Mikið tjón á Þorvaldseyri

„Þetta er engu líkt og ótrúlegt að sjá þetta,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri að því er fram kemur á mbl.is. Ólafur er nú að skoða aðstæður heima við eftir flóð sem varð í Svaðbælisá fyrr í dag. Ljóst er að tjón á Þorvaldseyri er umtalsvert, leiðslur fyrir heitt vatn og kalt vatn eru í sundur sem og rafmagnsleiðslur. Vatnslaust er í fjósinu og forgangsmál í augnablikinu að reyna að tryggja að gripirnir fái vatn.

Heitavatnsleiðslan á Þorvaldseyri hefur bútast í sundur í flóðinu. Heimarafstöð er í gili ofan við bæinn. Ekki er vitað um ástandið á henni en rafmagnsleiðsla sem liggur frá stöðinni hefur farið í sundur.


Varnargarðar við bæinn hafa sópast í burtu. Íshröngl, grjót og aur er um allt. Tjón á túnum er þó minna en óttast var eftir hlaupið í Svaðbælisá. Vatnið er farið að sjatna í ánni en þar er þó enn mikið vatn.


Gil ofan við bæinn hefur hálffyllst af grjóti sem sýnir vel hversu gríðarlegir kraftar fylgdu flóðinu.


back to top