Uppgræðsla Sólheimasands hafin

Landgræðsla ríkisins, með stuðningi Vegagerðarinnar og heimamanna, hefur hafið aðgerðir til að hefta öskufok á Sólheimasandi í Mýrdal. Tilbúinn áburður verður borinn á og grasfræblöndu sáð í sandana meðfram þjóðvegi 1 á Sólheimasandi og er vonast til þess að árangur sjást strax í sumar. Takist aðgerðirnar mun gróðurinn sem upp kemur draga verulega úr öskufoki á sandinum og tryggja öruggari umferð á þjóðveginum.
Tilgangurinn með aðgerðunum er að endurheimta að einhverju leyti lífsgæði íbúa á þessu svæði, auka möguleika til áframhaldandi búsetu og tryggja betur umferðaröryggi um þjóðveg 1 á Sólheimasandi. Verkið verður unnið að stærstum hluta af heimamönnum en starfsmenn Landgræðslunnar hafa umsjón með því.

Umfang þeirra aðgerða sem nú á að ráðast í er um 400 hektarar, en um er að ræða hluta af stærri viðbragðsáætlun sem vonir standa til að hægt verði að vinna frekar að nú í sumar og því næsta. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða á mun fleiri svæðum á láglendi, s.s. á Skógasandi og við Svaðbælisá og Markarfljót, ef takast á að hefta eða a.m.k. draga úr öskufoki í byggð.


Umhverfisráðherra mun leggja tillögur Landgræðslunnar fyrir ríkisstjórn á næstu dögum. Þá er ljóst að öskufall hefur valdið verulegum skaða á heiðagróðri á svæðum næst eldstöðinni og líklegt er að grípa þurfi til aðgerða á komandi misserum til að vernda gróður og jarðveg á þeim svæðum.


back to top