Liðlega þrír af hverjum fjórum fylgjandi ríkisstuðningi við landbúnað

Í könnun sem fyrirtækið MMR, Markaðs- og miðlarannsóknir ehf., hefur gert kemur í ljós að liðlega þrír af hverjum fjórum aðspurðum, 76,3%, kváðust frekar eða mjög fylgjandi því að ríkið eigi að greiða styrki til íslensks landbúnaðar. Mjög athyglisvert er að ríkisstyrkir til landbúnaðar njóta mest fylgis í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, en þar eru 82,8% frekar eða mjög fylgjandi þeim. Það sama gildir um 73% þeirra sem eru 30-49 ára og 75,5% þeirra sem eru 50-67 ára en könnunin náði til fólks á aldrinum 18-67 ára.

Konur eru frekar fylgjandi því en karlar og verulegur munur er á afstöðu manna eftir búsetu. Þannig eru 15,6% þeirra sem búa á landsbyggðinni andvígir ríkisstyrkjum en 29% höfuðborgarbúa.Einnig er forvitnilegt að skoða afstöðu fólks eftir efnahag en þar kemur fram að yfir 80% þeirra sem eru með undir 400.000 krónum í máðartekjur eru fylgjandi ríkisstyrkjum en svo dregur úr stuðningnum eftir því sem tekjurnar hækka. Í hópnum sem er með yfir 800.000 krónur á mánuði eru 33,5% andvígir ríkisstuðningi við landbúnað.


Könnun MMR er síma- og netkönnun með 932 þátttakendum en af þeim tóku 90,6% afstöðu til spurningarinnar. MMR átti sjálft frumkvæði að þessari könnun og ber alla ábyrgð á henni en hún var gerð dagana 3.-5. mars síðastliðinn.


Könnun MMR á afstöðu fólks til þess hvort ríkið eigi að greiða styrki til íslensks landbúnaðar


back to top