Reynt að hefta öskufok með uppgræðslu

Í gær hóf Landgræðslan sáningu í um 400 hektara lands á Sólheimasandi í því skyni að reyna að hefta öskufjúk. Síðustu daga hefur svifryk víða um land farið langt yfir heilsuverndarmörk. Nánast óbúandi er við öskufokið í byggðinni undir austanverðum Eyjafjöllum, Skógum, Sólheimabæjum, í Fljótshlíð og Merkurbæjum þegar það er hvað verst.
Á næstu dögum mun Landgræðslan sá níu tonnum af fræi og dreifa 60 tonnum af áburði yfir öskulagið á Sólheimasandi.

Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri segir ljóst að svæðið þar sem aska getur fokið af sé gríðarstórt, jafnvel 4% af flatarmáli landsins. Enginn mannlegur máttur geti stöðvað þetta gjóskufok, sem geti staðið yfir í nokkur ár. Sveinn segir að hægt sé að hefja endurreisnarstarf á vissum svæðum, og þá fyrst og fremst í byggð á svæðum þar sem ástandið sé verst.


Áætlað er að verkefnið kosti um 100 milljónir króna.


back to top