Þreskja repju á Þorvaldseyri og ætla að vinna olíu

Þetta er verkefni sem lofar góðu,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Olíurepja var þreskt á Þorvaldseyri í fyrsta sinn í gær. Sleginn var eins hektara akur og var uppskeran mjög góð, 2,5 tonn.
Í fræjum repjunnar er olía sem erlendis er nýtt bæði sem matarolía og eldsneyti. Sáð var til repjunnar í júlí á síðasta ári.

Nú, eftir þreskingu, tekur við þurrkun og pressun. Þumalputtareglan er sú að allt að þriðjungur af eðlisþyngd repjunnar sé olía. Kornræktun þessi er samstarf bænda á Þorvaldseyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Siglingastofnunar sem vill stuðla að því að flotinn noti lífrænt eldsneyti.


back to top