Lífdísel eykur frekar á gróðurhúsavandann

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur heldur úti vinsælli bloggsíðu þar sem hann ritar um sín áhugamál sem einkum eru tengdar veðri. Nýlega ritaði hann áhugaverða grein sem ber ofangreinan titil. Greinin er hér birt orðrétt:

„Í nýjasta hefti Science, 17.ágúst sl eru þrjár athyglisverðar greinar sem tengjast veðurfarsbreytingum. Í einni þeirra eftir tvo breska vísindamenn er fjallað um lífdísel og hvaða afleiðingar það kunni að hafa á orkubúskap jarðar eða þann hluta sem stendur fyrir brennslu á lífrænu eldsneyti. Og þar með einnig á losun gróðurhúsalofttegunda.

Lífdísel, etanól og annað eldsneyti sem fæst með einhverjum hætti við ræktun jarðargróðurs er ein þeirra tískulausna sem mikið hefur verið látið með upp á síðkastið sem ein þeirra leiða sem dregið gæti úr losun á koltvísýringi.  Nokkur ríki hafa nú þegar sett stefnuna á aukin hlut lífræns eldsneytis, m.a. ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen í Danmörku ákveðið að í árslok 2007 skuli 2% alls eldsneytis vera lífdísel o.þ.h.  og árið 2010 skuli þetta hlutfalla vera komið upp í 6% (Mbl. 5. jan 2007).


Lífdísel er einkum framleitt með ræktun á repju, maís og sykurreyr.  Ekkert óeðlilegt er við það að aukaafurðir í þessari matvælaræktun, hratið eða hvað við viljum kalla það sé nýtt m.a. til gerðar eldsneytis eða til íblöndunar í eldsneyti. Slíkt flokkast undir góða nýtingu. Stóraukin eftirspurn kallar hins vegar á að ræktað verði nær einvörðungu til eldsneytisgerðar gefu hún meira af sér en sú ræktun sem fyrir var.


Bretarnir tveir hafa reiknað út og birt í Science að verði aðeins 10% af bensín og díselnotkuninni í Bandaríkjunum og Evrópu skipt út fyrir lífdísel og etanól mun það eitt krefja um 43% alls ræktarlands í Bandaríkjunum og 38% í Evrópu!  Það sem verið er að draga fram er að eldsneytisframleiðslan muni m.ö.o. keppa um jarðnæði við matvælaframleiðsluna og einnig þær plantekrur sem nýttar eru til baðmullarræktunar. Slík samkeppni um ræktarland muni á endanum leiða til þess að skógar verða ruddir og önnur sambærileg svæði sem í dag geyma mikinn kolefnisforða m.a. í jarðvegi.  Sá kolefnisforði sem þannig tapast við ræktun landsins sé meiri en sem nemur ávinningnum af lífræna eldsneytinu.


Höfundar greinarinnar Righelato og Spreclen gefa þessi ráð til stjórnmálamanna heimsins  sem fást við aðgerðir til að stemma stigu við losun GHL:


Ef markmiðið með lífrænu eldsneyti (bíodísel) er það að hægja á hlýnun lofthjúps jarðar væri það meira virði til skemmri tíma (30 ár) að auka nýtni hefðbundins eldneytis, varðveita skóglendi og steppur á jöðrum hitabeltisins ásamt því að rækta skóg og endurheimta landgæði á þeim svæðum sem ekki eru nýtt til matvælaframleiðslu, beinnar og óbeinnar.


Þessi ádrepa er afar þörf að mínu mati inn í umræðuna um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum“.


Smá neðanmálsviðbót. 
Lífrænt eldsneyti er safnheiti fyrir æði margt.  Bensín, olía og gas er lífrænt eldsneyti. Þar er um ævafornar umbreyttar gróðurleifar að ræða.  Metan er líka lífrænt eldsneyti en hafa ber í huga að það verður til við niðurbrot lífrænna efna, m.a. í úrgangi.  Metan fellur því ekki undir það eldsneyti sem fjallað er umi hér að ofan, enda er Metan upplögð gastegund til brennslu og þar með sem orkugjafi, enda er Metan sé því sleppt lausu mun áhrifaríkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.


back to top