Landbúnaðarsýning á Hellu 22.-24. ágúst

Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands 2008 verður haldin landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 22.-24. ágúst næstkomandi. Landbúnaðarsýningin á Hellu 2008 verður ein sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið hérlendis um árabil. Sýningin verður þróunar- og tæknisýning jafnframt því sem hún kynnir hlutverk og stöðu íslensks landbúnaðar í þjóðfélaginu. Markmið sýningarinnar er að kynna fjölbreytni íslensks landbúnaðar, hátt tæknistig og þá miklu þekkingu sem er að finna innan greinarinnar.

Sýningin verður fjölbreytt og viðamikil; hvort tveggja í senn metnaðarfull fagsýning fyrir landbúnaðinn og tengdar greinar og neytendasýning fyrir almenning. Þar verða sýnd tæki og vélar, afurðir og búfé auk þess sem kynnt verður ýmis þjónusta og vara sem tengist landbúnaðinum. Fjölmörg búgreinafélög taka þátt í sýningunni, þjónustuaðilar landbúnaðarins, seljendur rekstrarvara, skólar og stofnanir. Vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði alla sýningardagana og má þar nefna að hin árlegu Töðugjöld á Hellu verða hluti af dagskrá sýningarinnar. Því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort heldur er fólk úr landbúnaðargeiranum eða þéttbýlinu.


Á Gaddstaðaflötum er í byggingu rúmgóð reiðhöll fyrir Landsmót hestamanna sem haldið verður á svæðinu í sumar en sú aðstaða mun nýtast Landbúnaðarsýningunni vel. Þar er auk þess mikið landrými, næg bílastæði, tjaldsvæði, hjólhýsa- og fellihýsasvæði, veitingaaðstaða svo að nokkuð sé nefnt. Svæðið er því vel í stakk búið til að taka við sýningu af þessari stærð.
Samstarfsaðilar Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu 2008 eru Mjólkursamsalan, Kaupþing, Bændasamtökin, Sláturfélag Suðurlands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.


Sala sýningarsvæða er hafin á vef sýningarinnar; www.landbunadarsyning.is. Einnig má leita upplýsinga með því að hringja í síma 480 1809 eða senda tölvupóst á johannes@bssl.is.


Nánari upplýsingar veitir:
Jóhannes Hr. Símonarson, framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu 2008, í síma 480 1809 eða farsíma 898 3109.


 


back to top