Skýrsla formanns FKS 2005

Skýrsla formanns FKS 2005


Óhætt er að segja að síðasta starfsár hafi verið venju fremur tíðindasamt á vettvangi Félags kúabænda á Suðurlandi. Gildir þá einu hvort horft er til innra starfs félagsins eða umhverfis starfsgreinarinnar.
  Starfsemi félagsins einkenndist mjög af uppákomum sem tengdust 20 ára afmæli félagsins og tóku þær all nokkuð af tíma stjórnarmanna. Formlegir stjórnarfundir voru þó ekki nema tveir, en því til viðbótar átti bæði formaður og stjórnin fund með stjórn BSSL. Auk þess sem stjórn Mjólkurbús Borgfirðinga sótti okkur heim.  Félagið sendi 8 fulltrúa á aðalfund LK og 5 á aðalfund BSSL, auk þess sem formaður sat haustfund BSSL og síðasta aðalfund MBF. Fundir í félagsráði urðu þó ekki nema 4 og þar af var einn þeirra árlegur samráðfundur með ráðanautum Búnaðarsambandsins.
  Eins og um var getið í síðustu árskýrslu, var á fyrrihluta árs 2004 skipuð starfsnefnd til undirbúnings og framkvæmdar vegna afmælishalds félagsins. Strax í upphafi var ákveðið að tengja afmælishaldið aðalfundi LK og árshátíð kúabænda á Selfossi. Jafnframt var ráðist í útgáfu afmælisrits Þar sem litið var yfir sögu félagsins, auk þess sem reynt var að fanga viðhorf samtíðarinnar með viðtölum við bændur og þjónustuaðila. Það er von okkar að í þessu blaði megi í framtíðinni finna samtímaspegil þeirra er greinina stunda. Mín tilfinning er sú eftir að hafa rýnt í sögu félagsins, að í henni megi í raun greina þróunarsögu greinarinnar. Það hlýtur því að vera okkur áminning um að gæta þeirra heimilda sem til verða í okkar daglega starfi. Því trúlega er engin blindari á fémæti þeirra en við sem þau sköpum á hverjum tíma.
 Mér finnst full ástæða til að þakka öllu því fólki sem lagði hönd á plóg við þessi verkefni. En þá ekki síst afmælisnefndinni þeim Birnu Þorsteinsdóttir, Ólafi Kristjánssyni og Jóhanni Nikulássyni svo og ritstjóranum Tjörfa Bjarnasyni. Sérstakar þakkir fær svo Páll Lýðsson fyrir sitt framlag.


Framleiðsla mjólkur síðasta verðlagsár nam um 111,4 milljónum lítra. Salan þetta sama tímabil var hinsvegar 112,2 milljónir lítra, sé miðað við próteinhlutann. Greiðslumarkið var 106 milljónir, en því til viðbótar höfðu afurðastöðvar heitið greiðslum fyrir prótein hluta umframmjólkur sem næmi allt að 6,5 milljónum. Þannig vantaði rúma milljón lítra uppá að framleiðslan næði því sem væntingar stóðu til. Greiðslumark fyrir yfirstandandi ár var ákveðið 111 milljónir lítra, en gangi söluspár eftir mun þurfa að minnsta kosti 114 milljónir lítra á próteingrunni til að framleiðslan nái að halda í við markaðsþarfir. Framleiðslan nú á haustmánuðum gefur hins vegar ekki tilefni til bjartsýni hvað þetta varðar, en nú í desemberlok 2005 var ársframleiðslan 109,4 milljónir á móti 112 milljónum árið áður. Það er minnkun sem nemur tæplega 2,6 milljónum lítra eða 2.3%. Söluaukning þetta sama tímabil var sem nemur 2,5% (úr 109,5 mill. í 112,3 mill.) Síðustu vikur hefur framleiðslan þó verið að þokast upp og var innvigtun í 5. viku ársins 18 þúsund lítrum meiri en árið áður og um það bil 40 þúsund lítrum meiri það sem af er árinu en á sama tímabili í fyrra. Þó þetta séu að sjálfsögðu ánæguleg tíðindi þá eigum við samt langt í land og ljóst, að það hvernig til tekst með framleiðsluna nú í sumar og haust, mun ráða úrslitum um hvort við náum að fylla þarfir markaðarins næsta vetur með ásættanlegum hætti.
   Afurðastöðvar hafa frá því í nóvember greitt yfirverð á hvern innveginn líter sem nemur1,70 krónum. Þessi hvatningagreiðsla hefur nú verið framlengd til aprílloka.


Mjólkurverð til framleiðenda hækkaði síðastliðin áramót um sem nemur 2,9%, sem er liðlega einu prósentustigi undir þeirri hækkunarþörf sem verðlagsgrundvöllurinn sýndi eða 3,92%. Hins vegar fékkst fram hækkun til iðnaðarins sem nam 1 kr/ltr á heildsöluverði nýmjólkur og öllum öðrum vörum að hámarki 2,5%. Auk þess var verðskerðingagjald á mjólk lagt af og  andvirði þess látið renna til iðnaðarins. Saman náðu þessar aðgerðir nálægt því að mæta hækkunarþörf á vinnslu- og dreifingakostnaði og er það vel, en eins og flestum mun kunnugt hefur verðstöðvun ríkt á markaði með mjólkurvörur síðustu 3 ár.


Sala nautgripakjöts síðasta ár var alls um 3,443 tonn á móti 3,531 tonni á sama tímabili árið áður og er það samdráttur um 88 tonn. Væntanlega skýrist minnkuð sala á minna framboði, en framleiðslan þetta sama tímabil var 3,540 tonn á móti 3,611 tonnum árið áður, eða sem nemur 71 tonni. Viðvarandi hefur verið mikil samkeppni meðal sláturleyfishafa um gripi og hefur það endurspeglast í skilaverði til framleiðenda. Sem dæmi um þetta má nefna að í janúar 2005 greiddi SS 261,8 kr. Fyrir kg af K1A og Hella 260 kr. Í desember greiddi SS hinsvegar 307 kr. og Hella 320. Sambærilegar tölur fyrir UN1A eru 342,7 hjá SS og 340 hjá Hellu í janúar og 387 hjá SS og 400 hjá Hellu í desember. Þessu til viðbótar greiddi SS 3% uppbót á allt innlegg ársins. Sama þróun hefur verið það sem af er þessu ári og bendir fátt til verulegra breytinga á allra næstu misserum.


Þegar skrifað var undir nýjan mjólkursamning á vordögum 2004 töldu flestir óumdeilt að rekstrarumhverfi greinarinnar hefði þar með verið tryggt til 2012. Þó ekki sé ástæða til að ætla annað en svo sé, hefur ýmislegt komið upp á síðasta ári sem líklega mun reyna á lagalega og rekstralega stöðu greinarinnar í komandi framtíð.
   Eitt þessara atriða er stofnun Mjólku ehf sem samkvæmt upphaflegum áætlunum hyggst starfa utan styrkjakerfis landbúnaðarins. Á félagsráðsfundi 23 mai var fjallað um þetta efni og skoðuð samantekt ráðunauta BSSL á ,,Hagkvæmni mjólkurframleiðslu með eða á greiðslumarks´´ Var þá ekki síst verið að skoða þessa stöðu út frá möguleikum nýbýlinga. Niðurstöðurnar sýndu sem kannski kom ekki á óvart að talsvert vantaði uppá rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu utan styrkjakerfisins. Hitt var þó ekki síður athyglisvert hversu mikil íþyngjandi áhrif eru af skuldsetningu vegna hás kvótaverðs við stofnun rekstrar af þessu tagi.
 Stofnun Mjólku ehf vakti upp spurningar um réttarstöðu mjólkur utan greiðslumarks svo og þeirrar mjólkur sem greiðslumarkshafar framleiða umfram sinn rétt. En forsvarsmenn Mjólku lýstu því strax í upphafi að þeir hygðust kaupa slíka mjólk. Landbúnaðarráðherra tók strax af skarið með að mjólk framleidd hjá greiðslumarkslausum framleiðendum væri jafnrétthá á markaði og sú sem framleidd væri innan greiðslumarks. Hins vegar var því ósvarað hvernig farið skyldi með uppgjör þeirrar umframmjólkur sem fyrirtækið kynni að kaupa. Ekki reyndi á þó á þetta atriði við uppgjör síðasta verðlagsárs, þar sem hægar gekk að koma starfsemi Mjólku af stað en forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu áætlað. Starfsemi þess hófst þó formlega 2. desember sl. en áður hafði komið á daginn að fyrirtækið hafði gert samning um kaup á mjólk af einum greiðslumarkshafa í Borgarfirði. Ljóst er að það breytir enn frekar þeim forsendum sem fyrirtækið hafði upphaflega og þar með er algerlega brostin sú áætlun þess að starfa utan styrkjakerfis landbúnaðarins. Þótt Mjólka ehf sé tvímælalaust afurðastöð í skilningi búvörulaga og falli þarmeð undir ákvæði þeirra, virðist leika vafi á hvernig skuli fara með magn- og fjárhagslegt uppgjör innleggjenda hjá fyrirtækinu. Gildir þá einu hvort um er að ræða framleiðendur með eða án greiðslumarks, en ekki síst þá mjólk sem hlutaðeigandi leggur inn umfram greiðslumark sitt.
  Á sameiginlegum fundi stjórna Félags kúabænda á Suðurlandi og Mjólkurbús Borgfirðinga 24. nóvember s.l. var þetta meðal annars rætt og ákveðið að senda Landbúnaðarráðherra erindi. Þar sem skorað var á hann að gefa til kynna með ótvíræðum hætti hvaða reglum ráðuneytið ætlast til að fylgt verði í þessu efni. Félögunum hefur enn ekkert svar borist við þessu erindi, né heldur er okkur kunnugt um kveðið hafi verið á um umrædd atriði. Ljóst er að við svo búið verðu ekki unað og mun næstunni verða knúið frekar á um svör við þessu erindi.


Annað atriði sem kann að hafa áhrif á rekstrarumhverfi okkar næstu árin eru þeir samningar sem standa yfir hjá Alþjóða viðskiptastofnuninni. Óhætt er að segja að það samkomulag sem náðist á  ráðherrafundinum í Hong Kong nú í desember hafi náð lengra en flest benti til á haustdögum. Hins vegar á alveg eftir að útfæra það og því óljóst enn hver áhrifin munu verða eða hversu snörp og því algerlega ótímabært að mála skrattann á vegginn þess vegna. Til skamms tíma er aftur á móti, mun meiri ástæða til að fylgjast með þeirri umræðu sem verið hefur af háu matarverði hérlendis og hvernig landbúnaðurinn hefur verið dreginn inn í þá umræðu. Eins og öllum mun kunnugt skipaði forsætisráðherra nefnd til að skoða forsendur matarverðs hérlendis og gera tillögur um leiðir til að lækka það. Í ljósi þess hversu mjög rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar hefur verið dregið inn í þessa umræðu, hlýtur að vera áhyggjuefni hversu aðkoma landbúnaðarins er veik að umræddri nefnd. Það er ekki ástæða til að efast um nauðsyn þessa starfs, né heldur er verið að gefa sér neitt um niðurstöður nefndarinnar. Þó þeirri skoðun sé lýst, að það geti hvorki verið íslenskum bændum eða neytendum og hvað þá þjóðfélaginu í heild hagfellt til lengri tíma, að íslendingar geri ótímabæra alþjóðasamninga við sjálfa sig.  


Eitt stórt mál er varðar rekstrarumhverfi greinarinnar eru þær afgerandi breytingar sem orðið hafa á lánsfjármögnun í íslenskum landbúnaði á síðustu misserum. Í síðustu árskýrslu var þeirri skoðun lýst að framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins væri orðin mjög veik í því gríðarlega umróti sem ríkt hefur á íslenskum fjármálamarkaði. En kannski hefur ekki þurft mikinn speking til að sjá það. Félagsráð fjallaði um þetta efni á fundi 23. maí og fékk þá til sín Guðmund Stefánsson þáverandi framkvæmdastjóra Lánasjóðsins til að fara yfir stöðu málsins.
   Í kjölfar niðurstöðu starfshóps landbúnaðarráðherra, var síðan nú á haustdögum Lánasjóðurinn seldur til Landsbankans. Þessu fylgdi síðan talsverð samkeppni milli bankanna á svæðinu um viðskipti kúabænda og virðist sem allmargir bændur hafi í kjölfarið gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.


Í samræmi við áætlanir var svo búnaðargjaldið lækkað nú um áramótin úr 2% í 1,2%. Það er heldur minni lækkun en sem nemur þeim hluta sem áður rann frá greininni til Lánasjóðsins, en vegna tekjustöðu annarra búgreina og þess að álagningaprósenta verður að vera jöfn á allar greinar landbúnaðarins varð þetta sameiginleg niðurstaða. Jafnframt var stokkað talsvert upp í skiptingu milli einstakra aðila sem þiggja tekjur af búnaðargjaldi kúabænda. BÍ fær eftir breytingu 0,3% hafði 0,4%, Búnaðarsamböndin fá sömu prósentu 0,5, LK fær 0,3% hafði 0,15 og Bjargráðasjóður lækkaði í 0,05% úr 0,15% . Um áramót var síðan verðskerðingagjald nautakjöts lagt niður og er áætlað að sú hækkun sem LK fékk af búnaðargjaldi komi að hluta til móts við það. Með þessu móti er ætlunin að kúabændur fái notið til fullnustu þess hagræðis sem ná átti fram, með niðurlagningu þess búnaðargjalds sem rann til lækkunar vaxta hjá Lánasjóðnum.


En breytingarnar á búnaðargjaldinu eiga sér líka aðra hlið. Hún er sú að vegna minnkaðrar hlutdeildar annarra búgreina en nautgripa og sauðfjárræktar í búnaðargjaldsstofni búnaðarsambandanna, stefnir í að hlutur kúabænda geti orðið um 70% af heildar búnaðargjaldstekjum Búnaðarsambands Suðurlands. Þessi breyting skýrist að sjálfsögðu af minnkuðum heildartekjum  Búnaðarsambandsins, sem auðvitað verður að mæta með einhverjum hætti. En jafnframt hljótum við að gera þá kröfu að komi til aukinnar gjaldtöku fyrir þjónustuna, þá verði gætt fullrar sanngirni gagnvart greininni. Stjórn félagsins átti fund með stjórn og framkvæmdastjóra Búnaðarsambandsins 13. janúar sl. og ræddi þar þjónustu, forgangsröðun og kostun verkefna. Á fundinum kom fram fullur vilji til samstarfs við félagið um þetta efni. 


Eins og flestum mun í fersku minni stóð félagið fyrir málþingi um framtíðarmöguleika greinarinnar 31. janúar sl. í Þingborg í Hraungerðishreppi og var það hugsað sem loka viðburður afmælisársins. Fengnir voru 3 fyrirlesarar þeir Sveinn Agnarson frá hagfræðideild Háskóla Íslands, Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri MS og Elvar Eyvindsson bóndi Skíðbakka. Erindin voru öll afar spennandi og vel unnin, enda sköpuðust um þau býsna athyglisverðar og skemmtilegar umræður. Spurningin hlýtur þó alltaf að vera sú hvað eftir stendur. Ljóst er að talsverða vannýtta möguleika er hægt að sækja til lækkunar á kostnaði við búreksturinn og þá einkum hvað varðar fóðuröflun og aðföng. Eins ætti að vera hægt að bæta nýtingu fastafjármuna með auknum afköstum gripanna. Hvað markaðsmöguleika varðar þá er ekki annað að sjá en þar geti verið eftir einhverju að slægjast á allra næstu árum og þá einkum í Færeyjum. Hins vegar hlýtur að vera okkur áhyggjuefni sú krappa staða sem kúastofninn okkar er í. Samkvæmt nýjustu tölum er kúafjöldi komin niður í um 23.900 kýr og það sem verra er að ásettum kvígukálfum fækkar einnig. Allir hljóta að sjá að haldi sama þróun áfram hvað varðar kálfadauða og endingu kúa, þurfum við tæpast að gæla við vonir um frægð og frama fyrir okkar ágætu vörur á erlendum mörkuðum. Það er lífsspursmál að okkur takist að snúa þessu við.


Á síðasta aðalfundi var skipuð nefnd til að endurskoða lög félagsins. Hún hefur nú lokið störfum og mun kynna tillögur sínar hér á fundinum. Ekki er um neinar stórbreytingar að ræða, en í megin atriðum miða þær að því að auka ábyrgð félagsráðsins, en um leið áhrif hins almenna félagsmanns.


Góðir félagar ég hef hér stiklað á stóru um þau verkefni sem komið hefur verið að á vettvangi félagsins síðasta ár. Auðvitað verður seint gerð tæmandi grein fyrir þessu starfi né allt upp talið sem komið hefur verið nálægt, en hér verður látið staðar numið. Að lokum vill ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef á samskipti við á vettvangi félagsins liðið ár, en þá ekki síst samstjórnarfólki mínu þeim Katrínu Birnu Viðarsdóttur og Jóhanni Nikulássyni, og síðast en ekki síst okkar ágæta aðstoðarmanni Runólfi Sigursveinssyni.


Sigurður Loftsson
formaður FKS


back to top