Skinnaverð aldrei hærra en nú

Verð fyrir íslensk minkaskinn hækkaði um fimm til sjö prósent á uppboði í Kaupmannahöfn í morgun og hefur aldrei verið hærra. Verðið hefur tífaldast frá því það var lægst fyrir tuttugu árum. Haft var eftir formanni Sambands íslenskra loðdýrabænda, Birni Halldórssyni í Vopnafirði, í fréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði að hann þekkti ekki neina atvinnugrein í landinu með betri afkomu um þessar mundir. Á uppboðinu sem hófst í Kaupmannahöfn í morgun er verið að selja 30 til 40 þúsund minkaskinn frá Íslandi og stefnir í að um og yfir átta þúsund íslenskar krónur fáist að meðaltali fyrir hvert skinn, eða 370-400 danskar krónur.

Björn áætlar að hækkunin frá síðasta uppboði í febrúar verði á bilinu fimm til sjö prósent. Hann segir þetta metverð og það sé nú orðið um sjötíu prósentum hærra, í dönskum krónum talið, en það hefur verið að meðaltali undanfarin níu ár, sem er um 230 danskar krónur.


Að viðbættri gengislækkun íslensku krónunnar er hækkunin enn meiri. Þannig hefur verð fyrir íslensk minkaskinn ríflega fjórfaldast í dönskum krónum frá því það var lægst fyrir tuttugu árum, en þá fengust um 88 danskar krónur fyrir skinnið. Sé hins vegar miðað við íslenskar krónur hefur verðið tífaldast. Danska krónan hefur á þessum tíma hækkað gagnvart íslensku krónunni úr 9 krónum upp í tæpar 22 krónur.
Björn segir kannski ánægjulegustu tíðindin að menn sjái engin merki þess að verðið muni lækka á næstunni. Eftirspurn sé fremur að aukast, og nýir markaðir að koma sterkir inn, á sama tíma og ekki sé búist við framleiðsluaukningu.


back to top