Mikil blóðtaka fyrir íslenska geitastofninn

Stórum hluta af einni stærstu geitahjörð landsins var slátrað í gær og er ljóst að þetta mikil blóðtaka fyrir geitastofninn. Í landinu voru einungis um 440 geitur í vor og með þessum niðurskurði hafa 55 geitur eða 12,5% af stofninum glatast. Þar með er mikilvægur erfðafjölbreytileiki tapaður en geitfjárstofninn íslenski er einstakur landnámsstofn í bráðri útrýmingarhættu.

„Ég er búin að hafa geiturnar í rúm þrjátíu ár. En lífið er nú einu sinni svona,“ sagði Ásdís Sveinbjörnsdóttir á Hofsósi í samtali við blaðamann Morgunblaðsins þegar hún beið eftir flutningabílnum sem flutti geiturnar í sláturhúsið. Hún var með geitféð á Ljótsstöðum en missti aðstöðuna.


Þegar fréttist af aðstæðum Ásdísar gengu Geitfjárræktarfélag Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og erfðanefnd landbúnaðarins í það að reyna að bjarga hluta geitanna. Bóndi annars staðar í Skagafirði var tilbúinn að taka tíu huðnukið, en til þess kom ekki vegna þess að héraðsdýralæknir heimilaði ekki flutninginn vegna varna gegn riðu.

Íslenska ríkinu er skylt að vernda og viðhalda eigin erfðalindum, svo sem stofnun sem ekki er að finna annars staðar, samkvæmt Ríósáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni. Íslenska geitfjárkynið fellur tvímælalaust undir þá skilgreiningu af því að það hefur verið einangrað hér í 1.100 ár. Hafa eigendur geita fengið tiltekna stofnverndarstyrki um árabil.


back to top