Sauðamjaltir í Akurnesi

Í sumar hafa bændur í Akurnesi í Hornafirði mjólkað rúmlega 30 ær. Mjaltir hófust 4. júlí og voru þá lömbin tekin undan ánum og sett á há og sumarrýgresi. Ærnar eru mjólkaðar kvölds og morgna og koma um 20 kg á dag af mjólk úr ánum. Mjólkin er flutt í Búðardal til frekari vinnslu en í framtíðinni er gert ráð fyrir að öll vinnsla mjólkurinnar fari fram í Akurnesi. Beitin sem ærnar fá er há og svo fá þær 150 g/á af fóðurbæti í mjöltunum. Mjaltabásinn er eini sinnar tegundar hér á landi, en hann er mjög tæknilegur. Helgi Ragnarsson í Akurnesi smíðaði básinn en mjaltatækin koma frá Remfló.

Mjaltabásinn tekur 8 ær og er hægt að mjólka 4 ær í einu. Kerfið er láglínukerfi og rennur öll mjólkin saman í einn kút við enda bássins. Afurðir úr sauðamjólk eru góð viðbót við þá matvælaflóru sem framleidd er í Austur-Skaftafellssýslu og óskum við Akurnesbændum velgengni á þessu sviði.












Sveinn Ragnarsson við mjaltir.
Ærnar ganga inn í básinn.



 


back to top