Nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Stjórn Bændasamtaka Íslands hefur ráðið Eirík Blöndal sem framkvæmdastjóra samtakanna frá og með 1. janúar nk. Eiríkur hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Búnaðarsamtaka Vesturlands frá árinu 2001. Sigurgeir Þorgeirsson lætur af starfi framkvæmdastjóra BÍ á sama tíma en hann var nýlega skipaður ráðuneytisstjóri sameinaðs ráðuneytis landbúnaðar og sjávarútvegs.

Eiríkur lauk verkfræðinámi frá Landbúnaðarháskólanum í Ási árið 1996 en hans aðalgreinar voru rekstrartækni, landbúnaðarbyggingar auk byggða- og atvinnuþróunar. Búfræðinámi lauk hann í Noregi árið 1991. Eftir nám kenndi Eiríkur við búnaðarskóla í Osló en réðist síðan til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins árið 1997.


Eiríkur Blöndal hefur starfað að félagsmálum bænda um árabil og setið í ýmsum nefndum og ráðum. Á norrænum vettvangi hefur hann m.a. setið í stjórn tækniskorar norrænna búvísindamanna og í faghópi um landbúnaðarbyggingar á norðurslóð.


Eiríkur er fæddur árið 1970, býr á Jaðri í Bæjarsveit, kvæntur Sigurbjörgu Ósk Áskelsdóttur landslagsarkitekt og eiga þau tvö börn. Sigurbjörg rekur ráðgjafarfyrirtækið Landlínur í Borgarnesi sem er í eigu þeirra hjóna.


back to top