Landbúnaðarstofnun fær á sig stjórnsýslukæru

Á aðalfundi LK árið 2006 var samþykkt ályktun þess efnis að skora á Landbúnaðarstofnun „að birta ætið upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað“.  Tillögunni fylgdi greinargerð þar sem vísað var til þess að á heimasíðu Aðfangaeftirlitsins kæmi fram að 8 af 31 sýni sem tekin voru 2004 stæðust ekki kröfur sem og 10 af 45 sýnum sem tekin voru árið 2005. Engar frekari upplýsingnar komu fram um hvaða áburðartegundir þetta væru eða frá hvaða innflutningsaðilum.

Aðalfundur BSSL 2006 tók undir tillögu LK nokkrum dögum síðar var tillagan samþykkt samhljóða á báðum stöðum.

Í bréfi, dagsettu 8. mars 2007 tilkynnti Landbúnaðarstofnun BSSL að ákveðið hafi verið að birta á heimasíðu Landbúnaðarstofnunar allar niðurstöður efnagreininga á áburði sem gerðar eru á hennar vegum með upplýsingum um áburðartegundir og innflutningsfyrirtækin. Gerði Landbúnaðarstofnun ráð fyrir að niðurstöður áburðarefnagreininganna yrðu birtar í einu lagi nú á haustmánuðum.

Nú hefur það gerst að Landbúnaðarráðuneytinu hefur borist stjórnsýslukæra vegna þessarar ákvörðunar Landbúnaðarstofnunar. Landbúnaðarráðuneytið hefur því lagt fyrir Landbúnaðarstofnun að birta ekki niðurstöður rannsókna um efnainnihald áburðar fyrir árið 2007 á meðan ráðuneytið er með þetta mál til skoðunar.

Verður ekki annað sagt en að stjórnsýslukæra á hendur Landbúnaðarstofnunar vegna þessa máls sé nokkuð undarleg og eðlilegt að menn velti fyrir sér ástæðum hennar. Ástæða tillagna LK og BSSL var einfaldlega að það væri réttur bænda sem neytenda að vita frá óháðum eftirlitsaðila hvaða áburðartegundir stæðust ekki þær reglugerðarkröfur sem Landbúnaðarstofnun vinnur eftir.

Í kjölfar þess að Landbúnaðarstofnun mun ekki birta sínar niðurstöður í bráð a.m.k. ákvað áburðarsöluaðilinn Betra land ehf. að birta þær efnagreiningarniðurstöður sem Landbúnaðarstofnun tók úr áburði sem fyrirtækið seldi á liðnu vori.

Í fréttinni sem fylgir birtingu efnagreiningarniðurstaðnanna segir að fyrirtækið vilji taka fram að það sé ekki á nokkurn hátt aðili að stjórnsýslukærunni. Einnig er tekið fram að efnagreiningarniðurstöðunum sé ekki ætlað að vera auglýsing eða söluhvetjandi heldur aðeins til upplýsinga fyrir notendur áburðar frá Betra landi árið 2007.


back to top