Nýliðunarstyrkir í sauðfjárrækt í fimm ár í stað þriggja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur staðfest breytingu á reglum um nýliðunarstyrki í sauðfjárrækt sem felst í því að nú er hægt að sækja um framlög fimm ár í röð í stað þriggja áður, þó aldrei lengur en út gildistíma núverandi sauðfjársamnings. Breytingin er gerð að tillögu Samtaka ungra bænda, en var samþykkt af stjórnum Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands og síðan staðfest af sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu.

Samkvæmt samningu um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar skal árlega verja fjármunum til nýliðunar í sauðfjárrækt samkvæmt liðnum nýliðunar- og átaksverkefni í samningnum. Skal verja til þess 43,75 prósentum af fjárhæð liðsins hverju sinni. Framlög eru veitt til bústofnskaupa og miðast við kaup á sauðfé umfram 50 fjár. Viðmiðunarupphæð framlags er 5.000 krónur á kind, en framlag má þó aldrei verða hærra en kaupverð. Þeir sem fengið hafa úthlutað styrk og sækja um aftur geta sótt um sambærilegan styrk vegna fjölgunar í eigin bústofni. Eingöngu er þá heimilt að veita styrk út á þá fjölgun vetrarfóðraðra kinda sem umsækjandi sýnir fram á að hafi orðið vegna ásetnings úr eigin fjárstofni. Bændasamtök Íslands annast afgreiðslu umsókna. Fullnægi umsókn öllum skilyrðum skal fyrst úthluta fullum framlögum til kaupa á fyrstu 500 kindunum samkvæmt hverri umsókn. Ekki er þó greitt framlag vegna fyrstu 50 kindanna í hverjum kaupum, nema þegar framlaginu er skipt. Að því loknu skal úthluta sömu framlögum til kaupa á kindum umfram 500, eftir því sem fjárveitingar leyfa.


Umsækjendur mega ekki hafa þegið beingreiðslur síðustu átta ár, ekki hafa verið skráðir eigengdur að sauðfjárbúum og ekki hafa átt meira en fimmtíu fjár samkvæmt forðagæsluskýrslum. Næsti umsóknarfrestur rennur út 1. mars 2011.  Auglýst verður eftir umsóknum í Bændablaðinu þegar nær dregur.

Reglur um úthlutun bústofnskaupastyrkja til frumbýlinga


back to top