Meistaravörn við Auðlindadeild

Meistaravörn Sigurðar Þórs Guðmundssonar fer fram í Ásgarði, í Ársal á 3. hæð, á Hvanneyri, miðvikudaginn 7. nóvember 2007, kl. 15.00.

Verkefni Sigurðar er á sviði búvísinda og nefnist „Fosfór í íslenskri landbúnaðarjörð” eða Phosphorus in Icelandic agricultural soils.

Meistaranámsnefndin er skipuð Þorsteini Guðmundssyni prófessor sem er aðaleiðbeinandi og Hólmgeiri Björnssyni prófessor en prófdómari er Ríkharð Brynjólfsson prófessor. Allir starfa þeir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Deildarforseti Auðlindadeildar, Áslaug Helgadóttir prófessor, stjórnar athöfninni.
 
Ágrip
Fosfór er nauðsynlegt næringarefni plantna og mælist sem 0,1-0,4% af þurrefni þeirra. Helstu ferlar fosfórhringrásarinnar í jarðvegi eru upptaka plantna, umsetning dýra bæði sem búfjáráburður og plöntuleifar.

Stærstu svæði eldfjallajarðvegs (Andosols) í Evrópu eru á Íslandi. Íslenskur jarðvegur hefur alltaf verið álitinn fosfórsnauður og er sú skoðun byggð á mörgum áburðartilraunum sem gerðar voru á 20. öldinni. Tilraunir sýndu að það þurfti að bera stóra skammta af fosfór á nýbrotið land til að ræktun tækist. Notkun tilbúins áburðar hófst um 1900. Tilraunir með tilbúinn áburð og áhrif hans á uppskeru hófust um 1920. Leiðbeiningar um stærð skammta fosfóráburðar hafa aðallega verið byggðar á fáum tilraunum og reynslu einstakra manna, undir mismunandi áhrifum á hverjum tíma. Sjálfbær landbúnaður gerir kröfu um að notkun áburðarefna gefi af sér hagkvæma uppskeru og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið.

Jarðvegurinn sem er hér skoðaður flokkast sem Silandic Andosol og Histic Andosol á Sámsstöðum og Hemic Histosol á Hvanneyri. Þetta er hluti af langtímatilraunum með áburð sem hófust 1949, 1950 og 1970. Öll sýni voru skoluð með ammoniumlaktati, til að greina Ca, Mg, K, Na og P. Heildar- og lífrænt bundinn fosfór var greindur í 0,5 M H2SO4 fyrir og eftir glæðingu. Fe, Al, Si, Mn og P var greint í súru ammoníumoxalati. Hámarksbinding fosfórs í jarðvegi og losun í afjónuðu vatni var mæld.

Fosfóráburður jók rúmþyngd jarðvegsins, að öllum líkindum vegna aukins niðurbrots á lífrænu efni. Umframmagn af P áburði jók ólífrænan fosfór mældan sem PAL, Pinorg, Pox og Pan. Stærsti skammturinn, 39 kg P/ha í yfir 50 ár, jók fosfórmettun jarðvegs í 27%  í 0-5 cm dýpt, sem leiðir til uppsöfnunar mikils forða af auðleysanlegum fosfór eða yfir 380 kg P/ha.

Fosfór, borinn á umfram þarfir, er aðallega í ólífrænum efnasamböndum og hægt er að gera grein fyrir honum öllum í oxalatskoli. Fosfóráburður lækkar hlutdeild lífræns fosfórs af heildarfosfór sem bendir til lítillar hlutdeildar lífræns efnis í bindingu fosfórs. Hámarksfosfórbinding [.8]  er á bilinu 6,9 og 24,0 g P/kg. Það er sterk fylgni á milli kísils (r=0,97) og hámarks bindingar (Smax) í 1-49. Fylgni milli járns og hámarksbindingar var (r=0,86) í 9-50.


back to top