Norðlenska og SS hafa birt verðskrár sauðfjárafurða

Norðlenska og SS hafa gefið út ákvörðun um verðlagningu sauðfjárafurða fyrir komandi sláturtíð. Hjá Norðlenska hækkar verð um 6,3% á lömbum en verð fyrir fullorðið breytist ekkert frá fyrra ári. Álagsgreiðslur verða með sama hætti og áður. Í tilkynningu frá Norðlenska segir að félagið áskilji sér rétt til að endurskoða verðskrána ef tilefni verður til.
Sláturfélag Suðurlands hækkar grunnverðskrá sína um 3% frá fyrra ári og bæta sláturviku við í nóvember með 10% álagi. SS hækkar ekki greiðslur fyrir kjöt af fullorðnu fé. Í útskýringum SS á verðskránni segir að nú gæti sölutregðu á erlendum mörkuðum og aðstæður á innanlandsmarkaði leyfi ekki mikla verðhækkun. Hjá SS segir þó að til lengri tíma litið sé vaxandi eftirspurn eftir kjöti erlendis og sérstaða og gæði íslenska lambakjötsins gefi ástæðu til bjartsýni í framtíðinni.

Ekki er búið að birta verð hjá öðrum sláturleyfishöfum en þó hefur Sláturhús KVH á Hvammstanga auglýst álagsgreiðslur sem eru á bilinu 4-10% í vikum 36 til 39. Þá hafa SAH afurðir á Blönduósi gefið það út að álagsgreiðslur verði sambærilegar og í fyrra.


Sjá nánar:
Verðskrá Norðlenska
Verðskrá SS


back to top