Skyr.is til Englands

Mjólkursamsalan er að hefja sölu á skyri á Bretlandsmarkaði. Tilraunasendingar hafa farið í nokkrar heilsubúðir í London og nágrenni og stefnt er að því að Skyr.is verði til sölu í mörgum smásöluverslunum í haust.
MS hefur unnið að undirbúningi markaðssetningar skyrsins í Bretlandi um tíma. Að sögn Guðbrands Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Nýlands ehf. sem annast útflutning mjólkurafurða fyrir MS, hefur tilraunaútflutningur gefist vel. Umfangsmeiri útflutningur hefst í haust þegar Skyr.is verður kynnt og boðið til sölu í smásöluverslunum.

Útlit umbúða höfðar til hins íslenska uppruna og hreinnar náttúru landsins. Guðbrandur segir að skyrið sé ekki þekkt á þessum markaði og því þurfi að leggja mikla vinnu í kynningu í verslunum. „Það er til mikils að vinna því þessi vara er seld á tiltölulega háu verði.“


Skyrið er framleitt hér á landi og flutt sjóleiðis til Bretlands. Kostnaður við sjóflutning er aðeins um fimmtungur af flugfragt.


Íslendingar hafa nú tollfrjálsan kvóta mjólkurvara hjá Evrópusambandinu og hefur það aukið möguleika MS til að greiða bændum fyrir umframlítrana. Það hefur mikla þýðingu ef hægt verður að auka sölu á skyri og nýta tollkvótann vegna þess að skyrið er fimmfalt verðmætari vara en mjólkurduftið.


Vonast er til að hægt verði að flytja út 200 tonn af skyri til Bretlands á ári og auka þann útflutning smám saman. Hægt er að framleiða 2000 tonn af skyri úr þeirri mjólk sem nú er framleidd umfram markað og segir Guðbrandur markmiðið að finna markað fyrir það á næstu árum.


 


back to top