Styrkir til jarðræktar og vatnsveitna

Styrkir til jarðræktar og vatnsveitna

Veittir eru styrkir til jarðræktar (korn-, tún- og grænfóðurræktar) samkvæmt búnaðarlagasamningi, samningi um starfskilyrði sauðfjárræktar og samningi um starfskilyrði mjólkurframleiðslu.

 

Reglur um framlög til jarðræktar

1. gr.
Reglur þessar fjalla um fjármuni sem ráðstafað er til stuðnings við jarðrækt skv. 2. gr. búnaðarlagasamnings frá 20. október 2010, lið 4.5 í „Samningi um um starfsskilyrði sauðfjárræktar“ frá 25. janúar 2007 og lið 6.4 í „Samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu“ frá 10. maí 2004.
Stjórn Bændasamtaka Íslands annast vörslu umræddra fjármuna, auglýsir eftir umsóknum og úthlutar styrkjum samkvæmt reglum þessum.

2. gr.
Umsóknir um styrk og ósk um úttekt skal senda til viðkomandi ráðunauataþjónustu fyrir 10. september ár hvert, á þar til gerðum eyðublöðum eða á rafrænu formi sem Bændasamtök Íslands hafa umsjón með.Í umsóknum skal meðal annars koma fram kennitala umsækjanda, VSK númer og búsnúmer.

3. gr.
Framlag fæst til sáningar þar sem korn-, tún- og grænfóðurrækt er ætluð til fóðurframleiðslu eða beitar samtals á a.m.k. 2  ha. Uppskera er kvöð.

4. gr.
Úttektaraðili sannreynir hvort um sé að ræða góða hefðbundna korn-, tún- eða grænfóðurrækt. Aðeins er greitt út á heila ha. og venjulegar upphækkanir gilda. Til að standast úttekt þarf umsækjandi að leggja fram viðurkennt túnkort af ræktarlandinu, t.d. úr túnkortagrunni BÍ.

5. gr.
Framlag á ha. fyrir hvert bú ræðst af umfangi ræktunar og fjármunum sem veitt verður í verkefnið af þeim samningum sem vísað er til í 1. gr. Gert er ráð fyrir að það verði kr. 15.000 á ha. allt að 20 ha ræktun og 10.000 á ha. frá 20-40 ha. ræktun, en skerðist á hvern ha hlutfallslega ef fjármunir hrökkva ekki til. Ef afgangur verður deilist hann jafnt á alla ræktaða hektara.

6. gr.
Með búi er í þessum reglum átt við rekstrareiningu þar sem búnaðargjaldsskyld framleiðsla er stunduð og er með sérstakt virðisaukaskattsnúmer. Aðeins einn styrkur er greiddur til hvers aðila og aðila sem eru tengdir honum. Tengdir aðilar teljast aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meirihluta hlutafjár í hinum aðilanum eða fer með meirihluta atkvæðisréttar. Bændasamtökum Ísalnds er heimilt að krefja umsækjanda um sönnun þess að hann standi fyrir ræktun.

7. gr.
Bændasamtök Íslands útbúa verklagsreglur fyrir framkvæmd úttekta. Ágreining um styrkhæfi umsækjanda skal leggja fyrir stjórn Bændasamtaka Íslands.

 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna veitir styrki til vatnsveitna á lögbýlum samkvæmt reglugerð nr. 973/2000:

 

Um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum.
Þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum í dreifbýli er heimilt að greiða framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitu á vegum eigenda einstakra lögbýla.
Ákvæði reglugerðar þessarar ná til allra jarðeigna í landinu þar sem landbúnaður er stundaður í þeim mæli að talist getur búrekstur eða þáttur í búrekstri, að undanskildum þeim jörðum og jarðarhlutum sem liggja innan skipulagðra þéttbýlissvæða sveitarfélaga. Framlög eru ekki veitt til framkvæmda á lögbýlum sem eigi hafa verið setin tvö ár eða lengur næst á undan framkvæmdaári eða eru nytjuð frá öðrum lögbýlum nema byggingar á jörðinni séu nytjaðar til búrekstrar sem krefst aðgangs að vatni.
Hámarksframlag vegna einstakra framkvæmda má nema allt að 44% stofnkostnaðar við vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa, þ.e. kostnaðar við vatnsupptöku, þar með talin borun eftir vatni og dælur, vatnsgeyma og leiðslu frá vatnsbóli að bæjarvegg.
Umsóknir um framlög til vatnsveituframkvæmda skulu vera skriflegar og hafa borist Bændasamtökum Íslands fyrir 1. mars á framkvæmdaári. Umsókn skal fylgja mat leiðbeiningarmiðstöðvar/ héraðsráðunautar á þörf býlisins fyrir viðkomandi framkvæmd og staðfest kostnaðar- og framkvæmdaáætlun.
Ef ráðast þarf tafarlaust í vatnsveituframkvæmd, s.s. vegna þess að vatnsból þornar í náttúruhamförum eða af öðrum ástæðum, skal meta umsókn sem gilda ef hún berst fyrir 15. nóvember á framkvæmdaári, enda fylgi staðfesting leiðbeiningarstöðvar/héraðsráðunautar á að framkvæmd hafi verið nauðsynleg og kostnaður er ekki umfram það sem eðlilegt getur talist.
Vatnsveituframkvæmdum telst lokið er pípur hafa verið grafnar í jörðu og einangraðar eins og fyrir er mælt í verklýsingu og gengið hefur verið frá vatnsbóli þannig að yfirborðsvatn komist ekki í það eða viðeigandi hreinsibúnaði hefur verið komið fyrir, sé þörf á að nota yfirborðsvatn.
Úttektarmaður skal, með samanburði við lýsingu og/eða teikningar sem fylgdu umsókn, fullvissa sig um að verkið sé unnið í samræmi við það sem lýst var í umsókn.

Nánari reglur má sjá í reglugerð nr 973/2000.

back to top