Páll Lýðsson látinn

Páll Lýðsson sagnfræðingur og bóndi lést af slysförum í gærmorgun á 72. aldursári. Hann var fæddur í Litlu-Sandvík 7. október 1936, sonur hjónanna Lýðs Guðmundssonar bónda þar og konu hans, Aldísar Pálsdóttur.
Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1956 og BA-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1959. Hann var bóndi á föðurleifð sinni, Litlu-Sandvík, en þar hefur föðurætt hans búið frá 1793.

Páll sinnti ýmsum störfum um ævina, hann var m.a. hreppstjóri, oddviti, sýslunefndarmaður og héraðsnefndarmaður fyrir sveit sína, Sandvíkurhrepp, allt þar til að hreppurinn var lagður af og sameinaður Árborg. Á árunum 1960 til 1966 sinnti Páll stundakennslu í sögu og íslensku við gagnfræðaskólann á Selfossi og aftur árin 1970-1973. Einnig var hann stundakennari við iðnskólana á Selfossi á árunum 1964 til 1972.


Um árabil sat Páll í stjórn Sláturfélags Suðurlands en hann var kosinn stjórnarformaður á miklum umbrotatímum í sögu félagsins árið 1987. Hann sat einnig í stjórn MBF, var formaður Afréttarmálafélags Flóa og Skeiða og Flóaáveitunnar ásamt því að sitja í stjórn Veiðifélags Árnesinga og stjórn Rjómabúsins á Baugsstöðum. Hann var kjörinn heiðursfélagi Búnaðarsambands Suðurlands nú í ársbyrjun 2008.


Páll var afkastamikill sagnfræðingur og safnaði ógrynni heimilda um sögu Árnesinga en ritaði einnig fjölmargar bækur. Hann ritstýrði m.a. 50 ára afmælisriti Búnaðarsambandsins og hafði nær lokið við 100 ára afmælisrit Búnaðarsambandsins er hann lést.


Eftirlifandi eiginkona Páls er Elínborg Guðmundsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn.


Búnaðarsamband Suðurlands þakkar fyrir að hafa notið starfskrafta og góðs samstarfs við Pál um leið og við vottum aðstandendum samúð okkar.


 


back to top