Stærsti skrokkur í sögu Norðlenska

Í fyrradag var felld kýr úr Hleiðargarði í Eyjafjarðarsveit í sláturhúsi Norðlenska á Akureyri, sem ekki er í frásögur færandi nema fyrir það að skrokkurinn reyndist vera sá þyngsti sem sögur fara af hjá Norðlenska – hvorki meira né minna en 526 kg! Þegar skrokkurinn var færður á vigtina í Norðlenska í gær þurftu menn að nudda augun til þess að fullvissa sig um að talan væri rétt. En ekki var um að villast – vel yfir hálft tonn!
Umrædd kýr er eins og áður segir úr Hleiðargarði í Eyjafjarðarsveit, en þar eru ábúendur Þór Jóhannsson og Helga Sigurðardóttir. Þar á bæ er bæði mjólkur- og kjötframleiðsla. Kýrin sem um ræðir segir Þór að hafi verið fjögurra vetra og var hún búin að bera tveimur kálfum. Kálfarnir gengu undir henni í bæði skiptin og því hefur mjólkin úr kúnni aldrei verið notuð til manneldis.
Ástæðan fyrir þessari miklu stærð á kúnni er sú að móðirin var Aberdeen Angus holdablendingur og hún var síðan sædd með Limousine-holdakynssæði. Útkoman var þessi risavaxni gripur.
„Sem kálfur var hún ekkert óeðlilega stór, en síðan var vöxturinn gríðarlega hraður og kýrin varð fljótt langstærsti gripurinn hjá okkur. Sem betur fer var hún mjög meðfærileg og skapgóð,“ segir Þór Jóhannsson.
Sem fyrr segir er bæði mjólkur- og kjötframleiðsla í Hleiðargarði. Þór segir að 12-14 holdakýr séu hafðar til undaneldis fyrir kjötframleiðsluna en íslensku kýrnar til mjólkurframleiðslu.

Guðmundur Steindórsson, nautgriparæktarráðunautur á Akureyri, segist aldrei hafa heyrt um svo þungan kýrskrokk hér á landi. „Mig rámar í að allt að tíu ára gömul naut hafi kannski náð þessari þyngd, en alls ekki kýr. Þetta er mjög sérstakt,“ segir Guðmundur.
Hleiðargarðskýrin fór ekki á vigt áður en henni var lógað í gær og því er lífþungi hennar ekki kunnur. Guðmundur Steindórsson áætlar út frá fallþunganum að á fæti hafi kýrin farið eitthvað yfir tonnið.


back to top