Lög um búfjárhald og dýravernd sameinuð í lög um velferð dýra

Vorið 2008 var ákveðið að hefja skyldi endurskoðun á lögum um dýravernd og jafnframt að skoða ákvæði laga um búfjárhald og um friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, með það fyrir augum að samræma sem best ákvæði þessara laga og laga um dýravernd. Markmið með endurskoðuninni var meðal annars að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar yrði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd og að fara yfir hvort endurskoða þyrfti þvingunarúrræði og viðurlög laga um dýravernd.
Endurskoðun þessi hefur reynst umfangsmikil og nefnd sérfræðinga á þessu sviði hefur annast þetta verkefni og nú eru drög að frumvarpi til laga nær tilbúin. Nefndin kynnti sér löggjöf nágrannaþjóðanna á þessu sviði og þó einkum nýlega löggjöf Norðmanna, sem þykir skara fram úr, enda vel til verksins vandað á sex ára tímabili.

Í frumvarpinu er lagt til að heiti málaflokksins verði  breytt og að talað verði um lög um dýravelferð, þar sem talið er að hugtakið velferð dýra lýsi betur efnisinntaki frumvarpsins.  Frumvarpið miðar að því að stuðla að góðri meðferð dýra, t.d. með fyrirbyggjandi aðgerðum, en ekki einvörðungu vernd gegn því að ekki sé farið illa með dýr.


Fjölmargar nýjungar eru í frumvarpinu, sem ætlað er að auka velferð dýra.  Tekið er fram að nú verður skylt að fara vel með dýr, í stað þess að bannað sé að fara illa með dýr.  Gildissvið frumvarpsins nær m.a. til búfjár bæði í matvælaframleiðslu eða í annarri þjónustu við manninn, þ.e. nytja og sýningardýr og gæludýr, en einnig til þeirra dýra sem við köllum meindýr og tekið er fram að aflífun allra dýra, þ.m.t. meindýra, skuli framkvæmd á mannúðlegan hátt. Þá eru ákvæði um aðgerðir og meðhöndlun á dýrum skýrð mun betur en áður hefur verið í ljósi mikillar þróunar á þessu sviði á undanförnum árum. Því er  lagt er til að öll slík starfsemi skuli verða leyfisskyld, svo sem dýraspítalar, endurhæfingarstöðvar, þjálfunarstöðvar, sýninga- og keppnishúsnæði, dýragarðar og dýragæslur, hestaleigur og önnur sambærileg starfsemi. Sama gildi um dýrahald í atvinnuskyni. Þá er skylda til einstaklingsmerkinga aukin til muna og talið að það muni hafa hagræði í för með sér þegar kemur að handsömun dýra sem tapast hafa. Það er talið til góðrar dýravelferðar að hægt sé að koma slíkum dýrum til sinna umráðamanna fljótt og vel. Þá hafa þvingunarúrræði verið  gerð mun markvissari og þeim ætlað að auðvelda eftirlitsaðila að tryggja aukna dýravelferð og að geta brugðist hraðar við þegar um er að ræða brot á lögunum.  Í frumvarpinu er kveðið á um fjölbreyttari heimildir til að bregðast við ólíkum brotum að eðli og alvarleika og  m.a. koma  inn nýmæli um stjórnvaldssektir við ákveðnum brotum .


Að lokum skal þess getið að til þess að einfalda stjórnsýslu og auka á skilvirkni í þessum málaflokki þá er gert ráð fyrir að fela hann einu ráðuneyti, um hann gildi ein lög og einni stofnun falið að hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Það verður  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem mun fara með  yfirstjórn mála og Matvælastofnun verður falið allt eftirlit.


back to top