Rafræn skráning forðagæsluskýrslna

Matvælastofnun (MAST) heldur fræðslufund fyrir bændur þriðjudaginn 9. nóvember í Ársal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Fundurinn skiptist í tvennt: Kl. 15:00 verður fjallað um rafræna skráningarforritið BÚSTOFN og rafræn skil á forðagæsluskýrslum. Kl. 15:30 verður fjallað um tilboðsmarkað með greiðslumark mjólkur.
Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu og nálgast upptöku af útsendingunni á vef MAST (www.mast.is) undir ÚTGÁFA – FRÆÐSLUFUNDIR.

Frá 1. september 2010 var umsjón forðagæslu færð frá Bændasamtökum Íslands (BÍ) til MAST. Þann 4. nóvember 2010 mun MAST opna nýtt vefforrit, Bústofn www.bustofn.is, fyrir rafræn skil á forðagæsluskýrslum. Öllum sem skiluðu forðagæsluskýrslu síðasta haust hefur nú að venju verið send eyðublöð haustskýrslu ásamt leiðbeiningum um útfyllingu og skil. Með notkun „BÚSTOFNS“ gefst umráðamönnum búfjár nú tækifæri á að að skila upplýsingum um bústofn og forða rafrænt. Með rafrænum skilum er skráning upplýsinga um heyforða til muna einfaldaður. Aðgangur að vefforritinu er veittur gegn rafrænu auðkenni (island.is), sambærilegt við skattaskýrsluskil. Búfjáreftirlitsmenn fá einnig aðgang að kerfinu til að yfirfara skráningar frá bændum, skrá forðagæsluskýrslu fyrir hönd bænda á sínu svæði og niðurstöður vorskoðunar.


Þann 1. desember n.k. hefjast viðskipti með greiðslumark mjólkur á svokölluðum kvótamarkaði. Þar er um breytt fyrirkomulag slíkra viðskipta að ræða. Þau munu eftirleiðis eiga sér stað á uppboði þar sem kaupendur og seljendur mætast og verð er ákvarðað. Greiðslumark mjólkur er ákveðið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði. Kaup og sala á greiðslumarki mjólkur eru því í raun viðskipti með framleiðslurétt og þar með réttindi til að njóta beingreiðslna úr ríkissjóði. Með nýrri reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 10. maí í ár var komið á nýju fyrirkomulagi með þessi viðskipti. Kvótamarkaðir með greiðslumark mjólkur verða haldnir tvisvar á ári, þann 1. desember og 1. júní. Á fræðslufundinum verður fjallað um framkvæmd tilboðsmarkaðarins og skilyrði sem uppfylla þarf þegar tilboð eru sett inn á markaðinn.


back to top