem komið hafa vel út úr tilraunum hér á landi eru:

  • Engmo. Noskt yrki sem svipar mjög til Korpu.
  • Vega. Norskt uppskerumikið yrki sem hefur verið á yrkjalista RALA í nokkur ár. Það er uppskerumikð og gefur meiri endurvöxt en önnur yrki.
  • Grinstad. Noskt yrki sem hefur verið í tilraunum hér og vakið athygli fyrir mikla uppskeru. Vetrarþol er minna en á Öddu og ekki hægt að mæla með því nema á veðursælustu stöðum hér á landi. Athygli hefur vakið að lítill munur er á uppskeru og útliti grass af þessu yrki í fyrri og seinni slætti.

Uppskera:
Góðir stofnar af vallarfoxgrasi hafa jafnan reynst einhver uppskerumestu grösin í samanburðartilraunum hér á landi. Á tilraunastöðvunum er algengt að fá 60-90 hkg þurrefnis á hektara (6-9 tonn).
Vallarfoxgras er lostætt og eru skepnur mjög sólgnar í það, bæði á beit og sem hey. Vel verkað hey af vallarfoxgrasi sem slegið hefur verið um skrið er orkuríkt fóður og þarf ekki nema um 1,6-1,8 kg af því í hverja mjólkurfóðureiningu (Fem). Heyið er hins vegar fremur steinefnasnautt og þarf því að gæta að steinefnaþörf gripa sem fóðraðir eru á heyi af vallarfoxgrasi.
Meltanleiki vallarfoxgrass fellur tiltölulega hratt eftir skrið, hraðar en annarra grasa. Einnig verður hey af vallarfoxgrasi fljótt gróft eftir skrið. Þetta síðarnefnda kemur ekki svo mjög að sök fyrir stórgripi sem eru ávallt sólgnir í vallarfoxgras en fé vinnur fremur illa á úr sér sprottnu vallarfoxgrasi.

Heimildir:
Nytjajurtir. Kennsluefni við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Ýmsir höfundar. Samantekt efnis: Ríkharð Brynjólfsson
Upplýsingar um sáðvörur vorið 2003. Mjólkurfélag Reykjavíkur

back to top