SÓMI



Ráðgjöf til sauðfjárbænda

Búnaðarsamband Suðurlands fór af stað með átaksverkefni í sauðfjárrækt sumarið 2001 er hlaut nafnið Sómi. Markmið verkefnisins er að bæta rekstrarafkomu sauðfjárbúa og aðstoða bændur við að ná færni í skipulögðum vinnubrögðum við bústjórnina. Í verkefninu er jafnframt sett það markmið að með þátttöku nái bóndi að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu samkvæmt núgildandi sauðfjársamningi. Með Sóma er reynt að aðstoða sauðfjárbændur við að hafa gott yfirlit yfir rekstur á sínu búi og gera þeim auðveldara fyrir að taka framtíðarákvarðanir. Þau gögn sem nýtt eru við verkefnið eru þau sem þegar eru fyrir hendi, s.s. ársreikning búsins og  sauðfjárskýrsluhald. Farið er með gögn frá hverju búi sem trúnaðarmál.


Verklag:
• Bóndi og Búnaðarsamband Suðurlands gera í upphafi 3-5 ára skriflegan samning um að bóndinn láti af hendi öll gögn sem Búnaðarsambandið þarf til að leysa verkefnið og jafnframt um greiðslu fyrir þjónustuna. Samningurinn endurnýjast sjálfkrafa um eitt ár í senn nema honum sé sagt upp skriflega.
• Rekstrargreining. Er gerð árlega er byggir á bókhaldi búsins, þ.e. ársreikningi og sauðfjárskýrsluhaldi. Einkum er horft á tekjur og gjöld á hverja vetrarfóðraða kind og fundnir veikir og sterkir þættir í búrekstrinum. Samanburður er gerður á rekstri búsins milli ára og sett upp á myndrænan hátt. Með því móti er hægt að sjá hvert hver rekstrarþáttur stefnir.
• Rekstraráætlun. Að lokinni rekstrargreiningu er gerð rekstraráætlun til 5 ára sem tekur mið af framleiðslustöðu, rekstrarmarkmiðum, fyrirhuguðum framkvæmdum og fjárfestingum með hliðsjón af niðurstöðum rekstrargreiningarinnar. Áætlunin er endurnýjuð árlega og á því alltaf að gilda fyrir a.m.k. 5 næstu ár. Gott er að nota rekstraráætlunina til að sjá hvernig búreksturinn er í stakk búinn til að greiða af núverandi skuldum eða hvort og þá hvernig hann er í stakk búinn til að ráða við fyrirhugaða fjárfestingu. Gott er að nota rekstraráætlunina til þess að sjá hvernig búreksturinn breytist náist sett rekstrarmarkmið.


Aðgerðaráætlanir að eigin vali: Bóndinn getur valið um tvær aðgerðaráætlanir sem eru innifaldar í verkefninu og árgjaldi þess. Auk grunnþáttanna er innifalið í árgjaldinu 10 klst. vinna við tvær aðgerðaáætlanir í eftirfarandi fjórum flokkum.


 Bústjórn
o Fjárfesting/fjármögnun.
Farið í gerð kostnaðaráætlana, mat á fjárfestingakostum, endurgreiðslutími fjárfestinga ofl.
o Endurfjármögnun. Athugun á lánasamsetningu, ath möguleikar á uppgreiðslu/endurfjármögnunar á eldri og óhagstæðari lánum.
o Vinnuhagræðing. Ráðunautar aðstoða við endurskipulagningu í fjárhúsi, skoðaðar aðrar lausnir s.s breitt fóðrunartækni ofl.


• Jarðrækt
o Áburðaráætlun
sem byggir á hey- og jarðvegssýnum sem tiltæk eru auk upplýsinga frá bónda.
o Grænfóðuráætlun og leiðbeiningar um beit og beitarskipulag. Aðstæður á búinu skoðaðar, hvort æskilegt er að bata lömb á grænfóðri. Farið yfir beit og beitarskipulag, horft til hvort hægt er að auka fallþunga með nákvæmara beitarskipulagi.

• Búfjárrækt
o Fóðuráætlun. Markmið að auka frjósemi og heilsufar fjárins sem leiðir til aukinna afurða byggt á hirðingar- og/eða heysýnum.
o Kynbætur sauðfjár. Skoðað hver staða búsins er, kynbótamarkmið sett í kjölfarið varðandi afurðir, fallþunga, vaxtarlag og fitu. Áætlun gerð um hvernig hægt er að ná settum markmiðum.
o Bætt frjósemi. Reynsla undanfarinna ára skoðuð, hvernig staðið hefur verið að fengifóðrun og hvort æskilegt er að breyta einhverju. Horft til að kynbæta fyrir aukinni frjósemi.
o Gimbraskoðanir. Ráðunautur kemur til bónda og stigar fé, (Innifalið er komugjaldið og tvær klukkustundir).

• Gæða og umhverfisstjórnun
o Landbótaáætlun.
Samkvæmt reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu 13.gr. skulu framleiðendur hafa aðgang að nægu nýtanlegu beitilandi fyrir búfé sitt. Sá framleiðandi sem ekki uppfyllir skilyrði um beitarnýtingu þarf að gera landbótaáætlun til að öðlast rétt til álagsgreiðslna. Landbótaáætlunin þarf að vera samþykkt af Landgræðslu ríkisins.
o Vistvæn eða lífræn framleiðsla. Ráðunautar aðstoða bónda til að aðlagast lífrænum búskap.


• Kostnaður.
Gera má ráð fyrir að árlegur kostnaður bónda sé 15.000 – 20.000 kr. fyrir efnagreiningar á hirðingar- og jarðvegssýnum auk 15.000 kr. þóknunar til BSSL. Sá bóndi sem gerir landbótaáætlun fyrir sína jörð getur þurft að kaupa sér loftmynd af jörðinni sem kostar ca. 15.000 – 20.000 kr.  Hægt er að sækja um framlag til þróunarverkefna og jarðabóta á lögbýlum við gerð landbótaáætlunar.


Nánari upplýsingar og skráning í verkefnið fer fram í símum 480 1800 eða 487 4818. Nánari upplýsingar veitir Þórey, netfang thorey@bssl.is

back to top