Kúabændur ekki ánægðir með breytingar á reglum um aðilaskipti greiðslumarks

Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið gaf út í vikunni reglugerð um breytingar á reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Þar er tekinn af allur vafi á að reglugerðin taki ekki til eigendaskipta að lögbýlum með greiðslumark, að kaup- og sölutilboð skuli berast til MAST eigi síðar en 25. maí og 25. nóvember, svo sannreyna megi tilboðin áður en markaður er haldinn þann 1. næsta mánaðar. Einnig er bætt við grein um að kauptilboðum skuli fylgja bankaábyrgð.

Náist ekki fullt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar greiðslumarks skiptist greiðslumark sem selt verður hlutfallslega milli kaupenda í samræmi við magn hvers tilboðsgjafa. Leiguliðar fá nú 20 daga frest til að kaupa greiðslumark jarðarinnar á jafnvægisverði, í stað 10 daga áður.

Það vekur mikla athygli að ekki er að finna í reglugerðinni ákvæði um að fyrsti markaður skuli haldinn 15. september n.k., þar sem hægt verði að eiga viðskipti með greiðslumark sem gildir á yfirstandandi verðlagsári, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli bænda og samtaka þeirra þar um. Sú ákvörðun ráðherra veldur mjög miklum vonbrigðum og mun valda nokkrum fjölda bænda umtalsverðum búsifjum.


Kúabændur eru ekki ánægðir með ákvörðun ráðherra og hefur Landssamband kúabænda sent frá sér eftirfarandi ályktun:


„Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur gefið út breytingu á reglugerð nr. 430/2010 um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Frá setningu reglugerðarinnar þann 17. maí sl. hefur gætt verulegrar óánægju meðal kúabænda, vegna þess að með henni voru viðskipti með greiðslumark stöðvuð út yfirstandandi verðlagsár, sem lýkur 31. desember nk. Stöðvun viðskipta um svo langt skeið veldur nokkrum fjölda kúabænda verulegum búsifjum. Til þess að ráða bót á þessum annmörkum og öðrum sem á reglugerðinni voru, var settur á fót starfshópur með fulltrúum ráðuneytisins, LK, BÍ og MAST í nýliðnum júnímánuði. Þar var m.a. lagt upp með að fyrsti markaðsdagur kvótamarkaðarins yrði 15. september nk. og byggði aðkoma LK að starfshópnum alfarið á þeirri forsendu. Með þeim breytingum á reglugerðinni sem nú hafa verið gefnar út, er ljóst að ráðherra hefur ekki fallist á að fyrsti markaðsdagur verði 15. september 2010, þrátt fyrir að út frá því hafi verið gengið í vinnu starfshópsins. Stjórn Landssambands kúabænda lýsir furðu sinni á framgangi ráðherra í þessu máli og fær ekki séð hvaða sjónarmið eða hagsmunir ráða ákvörðun hans. Með þessu er hætt við að góð hugmynd að stórbættu skipulagi á viðskiptum með greiðslumark bíði verulegan hnekki, auk þess sem ákvörðun ráðherra veldur kúabændum fjárhagslegum skaða. Lýsir stjórn Landssambands kúabænda allri ábyrgð vegna þessa á hendur ráðherra.“


Undir ályktunina ritar Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK.


Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 430/2010, um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum, með síðari breytingum.



 


back to top