Ný tegund af jógúrt komin á markað

Vesturmjólk ehf. í Borgarnesi hefur hafið dreifingu á jógúrt undir vörumerkinu Baula og kom hún í verslanir í síðustu viku. Um er að ræða jógúrt í 180 gramma dósum og fæst hún í þremur bragðtegundum, jarðarberja, bláberja og karamellu. Jógúrtin fæst nú í Bónus og nokkrum af verslunum Kaupáss en það félag rekur Krónuna, 11-11 og Nóatún. Ætlunin er að jógúrtin fáist einnig í 500 gramma dósum á næstunni.

Vesturmjólk stefnir að framleiðslu á fleiri tegundum mjólkurafurða á næstunni.

Fyrirtækið er í eigu þriggja sjálfstæðra kúabænda á Vesturlandi, þeirra Bjarna Bærings Bjarnasonar að Brúarreykjum í Borgarbyggð, Jóhannesar Kristinssonar að Þverholtum í Borgarbyggð og Axels Oddssonar að Kverngrjóti í Dalabyggð.


Vinnslustöð Vesturmjólkur er staðsett í Borgarnesi, þar sem fyrirtækið hefur nú hafið framleiðslu af fullum krafti og skapar þar tíu til fimmtán störf á ársgrundvelli. Mjólkurfræðingur Vesturmjólkur er Halldór Guðmann Karlsson.


back to top