Ráðherra undrandi á skilyrðum ESB

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undrast þau skilyrði sem Evrópusambandið hefur sett fyrir því að hefja samningaviðræður um landbúnað og dreifbýlisþróun. Þetta kemur fram í grein eftir ráðherra sem m.a. er birt á vef ráðuneytisins. Ráðherra segir opnunarskilyrðin koma verulega á óvart þegar haft er í huga að á rýnifundi um landbúnaðarkaflann, sem fór fram í Brussel 27. janúar s.l. hafi íslenska samninganefndin gefið út sérstaka yfirlýsingu um málið miðað við þá ákvörðun Íslands að breyta ekki íslenskri stjórnsýslu, eða lögum fyrr en fyrir liggur að aðildarsamingur hafi verið samþykktur í þjóðaratkvæagreiðslu. Í yfirlýsingu samninganefndarinnar var því lýst að Íslandi verði unnt að gera allar nauðsynlegar laga og stjórnsýslubreytingar þannig að allt verði til reiðu frá gildistöku aðildar. Nú liggur fyrir að slík yfirlýsing er ekki fullnægjandi að mati framkvæmdastjórnar ESB.

Ráðherra segir jafnframt að þau opnunarskilyrði, sem á okkur eru sett af hálfu ESB séu á vissan hátt víðtækari, því Íslandi sé gert skylt að leggja fram áætlun um á hvern hátt það ætli að taka yfir hina almennu landbúnaðarstefnu ESB ef til aðildar kemur. Væntanlega þurfi slík áætlun að fela í sér tímaáætlun um hvaða stofnanir verði settar á laggirnar og um lagaramma. Ráðherra segir að ekki sé gefinn mikill slaki á kröfum ESB vegna smæðar landsins eða þess að hér er bændastéttin fámenn miðað við það sem gerist með milljónaþjóðum.


Þá segir ráðherra að sé Íslandi ætlað að leggja nú fram heildstæða áætlun um lagabreytingar sem síðan verði að veruleika eftir samþykki aðildar, þá hafi það áhrif á stöðu okkar. Almennt geti Alþingi og ríkisstjórn farið mismunandi leiðir að settu marki og hafi þar ákveðið frelsi til ákvarðana, einnig þegar kemur að því að uppfylla samninga við erlend ríki. En sé svo að ríkisstjórnin hafi þegar lagt fyrir erlend ríki áætlun um það hvernig þetta verði gert þá hafi slík áætlun sjálfstætt lagabindandi gildi gagnvart Evrópusambandinu og geti þá beinlínis skert sjálfræði þess þings sem ókjörið er.


Ráðherra telur að við áætlunargerð eins og hér er rætt um megi á engan hátt skerða samningsstöðu Íslands í viðræðunum. Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar er einmitt tiltekið að Ísland skuli láta á það reyna breyta ekki atriðum sem hér er svo aftur á móti tiltekið að Ísland sýni fram á hvernig það geti, vilji og muni breyta við inngöngu.


Ráðherra endar svo grein sína á því að segja að það verði hans fyrsta verk í þessu máli sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að leita svara hjá framkvæmdastjórninni hversu almenn eða ítarleg áætlun okkar í landbúnaðarmálum á að vera. Fyrr en það liggur fyrir er ekki raunhæft að ráðast í gerð hennar, segir ráðherra.


Sjá nánar:
Skilyrði ESB og valdamörk ráðherra, grein eftir Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


back to top