Losnaði undan fjallskilaskyldu

Landeigandi á Norðurlandi hefur, með dómi, losnað undan fjallskilaskyldu þar sem hann nýtir ekki afrétt. Hann fékk ógilt fjárnám sem Eyjafarðarsveit hafði látið gera til greiðslu fjallskilagjalda.
Á síðasta ári var gert fjárnám í eigum Harðar Snorrasonar, bónda í Hvammi í Eyjafjarðarsveit, vegna vangoldinna fjallskilagjalda til Eyjafjarðarsveitar fyrir árin 2003-2006 en þau námu tæpum hundrað þúsund krónum.

Hörður hefur nú fengið fjárnámið dæmt ógilt í Héraðsdómi Norðurlands
Eystra. Hann byggði mál sitt á því að óheimilt væri að innheimta
fjallskilagjald hjá þeim sem ekki nýti afrétt. Þar að auki væru þetta
þjónustugjöld og því ekki hægt að krefja þá sem ekki hefðu not fyrir
þjónustuna til að greiða gjöldin. Dómurinn féllst á að ekki væri stoð í
fjallskilareglugerð Eyjafjarðarsveitar til að innheimta fjallskil af
landverði heldur einungis af sauðfjáreign. 


back to top