Merkingar á áburði hafa batnað verulega

Matvælastofnun birti ársskýrslu um áburðareftirlit fyrir árið 2012 milli jóla og nýárs. Samkvæmt henni fluttu 28 fyrirtæki inn 261 áburðartegund á árinu 2012 og nam heildarmagnið 51.753 tonnum. Innlendir framleiðendur eru 13, það eru fyrirtæki sem framleiða áburð eða jarðvegsbætandi efni á landinu. Áburðarfyrirtækin sem voru með einhverja starfsemi á árinu eru því 41. Sýnataka og vöruskoðun var gerð hjá 9 innflutningsfyrirtækjum og voru alls 55 áburðarsýni tekin á árinu. Auk þess voru merkingar og umbúðir skoðaðar.

Við efnamælingar kom í ljós að 8 áburðartegundir voru með meira frávik í efnainnihaldi en leyfilegt er samkvæmt ákvæðum reglugerða. Þar af voru 2 með of mikið kadmíuminnihald, 1 með of lítið köfnunarefni, 1 með of lítinn fosfór, 1 með of lítið kalsíum, 2 með of lítinn brennistein og 1 með of lítið magnesíum. Þessar tegundir hafa verið teknar af skrá Matvælastofnunar. Allt miðast við uppgefin gildi við skráningu og samkvæmt merkingum.


Merkingar áburðarins hafa batnað verulega frá fyrri árum og eru fáar athugasemdir gerðar þess vegna. Samræmi þarf að vera milli merkinga áburðar og þess sem gefið er upp við skráningu hans. Merkingar áburðarins eiga að vera á íslensku og hlutföll næringarefna af þyngd skulu skráð á merkingar.


Mikilvægt er að gera grein fyrir því hvort áburður, sem fyrirtæki hyggjast skrá, sé lífrænn eða ólífrænn. Þannig voru 5 tegundir teknar af skrá Matvælastofnunar og sala þeirra bönnuð vegna þess að við skráningu þeirra var gefið upp að þær væru ólífrænar en við skoðun merkinga reyndust þær vera lífrænar og merktar áberandi sem slíkar.


Sjá nánar:
Áburðareftirlit 2012


back to top