Mjólkurfrumvarpið ekki samþykkt á þessu þingi

Ljóst er að frumvarp til breytinga á búvörulögum, mjólkurfrumvarpið svokallaða, verður ekki samþykkt á yfirstandandi þingi. Líkur eru til þess að nýtt frumvarp, í talsvert breyttri mynd, verði lagt fram á haustþingi. Þær breytingar gætu falið í sér að sektarákvæði verði felld út úr frumvarpinu en í stað þess yrði tekið upp útflutningsgjald á umframmjólk sem myndi hugsanlega miðast við verðlagsnefndarverð til mjólkurbænda eða mismun á útflutningsverði og verðlagsnefndarverði. Þá er rætt um að hækka ívilnun til aðila í heimavinnslu upp í 20.000 lítra.

Atli Gíslason formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar staðfestir að frumvarpið muni ekki klárast á yfirstandandi þingi. „Við fengum því miður ekki nógu marga fundi á nefndardögum til að geta klárað þetta mál. Við fengum bara tvo fundi og annar þeirra spilltist því að vinnufundur Sjálfstæðismanna var á sama tíma. Okkur var ekki gefinn tími til að klára þetta.“


Samfylkingin lagðist gegn málinu
Atli segist þó vonast til að nýtt frumvarp verði lagt fyrir á haustþingi. „Ég hef fengið fyrirheit um það hjá samstarfsflokknum að lagt verði fram nýtt frumvarp á næsta þingi og þá með verulegum breytingum. Hversu miklum veit ég ekki. Samfylkingin lagðist með öllum árum, bæði efnislega og formlega, gegn því að frumvarpið yrði samþykkt eins og það stendur nú. Þetta mál mun því daga uppi á yfirstandandi þingi.“


back to top