Sala á mjólkurafurðum jókst í fyrra

Mjólkurframleiðslan árið 2012 var 125,1 milljónir lítra, en það er aukning um 630 þúsund lítra frá árinu 2011.  Mjólkurframleiðendur á Íslandi í árslok 2012 voru 668 og þeim hafði fækkað um þrettán á árinu.  Framleiðsla á hverju kúabúi 2012 var að meðaltali 187.265 lítrar og jókst um 4.036 lítra á árinu.




Þetta kom fram á aðalfundi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Sala mjólkurafurða, mæld á prótein- og fitugrunni, jókst árið 2012.  Mesta söluaukningin var í skyri en þar jókst salan um 4,4% milli ára og salan hefur nú aukist um 67% frá árinu 2000. Næst mest var söluaukning viðbits (Smjörs, Smjörva, Klípu og Létt og laggott), en salan jókst um 3,8% árið 2012 og hefur aukist um 27,5% frá árinu 2000.    



Útflutningur mjólkurafurða var samtals 2.050 tonn og jókst talsvert á árinu 2012. Mest var aukningin í útflutningi á skyri (35%) en alls voru flutt út 522 tonn af skyri. Þá voru flutt út um 350 tonn af osti, 530 tonn af smjöri og 650 tonn af undanrennudufti árið 2012.



Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa opnað nýja heimasíðu á vefslóðinni www.sam.is og þar er að finna nánari upplýsingar um mjólkurframleiðslu.


back to top