Matvöruverðið í Draumalandinu

Í dag (9.feb.) skrifar Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „Bónus boðar lægri álagningu á landbúnaðarvörur“ þar sem hún ræðir um auglýsingar Bónus um matvöruverð í „Draumalandinu“. Grein hennar fer hér á eftir:
„Um helgina birtist áhugaverð auglýsing frá verslunarkeðjunni Bónus um matvöruverð í „Draumalandinu“. Í auglýsingunni voru myndir af ýmsum landbúnaðarvörum á mjög lágu verði. Fram kom að svona gæti verðið litið út á Íslandi ef innflutningur á landbúnaðarvörum væri heimill án nokkurra gjalda. Samkvæmt þessu þykir greinarhöfundi ljóst að Bónusmenn hafa ákveðið að tími væri kominn til að lækka álagningu á matvörum. Það stenst illa samanburð við verð í nágrannalöndum okkar að raunhæft sé að bjóða landbúnaðarvörur á þessu verði nema gefa verulega eftir í álagninu, afnema hana með öllu eða hreinlega greiða með vörunni. Varla er ætlun þeirra að selja innfluttar landbúnaðarvörur með lægri álagningu en innlendar?

Bónusmenn segjast tilbúnir að bjóða neytendum skinnlausar danskar kjúklingabringur á 499 kr/kg. Í „Draumalandinu“ er ennþá 14% virðisaukaskattur og er þá verðið fyrir skatt 439 kr/kg. Meðalinnflutningsverð, CIF, á kjúklingabringum samkvæmt verslunarskýrslum á síðasta ári var nærri 418 kr/kg á frystum bringum (og vatnssprautuðum). Samkvæmt þessu er álagning Bónuss 21 kr eða 5% fyrir að skipa bringunum upp, koma í birgðastöð, keyra út í verslanir, selja og mæta rýrnun. Merkt verð á ferskum kjúklingabringum í Bónus samkvæmt auglýsingu sl. laugardag er 2.565 kr. Bónus gefur 10% afslátt við kassann en bringur eru stundum á tilboði með allt að 37,5% afslætti. Verð án vsk. er því lægst 1.400 kr/kg á tilboði en yfirleitt 2.025 kr/kg. Ekki liggja fyrir upplýsingar um innkaupsverð Bónuss á þessum bringum en ætla má að það sé 1.400 til 1.500 kr/kg. Bónus tekur því nær ríflega 500 kr/kg fyrir að selja innlendar bringur að jafnaði en gefur álagninguna eftir þegar um tilboð er að ræða. Samkvæmt auglýsingunni ætlar fyrirtækið að selja innfluttar frosnar bringur með um 21 kr/kg í álagningu. Það er töluvert lægri krónutala en þeir sætta sig við að leggja á íslensku kjúklingabringurnar.

Lambalæri frá Nýja-Sjálandi hyggst Bónus bjóða á 499 kr/kg. Verð í Færeyjum á innfluttu nýsjálensku lambalæri er 774 kr/kg út úr búð með virðisaukaskatti. Um helgina bauð Bónus innlent lambalæri á 878 kr/kg sem íslensk afurðastöð afhendir til búðanna. Hyggst Bónus borga með nýsjálensku lambakjöti?

Bónus lofar í auglýsingunni að bjóða íslenskum neytendum frosnar ungnautalundir á 1.199 kr. eða 1.052 kr. án. vsk. Innflutningsverð á nýsjálenskum nautalundum er tæpar 900 kr/kg skv. tollskýrslum. Eigum við að trúa því að álagning þeirra fyrir að skipa vörunni upp, tollafgreiða, koma í birgðastöð o.s.frv. muni aðeins nema 150 kr/kg? Í dag selur fyrirtækið nýsjálenskar nautalundir á 2.998 kr/kg og þar af er álagning Bónuss um eða yfir 800 kr. Bónus er því að boða gerbreytta álagningu á kjöt sem ber að fagna.

Viðskiptasamningar afurðastöðva og verslana eru ekki aðgengilegir og vitað að kjör eru misjöfn. Eftir því sem næst verður komist er álagning verslunar á pakkað, frosið og verðmerkt kjöt nálægt 20-30%, stundum minni en hugsanlega meiri í öðrum tilvikum. Í sumum tilfellum er skilaréttur innifalinn og oft fylgir að pakkaðri vöru er raðað í hillur og kæla. Af auglýsingu Bónuss er ljóst að fyrirtækið hyggst stórlækka álagningu sína og getur því lækkað innlendar landbúnaðarvörur um tugi prósenta án þess að komi til innflutnings. Það munar um minna!“

Fréttablaðið 9.febrúar 2007 bls. 30


back to top