Margir kúabændur stefna í gjaldþrot

Margir kúabændur eru í erfiðri stöðu vegna skulda og í nokkrum tilvikum virðist gjaldþrot óumflýjanlegt. Þetta á einkum við um bændur sem fjárfest hafa mikið á síðustu árum, byggt ný fjós, keypt vélar eða aukið við sig í framleiðsluheimildum. „Staðan er erfið hjá hópi bænda og verulega farið að taka á, ekki síst andlega,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Kúabændur í landinu eru um 700 talsins. Flestir eru þeir í Skagafirði, í Eyjafirði og á Suðurlandi, það er í uppsveitum Árnessýslu, Landeyjum og undir Eyjafjöllum. „Á þessum svæðum er mest hefð í nautgriparækt og um 75% mjólkurframleiðslu í landinu. Á síðustu árum fóru margir bændur í uppbyggingu og slógu lán, til dæmis í frönkum og jenum en gengi þeirra gjaldmiðla hefur hækkað mikið síðustu misseri.“


Skuldsetning miðað við veltu ræður því hver staða bænda er. Algengt er í dag á stærri búum að framleiðsluréttur á ári sé 300 þúsund lítrar og samkvæmt reglunni er velta slíkra búa um 35 millljónir kr. á ári.


„Menn eru í þokkalegum málum séu skuldirnar tvö- eða þrefaldar miðað við veltu bús. En þegar skuldir eru orðnar fjór- ef ekki fimmfaldar, kannski 150 til 200 millj. kr., fer að reyna verulega á. Þessir bændur kalla eftir varanlegum úrræðum eins og svo margir aðrir. Samþætting búrekstrar og heimilis gerir stöðu kúabænda frábrugðna stöðu flestra annarra atvinnurekenda. Margir bændur kvíða komandi vetri breytist staðan ekki,“ segir Baldur.

Morgunblaðið 19. september 2009


back to top