Skýra þarf stöðu bænda í lánamálum

Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna segir nauðsynlegt að staða bænda sem tóku gengisbundin lán, verði skýrð hið fyrsta. Hann leggur áherslu á að skuldamál bænda séu meðhöndluð á sama hátt og hjá einstaklingum og heimilum.Atvinnurekstur þeirra sé samtvinnaður við heimilisreksturinn. Á bak við lán bænda eru veð í bújörðum þeirra og heimilum. Þetta á bæði við um bændur sem eru með rekstur á eigin kennitölu og bændur sem stofnað hafa einkahlutafélög utan um rekstur sinn.

„Þetta ræðst auðvitað af því hvernig stjórnvöld og bankar velja að spila úr þessu,“ segir Eiríkur. Bændur verði að fá kost á því að vera meðhöndlaðir sem einstaklingar við úrlausn lánamála.


Bændasamtökin hafi ítrekað lagt áherslu á að tekið verði á þessum málum af sanngirni og festu. Þetta sé mjög mikilvægt fyrir þau heimili sem eiga í hlut.  Hjá bændum sé heimilið yfirleitt óaðskiljanlegt frá rekstrinum. Síðan sé það mikilvægt fyrir byggðina og fæðuöryggið að framleiðslan detti ekki niður.


back to top