Lánasjóður landbúnaðarins gerir kröfu á hendur Landsbankanum

Lánasjóður landbúnaðarins er einn þeirra lögaðila sem gera fjárkröfu á hendur Landsbanka Íslands en eins og kunnugt er var skipuð skilanefnd yfir bankanum 7. október 2008. Vekur það nokkra athygli að sjóður sem lagður var niður fyrir fjórum árum sé kröfuaðili nú. Skýring þess er sú að Lánasjóðurinn átti lausafé sem varðveitt var við sölu lánasafns sjóðsins árið 2005 og eru þetta þeir fjármunir.

Lánasjóður landbúnaðarins var seldur haustið 2005 til Landsbanka Íslands að afloknu útboði sem var á hendi framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Um var að ræða tilgreindar eignir og skuldir sjóðsins og var kaupverðið 2.653 milljónir króna. Með kaupunum færðust viðskipti um þrjú þúsund viðskiptamanna sjóðsins til Landsbankans. Alls voru lán sem færðust til Landsbankans um tíu þúsund talsins að fjárhæð nálega fjórtán milljarðar króna. Eftir kaup Landsbankans á sjóðnum urðu hins vegar umtalsverðar hræringar á lánamarkaði bænda og ýmsir færðu lán sín og viðskipti til annarra fjármálastofnanna.


Samið var um að kaupverð sjóðsins skyldi notað til styrkingar Lífeyrissjóði bænda og lögðu stjórnvöld 2.630 milljónir króna til sjóðsins í lok árs 2005. Hluta þeirra fjármuna sem eftir stóðu af kaupverði auk annarra fjármuna sem sköpuðust af eignum og lausafé sjóðsins átti að nýta til uppbyggingar reiðhalla um landið og á árinu 2006 voru meðal annars lagðar 260 milljónir króna í það verkefni.


Nú er hins vegar svo komið að þrátt fyrir að Lánasjóður landbúnaðarins hafi verið lagður niður árið 2005 lýsir hann kröfum á hendur Landsbankanum. Krafa sjóðsins hljóðar upp á 310.914.630 krónur og er tilkomin vegna þess að sjóðurinn átti lausafé sem varðveitt var í bankavíxlum í Kaupþingi og brann inni í bankahruninu að sögn Ingimars Jóhannssonar skrifstofustjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ástæða þess að gerð er krafa á hendur Landsbankanum vegna fjármuna í Kaupþingi er sú að þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur haustið 2005 urðu þessir fjármunir eftir í Kaupþingi en á kennitölu Lánasjóðs landbúnaðarins með heimilisfangi í Landsbankanum. Að sögn Ingimars voru það mistök af hálfu Kaupþings að heimilsfang sjóðsins skyldi ekki fært frá Landsbankanum til ríkissjóðs. Fjármunirnir voru í raun eign ríkissjóðs sem átti og rak Lánasjóð landbúnaðarins á sínum tíma en ekki var búið að ganga frá uppgjöri þessara eigna frá sölu sjóðsins. Óljóst er hvort um glataða fjármuni er að ræða en það fer allt eftir því hvert endurheimtarhlutfall fjármuna verður hjá Landsbankanum. Því er ekki óvarlegt að ætla að ríkissjóður verði af þessum fjármunum, í það minnsta hluta þeirra.


back to top