Tillögur til aðalfundar BSSL frá FKS

Tillögur frá Félagi kúabænda á Suðurlandi hafa nú borist og verða þær bornar upp á aðalfundi BSSL næsta föstudag. Tillögurnar eru tvær:

Tillaga 1.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu 18. apríl 2008, beinir því til stjórnar að auka upplýsingastreymi um starfsemi Stóra- Ármótsbúsins og þær rannsóknir sem þar fara fram. Eins verði tryggð gagnvirk samskipti rannsóknaaðila við bændur á svæðinu.


Greinargerð.
Tilraunastöðin að Stóra-Ármóti hefur frá upphafi borið þungann af því rannsóknastarfi sem unnið er í nautgriparækt hérlendis. Eins hefur stöðin þá sérstöðu að vera að fullu í eigu heimamanna og staðsett í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins. Mikilvægur grunnur öflugs tilraunastarfs er gott og gagnvirkt upplýsingaflæði milli rannsóknaaðila og bænda. Staðsetning tilraunastjóra Stóra-Ármóts á svæðinu og tengsl hans við kúabændur hér hafa skipt miklu máli í þessu tilliti og hafa oftast verið með ágætum.
Með sameiningu alls tilraunastarfs í nautgriparækt undir Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri hefur dregið úr beinni aðkomu bænda á svæðinu við starfsemina á Stóra-Ármóti. Fundurinn leggur áherslu á að breytt fyrirkomulag þessara mála verði ekki til að draga úr tengslum tilraunastarfsins við kúabændur á svæðinu.   


Tillaga 2.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu 18. apríl 2008, lýsir áhyggjum sínum varðandi breytingar á lögum, vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn eins og þær birtast í  þingskjali 825.  mál 524, um að heimilt verði að flytja inn hrátt kjöt. Fundurinn bendir á að innflutningur sem þessi hefur ekki verið heimilaður svo áratugum skiptir og því óljóst hver áhrif þessa kunna að verða á rekstrarumhverfi bænda og afurðastöðva. Eins verður að vera tryggt að umræddar lagabreytingar skapi ekki aukna hættu varðandi lýðheilsu og dýraheilbrigði.


back to top