Öskufall til norðvesturs og vesturs næstu daga

Í nótt var fremur rólegt yfir gosstöðinni í Eyjafjallajökli. Upp úr miðnætti dökknaði gosmökkurinn talsvert samkvæmt upplýsingum lögreglu og vindátt breyttist þegar leið á nóttina til suðausturs. Aska fellur nú í norðvestur frá eldstöðinni í átt að Fljótshlíð. Rétt er að taka fram að öskufall er nú ekkert í líkingu við það sem var í fyrstu.
Veðurstofan spáir suðaustlægri átt í dag og vaxandi vindi smám saman. Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni. Með öskumistri er átt við truflun í skyggni vegna ösku, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.

Öskufallsspá Veðurstofunnar 23.-27. apríl 2010:

Föstudagur (23. apríl):
Suðaustlæg átt og smám saman vaxandi vindur og öskumistur til norðvesturs frá eldstöðinni og getur það jafnvel náð í örlitilum mæli til Reykjavíkur. Snjókoma eða slydda með köflum.


Laugardagur (24. apríl): Allhvöss suðaustan- og austanátt og úrkomulítið. Öskumistur berst væntanlega til vesturs og norðvesturs frá eldstöðinni, jafnvel til Reykjavíkur.


Sunnudagur (25. apríl): Austan strekkingur og rigning, en lægir mikið síðdegis. Öskufall til norðvesturs, en nær líklega ekki til Reykjavíkur.


Mánudagur og þriðjudagur (26. og 27. apríl):  Líklega austlæg átt áfram og öskufall til vesturs.


 


back to top