Stærstu eigendur Líflands vilja innleysa hlutabréf

Sagt er frá því í Morgunblaðinu í dag að stærstu eigendur í Líflandi hf. hafa óskað eftir að innleysa hlutabréf í félaginu á genginu 2,5. Þórarinn V. Þórarinsson lögfræðingur segir þetta gert vegna þess að einn aðili sé kominn með yfir 90% hlut í félaginu, en um 250 smáir hluthafar fari með liðlega 7% hlutafjár.
Lífland hét áður Mjólkurfélag Reykjavíkur. Það félag var samvinnufélag, en var breytt í hlutafélag fyrir nokkrum árum í kjölfar rekstrarerfiðleika og fékk þá nafnið Lífland. Langstærsti eigandi Líflands er Geri ehf. en stærstu eigendur þess eru Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, og Þórir Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Líflands.

Nafnvirði hlutafjár í Líflandi er um 160 milljónir. Þórarinn V. segir að það sé orðið mjög skakkt hlutfall milli þeirra fjármuna sem þarna liggja og þess kostnaðar og umstangs sem felist í því að halda utan um þennan fjölda.


Geta óskað eftir mati
Þórarinn segir að þessi staða, að ráðandi aðili nýti sér ákvæði hlutafélagalaga um að innleysa hlutafé, komi upp á hverju ári. Ef smærri hluthafar séu ekki sáttir við verðið sem boðið sé geti þeir óskað eftir því við héraðsdóm að skipaðir séu matsmenn sem meti verðmæti fyrirtækisins. Þórarinn segir að allmargir hluthafar hafi brugðist við bréfinu með jákvæðum hætti. Ef greitt er 2,5 á hlut verða samtals greiddar um 30 milljónir til þessara 250 hluthafa.

Morgunblaðið, 10. maí 2010, Egill Ólafsson egol@mbl.is


back to top