Risavaxið verkefni að brauðfæða mannkynið á 21. öldinni

Húsfyllir var á fyrirlestri Julians Cribb sem haldinn var í gær í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar en fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Matvælaframleiðsla morgundagsins“. Í fyrirlestri sínum fór Cribb yfir þær miklu ákskoranir sem felast í því að brauðfæða ört fjölgandi mannkyn með minnkandi vatni, þverrandi olíu, við landeyðingu og efnahagslega örðuleika auk annars.
Cribb benti á í fyrirlestri sínum að samkvæmt mannfjöldaspám verður fjöldi jarðarbúa um ellefu milljarðar hið minnsta á sjötta áratug 21. aldarinnar. Til að brauðfæða þann fjölda fólks þarf að tvöfalda matvælaframleiðslu í heiminum miðað við það sem nú er. „Þetta er risavaxið verkefni en þó framkvæmanlegt. Til þess þarf allsherjarátak allra þeirra sem koma að málum tengdum matvælaframleiðslu. Það eru bændur, matvælafyrirtækin, kokkar, kennarar, stjórnmálamenn og ekki síst neytendur. Aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að afleiðingarnar verði skelfilegar,“ sagði Cribb meðal annars.

Okkur skortir tíma
Eftir framsögu Cribb settu þátttakendur í pallborði fram stutt innlegg. Áslaug Helgadóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands tók undir með orðum Cribb um að matvælaframleiðsla heimsins væri mikilvægasta verkefni samtímans. Hún sagði þó að hún teldi Cribb óþarflega neikvæðan og miklir möguleikar væru til að takast á við þann vanda sem við stæðum frammi fyrir. Cribb var þessu reyndar sammála í svari sínu en benti á að okkur skorti tíma, það þyrfti að bregðast strax við.


Matur of ódýr
Daði Már Kristófersson dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands velti því meðal annars upp í innleggi sínu að um óeðlilega verðlagningu á matvælum í heiminu væri að ræða. Ekki væri tekið tillit til umhverfisáhrifa sem landbúnaður hefði t.a.m. í för með sér. Matur væri einfaldlega of ódýr og tók þar með undir málflutning Cribb.


Þörf á langtímastefnumótun
Sjöfn Sigurgísladóttir, fyrrum forstjóri Matís og núverandi framkvæmdastjóri Matorku ræddi um möguleika á útflutningi íslenskrar þekkingar í matvælaframleiðslu, einkum í tengslum við sjávarútveg og fiskeldi. Þá benti hún á þau tækifæri sem felast í auðlindum hér á landi til framleiðslu á matvælum með nýjum, sjálfbærum hætti. Hún hvatti ráðamenn og fundarmenn til að nýta fyrirlestur Cribbs til að móta langtímastefnu í matvælaframleiðslu á Íslandi.


Bændur verði gæslumenn landsins
Andrés Arnalds fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins benti á þá miklu þekkingu sem Íslendingar byggju yfir við báráttu gegn landeyðingu. Þar tók hann undir orð Cribbs sem sagði að sú þekking væri ómetanleg til fjár. Andrés sagði jafnframt að afar mikilvægt væri að gera bændur og aðra landeigendur að svokölluðum gæslumönnum lands, og mikilvægi þess að þeir hlytu ásættanleg laun erfiði síns til þess að eiga tök á að fjárfesta í sjálfbærum landbúnaði.


Standa þarf vörð um íslensku bújörðina
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands vakti athygli á því að kynslóð eldri bænda á Íslandi og reyndar í heiminum öllum hefði staðið frammi fyrir þeirri áskorun að auka við matvælaframleiðslu til að fæða sífellt fleira fólk. Það hefði þeim tekist og það væri kynslóðarinnar sem stæði í brúnni nú um stundir að marka stefnu til að gera slíkt hið sama. Hið mikilvægasta í þeim efnum væri að taka ákvörðun um að standa vörð um íslensku bújörðina, eins og hann komst að orði.


Mikill áhugi var á fyrirlestrinum eins og áður kemur fram og komu fundarmenn fram með fjölda áhugaverðra spurninga þegar orðið var gefið laust. Fyrirlestur Cribbs, sem var haldinn í samstarfi Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskólans, Landgræðslunnar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, var tekinn upp og má nálgast hann á vef Bændasamtakanna, bondi.is.


Nánar:
Fyrirlestur Julian Cribb


The Coming Famine: Risks and opportunities for global food security – glærur Julian Cribb.


Umræður um fyrirlestur Julian Cribb


back to top